07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Jónas Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer að koma með brtt. við frv. þetta nú, en vanst ekki tími til þess.

Það, sem jeg vildi breyta hjer, er það, að engin ríkisstjórn megi leyfa stórvirkjun án leyfis þingsins.

Í neðri deild komu fram brtt. um að miða sjerleyfi það, sem stjórnin mætti veita án samþykkis Alþingis, við 10 þús. og 15 þús. hestöfl, en þær brtt. voru báðar feldar.

Það er því þetta atriði, sem jeg hefi gert ráð fyrir að bera fram brtt. um við 3. umr. Því þar sem svo mjög er liðið á þingtímann sem nú, treysti jeg mjer ekki til að koma með aðrar brtt. en um það, sem er beinlínis stefnumál. Annars finst mjer það dálítið hjákátlegt, að forðast skuli vera í frumvarpi þessu að nefna eignarrjettinn yfir vatninu. Er það ekki nema tepruskapur einn, því að vatnalögin eru bygð á þeim grundvelli, að sá eigi vatnið, sem eigi grundvöllinn, er vatnið rennur um.