31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Þórðarson:

Jeg á tvær brtt. við þennan kafla fjárlaganna, sem jeg leyfi mjer að fylgja úr hlaði með nokkrum orðum. Báðar eru brtt. þessar á þskj. 235, sú fyrri undir rómverskum XXXIX, um 1500 kr. styrk til þess að gera tvo fossa í Norðurá í Mýrasýslu laxgenga, og er upphæðin miðuð við helming kostnaðar. Jeg skal geta þess strax, að mjer barst fyrir nokkru brjef frá mönnum þar efra um styrk frá Alþingi í þessu skyni, en þá var störfum hv. fjvn. svo langt komið fyrir þessa umr., að þar varð engu um þokað, svo þess vegna ber jeg þetta sjálfur fram. Það er vaknaður áhugi mikill meðal hreppsbúa um að gera fossa þessa laxgenga, og heita þeir nú á liðsinni þingsins um aðstoð við tilraun þessa. Það mun talið áreiðanlegt, að lax gangi ekki upp fyrir Glanna, en eitthvað slæðist upp neðra fossinn, þótt í smáum stíl sje. Hreppsfjelagið vill þó talsvert á sig leggja um tilraun þessa, en byggir styrkbeiðni sína á því fordæmi, er gerðist hjer á þingi 1923, þegar Borgfirðingar fengu styrk til þess að gera fossa í Laxá laxgenga.

Jeg býst við, að hjer sje um merkilega tilraun að ræða og að með þessu verði löxunum kent að finna nýja og ábyggilega trygga hrygningarstaði, sem nóg kvað vera af víðsvegar í Norðurá, þegar upp fyrir fossana kemur. Hins vegar er hjer um svo litla upphæð að ræða fyrir ríkissjóð, og getur hún þó komið í góðar þarfir.

Eftir að jeg hafði samið þessa brtt. komst jeg að því, að styrkurinn til Borgfirðinga um að gera Laxá laxgenga var miðaður við 2/3 kostnaðar, en hjer er farið fram á helming upphæðar. Ætla jeg því samræmis vegna að taka till. þessa aftur til 3. umr., svo að jeg geti breytt henni.

Þá er hin brtt., og hún er sú næstsíðasta í röðinni (XLVII). Guðmundur Björnsson sýslumaður hefir beðið um hagstæðari skilyrði eða kjör á láni því, er hann tók í viðlagasjóði, þegar hann reisti sýslumannshúsið í Borgarnesi árið 1921. Það er alkunnugt, að vaxtakjörin hafa verið erfið á þessum árum og reynst honum afskaplega þung, svo að hann treystir sjer ekki að rísa undir þeim næstu ár, auk þess sem þau hafa haft óheillavænleg áhrif á fjárreiður hans að öðru leyti. Þessi maður hefir síðan hann tók við sýslunni verið pólitískur andstæðingur minn, svo það er ekki af neinum stjórnmálavinaböndum, að jeg ber þessa brtt. fram, enda fyrirgef jeg honum það, en það er vegna hinna mörgu mannvænlegu barna hans, sem jeg vil reyna að rjetta honum hjálparhönd. Börn hans eru mjög efnileg og komin á þann aldur, að þau þurfa að fara að heiman til að mentast, en eins og fjárhag sýslumanns er komið, tel jeg vafasamt, að hann geti klofið þann kostnað. Hjer gefst Alþingi því tækifæri til að liðka svo um fyrir efnalitlum föður, að hann sjái efnilegum börnum sínum fyrir góðri mentun, er síðar í framtíðinni geta orðið landi og þjóð að miklu gagni.

Jeg vænti þess því, þar sem þetta hvorttveggja fer saman, að till. mín kemur lítið við fjárhag ríkissjóðs í nánustu framtíð, en er hins vegar mikils verð fyrir efnalega afkomu þessa manns og framtíð barna hans, að hv. deild taki vel í þetta mál.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir að vísu borið fram till., er gengur í sömu átt og mín, en setur þó nokkuð önnur skilyrði og ekki eins hagstæð. Jeg vona, að það verði ekki minni till. að fótakefli, þótt önnur slík till. sje fram komin.

Annars mun jeg ekki fjölyrða meira um þetta mál. Það er ekki vandi minn að tefja tíma þingsins með málalengingum. Þótt jeg hafi mínar ákveðnu skoðanir á ýmsu, er hjer er um rætt, og sumt sje svo vaxið, að ástæða sje til að tala um það, mun jeg þó ekki tefja fyrir því, að þessum umræðum verði lokið í dag.