21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

30. mál, laun embættismanna

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg þarf í rauninni ósköp lítið að mæla gegn því, sem fram hefir komið. Háttv. minni hl. leggur mesta áherslu á það, að dýrtíðaruppbótin sje tímabundin. Hið sama vill og hv. 2. þm. Skagf. (JS), þótt hann teldi tímatakmark hv. minni hl. helst til þröngt. Jeg og meiri hl. yfirleitt erum þessu ekki sammála. Við ætlum, að eins mikil og óvissan er framundan, þá sje ekki rjett að binda þessi uppbótarákvæði við 2–5 ár eða neitt sjerstakt tímabil. Reynslan hefir og sýnt, að óþarft var að binda þetta við ákveðinn tíma í upphafi. Og þótt ekki sje neitt tímabundin uppbótin, þá er langt frá því, að henni megi ekki breyta, ef ástandið verður annað, því að í frv. stendur skýrum stöfum, að ákvæðin um uppbótina standi „þangað til öðruvísi verður ákveðið.“ Eins er það, að það er langt frá því, að þetta, að láta lögin gilda um ákveðinn tíma, sje starfsmönnunum nokkuð í vil; það fælir þá miklu fremur frá. Því þar sem öll afkoma manna er undir uppbótinni komin, væri, ef ríkið eða löggjöfin vildi binda hana við ákveðinn tíma, það sama og að bjóða embættismönnum upp á eins árs ábúð án nokkurrar vissu um komandi skilmála. Væri mönnum ekki láandi, þótt þeir yrðu tregir til að ganga að slíku, því þesskonar ábúðarrjettur hefir aldrei verið talinn hagstæður. Jeg vil því mæla með því, að till. sje feld. Mætti vera, að hún væri sanngjarnari, ef hún væri rýmri, en jeg fyrir mitt leyti hefi altaf litið svo á, að heppilegast væri að hafa þetta óákveðið.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir borið fram brtt., sem útbýtt var hjer í dag. Nefndin hefir því enga afstöðu tekið til hennar. Eins og skýrt var frá og öllum er ljóst, er það miðlunartill. Get jeg sagt það fyrir mitt leyti, að mjer finst hún stórum aðgengilegri en lögin sjálf óbreytt og að hún bæti mikið úr skák. En hún rúmar samt sem áður í sjer alt ósamræmi þess að hafa yfirleitt nokkurt hámark. Eins bætir hún ekki úr, þegar dýrtíðaruppbótin fer of hátt, eins og 1921, þegar t.d. biskup og allir kennarar við háskólann voru á sömu launum. Hún bætir aðeins úr, ef dýrtíðaruppbótin er um eða undir 60%. Það er ekki heldur rjett að hafa takmörk, þótt sveiflan fari upp á við. Það er vitleysa, að menn á hærri launum fái ekki rjetta uppbót, heldur sjeu öll laun gerð jöfn með launauppbótinni. En í þá átt er nú farið. T. d. fær dómstjóri hæstarjettar, eins og jeg benti á, sama sem enga uppbót undir núverandi fyrirkomulagi. Mjer virðist allir tala gegn aukadýrtíðaruppbótinni eða að minsta kosti vera deigir við að samþykkja hana. Menn segja, að hin lægra launuðu störf sjeu aukastörf. Það má kalla þau því nafni. En það kemur ekki heim við reynsluna. Hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. 2. þm. Skagf. (JS) hafa talað um þetta. En þeir hafa ekki gætt þess, að einmitt sá flokkurinn, sem fær lægst launin og mest stundar starfið sem aukastarf, sem sje símameyjarnar, hefir samt fengið aukauppbót í fjárlögunum. Enda finna allir það, að þótt þetta sje nefnt ígripastaða, þá er ómögulegt að komast hjá því að bæta það upp og tæplega að ríkið standi sig við það að launa hana svo lágt, að einhleyp stúlka sje ekki matvinnungur fyrir hana. Nærri má þá geta, hvernig fjölskyldumönnum vegnar í þessum stöðum og þeim, sem líkt eru launaðar. Og þó að menn taki þessar stöður ef til vill meira sem bráðabirgðaatvinnu, þá er ekkert vit í því að láta menn á þeim árum neyðast til að stofna skuldir, eða hækka þær skuldir, sem þeir koma með frá undirbúningstímanum undir stöðurnar. Ef þetta verður samþykt, fá þeir, sem lægst eru launaðir, ríflegasta uppbót. Síðan fer hún lækkandi eftir því sem launin hækka. Það er ekki rjett, að þessar 40 þús. kr. verði aukreitis, því að 10 þús. kr. styrkurinn í fjárlögunum fellur þá niður.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) þarf jeg ekki að svara. Jeg tók fram í fyrri ræðu minni, hvað fyrir meiri hlutanum vakti, þegar hann undanskildi barnakennarana. Jeg veit, að þeir eru ekki ofsælir af launum sínum. En þó að reynt sje að bæta upp allra lægstu launin, verður að sleppa mörgum, sem hafa lág laun.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar. Jeg óska, að brtt. meiri hl. nefndarinnar verði samþyktar, og svo bið jeg auðvitað mjög vel fyrir minni tillögu.