31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Ottesen:

Jeg á hjer við þennan kafla fjárlaganna ásamt hv. þm. Str. (TrÞ) eina brtt. á þskj. 235, 43. liður, við 17. gr. 8, um að styrkurinn til Goodtemplarareglunnar verði hækkaður um 2000 krónur.

Fyrir þinginu liggur rökstudd umsókn frá Stórstúku Íslands, þar sem farið er fram á nokkru hærri styrk en gert er hjer í þessari brtt. Við flm. höfum farið hjer milliveg.

Bindindisstarfsemin er, eins og kunnugt er, rekin hjer af miklum áhuga og dugnaði, og er alt það starf unnið af sjerstakri ósjerplægni og innilegri umhyggju fyrir velferð almennings.

Eftir því, sem frá er skýrt í erindi stórstúkunnar, hafa á árinu sem leið verið stofnuð 8 bindindisfjelög og 4 barnastúkur, og á því sama ári sendi stórstúkan Indriða Einarsson á bindindismannaþing í Osló, og um líkt leyti mætti Einar H. Kvaran á alþjóðafundi, er alheimsfjelagið gegn áfengisbölinu hjelt í Kaupmannahöfn.

Starfsemi fjelagsins innanlands og þátttaka þess í slíkum alþjóðafundum kostar vitanlega mikið fje, og það svo mikið, að þrátt fyrir stóraukin fjárframlög frá bindindisfjelögunum og styrk þann, er fjelagið hefir fengið úr ríkissjóði, hrekkur það hvergi nærri til.

Við flm. treystum því, að hv. deild sýni þessu góða málefni þann velvildarhug að samþykkja þessa hækkun á styrknum. Mun jeg því láta þetta nægja.

Eins og nál. fjárveitinganefndar ber með sjer og hv. frsm. (TrÞ) hefir árjettað, hafa Borgfirðingar farið þess á leit að fá greidda tvo fimtu af stofnkostnaði við Hvítárbakkaskólann, í samræmi við stefnu þá, sem tekin var upp á síðasta þingi í styrkveitingu til alþýðuskólans í Þingeyjarsýslu, og gat jeg þess þá í umræðunum um það mál, að sú stefna, sem væri mörkuð með því, hlyti að hafa það í för með sjer, að þeir skólar, sem þegar væru komnir á laggirnar, krefðust hins sama. Það er heldur ekki nema sanngjarnt, að þau hjeruð, sem hafa brotið ísinn í þessu efni án þess að fá nokkurn byggingarstyrk og haldið skólunum uppi þessi erfiðu ár með miklum kostnaði, njóti hjer fullkomins jafnrjettis.

Að vísu hefir Alþingi veitt skólanum nokkurn rekstrarstyrk undanfarið, eins og öðrum alþýðuskólum, en þrátt fyrir það hafa þeir, sem að skólanum standa, orðið að láta mikið af mörkum, því að leggja mismuninn á nemendurna í hækkuðum skólagjöldum hefði auðvitað verið sama og að loka skólanum.

Á þessu byggist það, að Borgfirðingar fara fram á að fá þennan hlutfallslega styrk við nýju skólana, sem myndi nema 36 þús. kr. En ef Alþingi sjer sjer ekki fært að verða við þessari kröfu þeirra nú að þessu sinni, fara þeir fram á til vara, að þeim sje gefið eftir viðlagasjóðslán, að upphæð 18666 kr. Um þetta segja þeir svo í umsókn sinni:

„Ef Alþingi, gegn von vorri, sæi sjer ekki fært að veita stofnstyrk þennan í fjárlögunum fyrir 1926, viljum vjer sem varaumsókn fara þess á leit, að það gefi skólanum á Hvítárbakka eftir þær kr. 18666,66, er hann skuldar viðlagasjóði. Því með þeim skuldum, er á honum hvíla, — ca. 60 þús. kr. fyrir utan hlutafje — og litlum tekjum, er honum á engan hátt unt að standa í skilum með allar afborganir og vexti. Kæmi þessi eftirgjöf á láninu upp í væntanlegan stofnstyrk, sem Alþingi veitti skólanum á sínum tíma“.

Meiri hluti fjárveitinganefndar gat ekki fallist á að verða við aðaltillögu þeirra um 36 þús. kr. stofnstyrk, en hinsvegar leggur nefndin eindregið til, að skólanum skuli veitt eftirgjöf á láni þessu. Er honum mikill styrkur að því, og ætti þá að vera trygt, að hann geti haldið áfram að starfa, enda munu hjeraðsbúar halda áfram að leggja alla rækt við skólann og sýna sömu ósjerplægni og áhuga fyrir honum og að undanförnu, og starfsemi skólans þar með trygð, svo framarlega sem ekki verður dregið úr þeim styrk, sem ríkið leggur til hjeraðsskólanna. Þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta. Jeg vildi aðeins láta í ljós þá skoðun mína, sem jeg hefi áður gert grein fyrir í sambandi við Þingeyjarsýsluskólann, að þeir skólar, sem þegar hafa verið settir á stofn, eigi fylstu sanngirniskröfu á hlutfallslega jafnmiklum styrk, og geng jeg út frá því sem sjálfsögðum hlut, að Hvítárbakkaskólinn fái síðar fulla rjetting mála sinna og verði ekki settur skör lægra hvað þetta snertir en Þingeyjarsýsluskólinn og þeir alþýðuskólar, er reistir kunna að verða hjer eftir.

Það eru ennþá eitt eða tvö atriði, sem jeg hefði gjarnan viljað minnast á, en þar sem jeg veit, að aðrir muni gera það, þá sleppi jeg því að þessu sinni.