07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

23. mál, atvinna við siglingar

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að tala langt mál, því að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa. Eins og hv. þm. (JAJ) sagði, var 2. gr. sett inn í frv. í hv. Ed., og er það vegna þess, að breyting er að verða á útgerðinni hjer á landi, í þá átt, að í stað mótorbáta eru menn farnir að fá sjer stærri vjelskip, alt upp undir 150 rúmlesta. En til þess að þetta geti lánast, ritheimtist í fyrsta lagi það, að hægt sje að fá góða og æfða fiskimenn til skipstjórnar á þessi skip, og reynslan í því efni sýnir útgerðarmönnunum, hvar best er að bera niður um þetta atriði. Þess vegna er farið fram á það að rýmka þannig til, og eru þessar breytingar um rýmkun á rjettindum hinna svokölluðu minnaprófsmanna bornar fram í því trausti, að útgerðarmenn fái að njóta sinna þrautreyndu skipstjóra á þessum skipum, því að hitt er miklu hæpnara, að taka menn, þótt meiri bóklegan lærdóm hafi, sem ekki hafa fengist við þessar veiðar áður. Eins og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) tók fram, er svo vel um þetta búið í frv. og alls öryggis gætt, að þeir einir koma til greina með að fá þessi rjettindi, sem hafa verið skipstjórar í full 6 ár og hafa á þessu tímabili kynt sig að góðri og farsælli skipstjórn. Með því að krefjast svona langs reynslutíma er gætt hins fylsta öryggis og fengin full reynsla fyrir leikni skipstjórans í því að stjórna skipi sínu. Um hitt þarf ekki að ræða, hver trygging það er fyrir útgerðarfyrirtækið, að sá, sem stýrir skipinu, sje jafnframt þrautreyndur og ötull fiskimaður, en fyrir þá eina kæmi það til mála að fá slíka rýmkun á rjettindum, er hefðu alla þessa kosti sameinaða. Jeg sje því ekki, að það sje ástæða til annars en að heimila stjórninni að veita slíkum mönnum þessi rjettindi, þegar útgerðarmenn fara fram á það. Það er viðurkent af öllum, að það er sjálfsagt að gæta alls öryggis, og jeg held, að svo sje um þessa hnúta búið, að það sje engu áfátt um það, að því leyti sem mannlegum krafti er auðið við að gera. Það hefir verið talað um það, að mörgum slíkum mönnum mundi vera auðvelt að leysa af hendi meirapróf, og að því sem kunnáttu þeirra til skipstjórnar snertir, geri jeg ráð fyrir því, að þeim mundi veitast það hægt, en það hafa verið sett ýms fleiri skilyrði fyrir meiraprófi. T. d. hefir nú nýlega verið gerð að skilyrði allvíðtæk málakunnátta og fleira, en það mundi valda töluverðum erfiðleikum að taka slíkt próf og taka tíma, en hafa hinsvegar litla þýðingu fyrir það, sem hjer er aðallega um að ræða, góða og örugga skipstjórn.

Hv. frsm. (JakM) mintist á það, að útgerðarmenn mundu kannske líta frekar á það, að þessir menn væru duglegir fiskimenn, en síður á hitt, að þeir væru öruggir til skipstjórnar að öðru leyti, og að þeir mundu líta svo á, að lítið væri í húfi, af því að skipið væri vátrygt. En þetta er misskilningur. Það er mikið í húfi fyrir útgerðarmanninn, ef skipinu hlekkist á á veiðitímanum og hindrast frá að afla, þótt verð skipsins sje að einhverju leyti greitt; í mörgum tryggingarfjelögum, sem hafa gagntryggingu hjá samábyrgðinni, er nokkur hluti skipsins í sjálftrygging eiganda, og því mundi hann ekki síður leggja áherslu á það að tryggja þá hlið málsins. Hv. frsm. mintist á á siglingar, en jeg held, að slíkt geti engu síður og hafi engu síður komið fyrir hjá þeim, sem fulla kunnáttu hafa. Má í því efni benda á seinasta dæmið, hjer á höfninni, þar sem togari sigldi á vöruflutningaskip rjett fyrir utan hafnargarðinn, og ekki var þar minnaprófsmönnum til að dreifa.

Hv. þm. Barð. (HK) hneykslaðist töluvert á því, sem háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði um það, að þeir menn, sem væru teknir fyrir leppa á skipin, væru ekki altaf valdir af betri endanum, og vildi hann draga þá ályktun af því, að útgerðarmenn væru ekki kærusamir um þá hluti. En hvers vegna eru þeir það ekki? Af því að þeir treysta sínum þrautreynda skipstjóra; slíkir málamyndaskipstjórar eru aðeins teknir til að uppfylla bókstaf laganna, og svo er það alldýrt fyrir útgerðarmanninn að bæta dýrum manni við. Það er mjög mikill útgjaldaauki, sem bitnar á útgerðarmanninum og þeim öðrum, sem atvinnu hafa við útgerðina.

Hv. þm. Barð. (HK) var eitthvað að benda á það, að akkerisfestin á einhverjum bát hefði brostið í sundur og nærri orðið slys af, en það er ekki hægt að draga þá ályktun af því í þessu sambandi, að það hafi verið sök skipstjórans Svo þarf ekki að hafa verið, því að nú er lögskipað eftirlit með bátum. (HK: Jeg var alls ekki að kenna skipstjóranum það). Hafi hv. þm. (HK) ekki kent það skipstjóranum, þá veit jeg ekki, hvernig hann hefir ætlað að koma því í samband við það mál, er hjer ræðir um. (HK: Jeg ætlaðist til, að hv. þm. (PO) hefði getað tekið eftir, í hvaða sambandi jeg sagði það). Jeg vonast til, að háttv. deild láti þetta ákvæði frv. standa, og stuðli þar með að því að tryggja það, að þessi nýbreytni, sem nú er um að ræða í útgerðinni, geti orðið landsmönnum að liði, en það verður aðeins með því, að útgerðarmenn geti fengið örugga og vana fiskimenn til skipstjórnar á skip sín.

Út af því, sem hv. frsm. (JakM) sagði, að hv. Ed. mundi ekki leggja mikla áherslu á það, þó að 2. gr. yrði feld, þá er mjer kunnugt um, að hún mun einmitt gera það, og ef þær breytingar verða gerðar á frv., að fella niður 2. gr., þá getur brugðið til beggja vona, að málið nái fram að ganga nú, en það væri illa farið, því að auk þess atriðis er margt annað í þessu frv., sem mikill skaði væri að ekki næði fram að ganga að þessu sinni. Því tel jeg nauðsynlegt að afgreiða málið nú óbreytt, því það er til mikilla hagsbóta fyrir alla hlutaðeigendur.