07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

23. mál, atvinna við siglingar

Ágúst Flygenring:

Nú hafa þrír hv. þm. talað, auk hv. frsm. (JakM), og hefir hver haldið fram sinni skoðun um þetta mál. Það sýnir best, hve erfitt er að samræma löggjöf um þetta efni, svo að allir sjeu ánægðir, því að það eru þó ólíkir hagsmunir, er ráða í hjeruðunum og stjettunum. Það er alveg rjett hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að þeir menn geta oft reynst vel, sem aðeins hafa minnapróf, og jafnvel þeir, sem ekkert próf hafa. Þetta var nefndinni vel kunnugt um, en henni var líka kunnugt um það, að þessar undanþágur geta verið tvíeggjað sverð, og það hefir verið lagst mjög á móti þessu frv., bæði af skipstjórafjelaginu Öldunni og af skólastjóra stýrimannaskólans. Nefndin taldi það ábyrgðarhluta að mæla með því, sem skipstjórafjelagið og skólastjórinn mæltu svo mjög á móti, þó að það geti kannske orðið álitamál, þegar farið er að rannsaka það nánar.

Jeg lít svo á, að of miklar kröfur sjeu gerðar til fiskiskipstjóranna hjer við land, eins og t. d. um tungumálakunnáttu o. fl., en aftur of litlar um praktiska þekkingu, því að hana þurfa þeir að hafa meiri en þeir hafa margir hverjir. Þetta þyrfti að endurskoða og athuga vel, og jeg fyrir mitt leyti tel, að prófstigin þurfi að vera þrjú.

Háttv. þm. Barð. (HK) taldi, að bátar, sem gengju til fiskjar, þó að þeir lentu að kveldi, þyrftu að hafa bæði skipstjóra og stýrimann, annað væri ekki forsvaranlegt. Þetta held jeg að sje of mikil varfærni. Annars eru þó vanalega tveir siglingafróðir menn á slíkum bátum, því að þeir, sem vilja verða formenn á þeim, þurfa fyrst að hafa verið stýrimenn um nokkurn tíma. Láta þeir því oft lögskrá sig sem stýrimenn, enda þótt þeir hafi ekki meira kaup en hásetar.

Það er alveg rjett, sem hv. þm. Borgf. (PO) tók fram. Þetta mál má ekki fara fram hjá okkur athugunarlaust. Við verðum að gefa nákvæmar gætur að því. Jeg á þar ekki við, að farið verði að taka upp önnur prófskilyrði, eða gera svo strangar kröfur, að erfitt verði fyrir eldri menn að uppfylla þær, en jeg er þess samt viss, að nokkrar breytingar má gera til bóta á þessari atvinnulöggjöf.

Annars skal jeg játa, að jeg tel persónulega ekkert varhugavert að veita undanþágur þær, sem ræðir um í 2. gr., ef þær eru aðeins veittar fullkunnugum mönnum.