07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

23. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jakob Möller):

Háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) hefir að mestu tekið af mjer ómakið með að svara.

Háttv. þm. Barð. (HK) vil jeg benda á það, að viðbót sú við siglingalögin, sem felst í 3. gr. frv., hlýtur frá hans sjónarmiði að vera ávinningur. Því ef hún verður ekki samþykt, þá er hvergi ákvæði um, að skylt sje að hafa stýrimenn á þessum skipum. En verði hún samþykt, þá er skylt að hafa stýrimenn á þeim bátum, sem ekki koma daglega að landi. Þetta bætir því mikið úr.

Háttv. þm. Borgf. (PO) hefi jeg litlu að svara, umfram það, sem hv. 1. þm. G.-K. svaraði honum. En mjög eftirtektarvert var það í ræðu hans, og sömuleiðis í ræðu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að þeir litu báðir einhliða á, hvað happadrýgst væri fyrir aflann, en minna á hitt, hvað best hentaði fyrir öryggi skipsins. Út af þeim ummælum háttv. þm. vil jeg benda á, að ef ekki er völ á nógu góðum fiskimönnum meðal þeirra, sem rjett hafa til skipstjórnar, þá er ekki annað en taka fiskiformann. Það er algengt. En vitanlega eykur það kostnaðinn dálítið, en þess ber að gæta, að þá er oft mikið í aðra hönd.

Jeg skal fyllilega játa, að jeg er ekki kunnáttumaður á þessu sviði. En frá mínu leikmannssjónarmiði tel jeg alveg óforsvaranlegt að afgreiða þessa undanþáguheimild nú, þvert ofan í mótmæli þeirra manna, sem eru langtum færari að dæma um þetta en við erum.