31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer tvær brtt. á þskj. 235. Fyrri till. er um það, að ríkissjóður leggi fram 1/5 kostnaðar við að byggja sundlaug í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hv. þdm. er máske ekki kunnugt um allar ástæður fyrir þessari málaleitun, og skal jeg því skýra frá þeim í nokkrum orðum.

Um 1890 tóku sig saman nokkrir dugnaðarmenn við Djúpið og hófust handa að byggja sundlaug og halda uppi sundkenslu. Sýslunefnd lagði fram 100 kr. á ári hverju, og var kenslunni haldið áfram 9–11 ár. Síðan fjell kenslan niður. Nú fyrir 10 árum var aftur byrjað á sundkenslu, einkum fyrir forgöngu ungmennafjelags þar vestra. Sýslan og einnig bæjarsjóður Ísafjarðar hafa altaf styrkt þessa nytsömu kenslu, því það er álit manna, að hennar sje sjerstök þörf þarna í Ísafjarðarsýslu, að því sleptu, að það er stórkostlegt heilbrigðisatriði, að ungir menn læri sund. Ástæðan til þessa er sú, að við Ísafjarðardjúp lifir mikill fjöldi manna af smábátaútgerð. Og það hefir oft komið fyrir, og það mun koma fyrir, að menn geta firt sig líftjóni við það að vera syndir.

Nú hefir þessi sundlaug eyðilagst talsvert mikið og er að verða ónothæf. En það er ekki álitið fært að byggja sundlaug á sama stað, heldur á öðrum stað á Reykjanesinu. Þar er nóg af heitu laugarvatni og aðstaða hin besta að öllu leyti. Plássið er mjög þrifalegt og út af fyrir sig, svo að sundnemendur geta haft mikið frjálsræði og það er vel fallið til útileika.

Fyrir forgöngu þessa sama fjelags í Nauteyrarhreppi var byrjað fyrir 3 árum að safna nokkru fje í því skyni að byggja nýja sundlaug. Og á nýafstöðnum sameinuðum fundi bæjarstjórnar og sýslunefnda var ákveðið, að sýslusjóður og bæjarsjóður legðu fram 1500 kr. hvor, alls 3000 kr. Ennfremur hefir Fiskifjelagið lofað 1200 kr. styrk. En áætlað er, að sundlaugin kosti alt að 10 þús. kr. Þar að auki þarf auðvitað að byggja hús; það hús, sem til er, er bæði lítið og gamalt; þó er ráðgert að færa það til og nota meðfram, en eitt út af fyrir sig verður það algerlega ófullnægjandi. Náttúrlega verður það einfalt og þarf ekki að vera í það borið og ekki sjerstaklega hlýtt, því að sundið er kent eingöngu að sumarlagi. Þeir búast við að ná fje til þessa með almennum samskotum. Fyrirtækið mun kosta alls yfir, að húsinu meðtöldu, um 14 þús. kr.; en það er ekki ætlast til, að ríkissjóður styrki að neinu leyti húsbygginguna, aðeins sundlaugarbygginguna, ásamt sundskála.

Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að mæla sjerstaklega með þessari fjárveitingu, því að jeg hygg, að hv. þdm. sjeu á einu máli um það, að það er bráðnauðsynlegt að halda uppi sundnámi, og þá ekki síst á slíkum stöðum eins og við Ísafjarðardjúp. Að áhugi er að eflast fyrir þessu nauðsynjamáli, það sýnir frv., sem hjer er á ferð og mun líklega fá góðar undirtektir hjer í hv. deild, um það að skylda unglinga til sundnáms þar, sem sundkenslu er haldið uppi af hálfu þess opinbera.

Þá á jeg aðra brtt. á sama þskj. Brimbrjótsmálið er sannkallað vandræðamál, sjerstaklega fyrir Hólshrepp, en líka ríkissjóðinn. Tugum þúsunda hefir verið varið til brimbrjóts í Bolungarvík. Gagnsemi þessa verks hefir orðið miður en skyldi, en það er enginn efi á því, að það er ekki hreppsbúum að kenna, heldur er það að kenna þeim, sem höfðu umsjón og framkvæmd verksins á hendi fyrir landsstjórnar og ríkissjóðs hönd.

Árið 1921 var veitt fje til að lengja brimbrjótinn um 15 metra. Hreppsnefndin og þeir menn, sem vanir voru vinnu við brimbrjóta, áætluðu kostnaðinn 30 þús. kr. Hreppsnefndin fór fram á, að hreppurinn fengi 1/3 kostnaðar greiddan úr ríkissjóði, eða 10 þús. kr., en að hún að öðru leyti rjeði framkvæmd verksins. Það var auðvitað, að Alþingi gat ekki látið peninga til þessa, nema því aðeins, að það vissi fyrir víst, að verkið yrði tryggilega unnið að öllu leyti. En stjórninni fanst ekki, fyrir hönd þingsins, nægileg trygging vera fyrir því að svo yrði, ef hreppsnefnd hefði alla umsjón, eða látandi væri landsfje í hendur þessara manna, heldur þyrfti að hafa sjerstakan mann til þess að hafa umsjón með þessum hafnarbótum, eins og á sjer stað um fyrirtæki, sem hið opinbera kostar að einhverju leyti. Þetta var gert. Áætlun verkfræðings varð 38 þús. kr. Nú hafði hreppsnefndin búist við að komast af með að leggja fram 20 þús. kr. En hún ljet þó ekki þar við stranda, þó að verkið yrði þetta dýrara; enda hafði hreppurinn trygt sjer lán, um 28 þús. kr. En þegar verkinu er lokið, þá kostar það ekki 38 þús. kr., heldur kostar það 58 þús. Framlag hreppsins varð því ca. 40 þús. kr., eða 15 þús. kr. meira en áætlað var af hinum fagfróða umsjónarmanni stjórnarinnar. Það hefði ekki verið neitt um þetta að segja, jafnvel þótt hreppurinn borgaði 15 þús. kr. meira en hann bjóst við, ef verkið hefði verið tryggilega unnið. En því fór fjarri. Verkið var þannig unnið, að tveimur dögum eftir að það var afhent hreppsnefndinni urðu stórskemdir á brimbrjótnum, og það í litlu brimi, í ágústmánuði. Og síðan hafa oft orðið meiri og minni skemdir, ef stórbrim hafa komið. Var reynt að gera við brimbrjótinn 1922, eftir því sem hægt var; en það var ómögulegt að gera við hann svo ábyggilegt væri, vegna hins illa frágangs í upphafi. Það var steyptur kassi fyrir framan brimbrjótinn; en í staðinn fyrir að hafa hann með halla, eftir því sem botnlagið var, þá var hann steyptur lárjettur og borin möl undir, til þess að taka hallann af botninum. En mölin grófst undan, og þá seig kassinn og haggaðist, svo að nú er bilið milli hans og aðalgarðsins um 9–10 þumlungar. Á síðastliðnu hausti og í vetur, seinast í síðastliðnum mánuði, hafa skemdirnar orðið enn meiri, því að við það, að sjórinn hefir komist í þessa sprungu, sem hefir orðið á veggnum, hefir hann náð betri tökum og tekið alla steypuna ofan af garðinum á ca. 15 m. svæði. Á einum stað er komið stórt skarð.

Jeg ætla ekki að segja þessa raunasögu hreppsins lengri, því að hún er mönnum að mestu kunn frá fyrri þingum. En ástæðurnar eru þær, að hreppurinn er búinn að leggja fram, með því, sem lendingarsjóður og einstakir menn hafa lagt til fyrirtækisins, um 100 þús. kr. og skuldar nú nær 60 þús. kr., auk annara skulda, sem hann lenti í eins og sum önnur sjóþorp á stríðstímanum, við að afla eldsneytis o. fl. Hólshreppur var í fjelagi við Ísafjarðarkaupstað um það að vinna surtarbrand, sem varð ákaflega kostnaðarsamt. Höfðu þessi hreppsfjelög fulla von um að fá hallann bættan úr ríkissjóði, en það brást. Hreppnum er nú algerlega um megn að gera við skemdirnar á brimbrjótnum, nema því aðeins, að ljett sje af honum einhverju af skuldum. Síðustu ár hafa verið aflaleysisár. Má þó undanskilja eina vorvertíð. Og í vetur er aflalaust á Vestfjörðum. Hreppsnefndin hefir farið fram á, að eftirgjöf fengist af viðlagasjóðsláninu frá 1914, sem er að upphæð um 16 þús. kr. Og gegn því, að hreppurinn losni við þessa skuld, þá hefir hann trygt sjer lán til þess að gera við skemdirnar á brimbrjótnum á næsta sumri. Verði það ekki gert, þá er það sýnt, að allur garðurinn molast á næstkomandi hausti eða vetri, en við það er lendingin eyðilögð og sjósókn þessarar landsfrægu verstöðvar „en Saga blot“.

Jeg hefi sent hv. fjvn. þessa málaleitun hreppsins, og því er svo varið, að það mun ekki ennþá hafa verið tekin ákvörðun í málinu innan nefndarinnar. En af því að jeg bjóst kannske við, að nefndin mundi leggjast á móti eftirgjöfinni, hefi jeg komið með þessa brtt. 1 öðru lagi hefir hreppsnefnd falið mjer að sækja um 10–12 þús. kr. styrk til þess að gera við brimbrjótinn. Þeim, sem ekki eru kunnugir málavöxtum, gæti virst þessi beiðni ósanngjörn. En það er hún ekki. Ástæðan er sú, að hreppsnefndin hefir sýnt það skjallega, að það var ekki henni að kenna, hvernig verkið var framkvæmt lagi. Hún hefir ennfremur sýnt fram á, að sá útlendi maður, sem hafði umsjón verksins í sinni hendi, hann ber sökina á því, að verkið var ekki betur unnið og kom ekki að notum. Og þess vegna er það, að það er ekki nema sjálfsögð sanngirni, að þegar hreppsfjelagið er búið að láta 15 þús. kr. meira en það bjóst við til þessa fyrirækis, og verkið er þannig af hendi leyst eins og jeg gat um og skýrsla hreppsnefndar sannar. að ríkissjóður kosti alla viðgerðina; af því að umboðsmaður ríkisstjórnarinnar og sá yfirumsjónarmaður, er hann valdi, hafa — það að er máske of mikið að segja svikist um skyldu sína, — en þeir hafa gætt hennar miður en skyldi við framkvæmd verksins.

Jeg hefi borið mig saman við formann fjvn., og þar sem nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til þessa máls, en mun gera það til 3. umr., þá tek jeg þessa brtt. mína aftur til 3. umr.