18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þykist vita, að sumir hv. þm. hafi jafnvel búist við því, að þetta tækifæri yrði notað til þess að gera upp reikningana út af deilu þeirri, sem risið hefir í sambandi við stofnun búnaðarlánadeildarinnar. En af minni hálfu verður það ekki gert að svo stöddu, og er ástæðan einkum sú, að jeg hefi borið fram annað frv. í máli þessu. Vil jeg geyma mjer að „gera upp“ reikningana þangað til það frv. kemur til umr., eða þá síðar. Þó vil jeg strax geta þess, að frv. mitt er óbreytt eins og nefndin, sem Búnaðarfjelag Íslands skipaði til þess að gera till. um lánskjör landbúnaðarins, gekk frá því. En frv. það, sem nú er til umr., er eins og hæstv. stjórn hefir leyft sjer að breyta frv. nefndar þessarar. Má sjá það glögglega á greinargerð frv. míns, að fulltrúar landbúnaðarins, þeir, sem nú sitja á búnaðarþingi, hafa einróma lýst yfir því, að þeir leggi alveg sjerstaka áherslu á einmitt þau atriði frv. nefndarinnar, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir þó þóknast að sleppa í frv. sínu. Jeg vil því leyfa mjer að minna háttv. landbn. á að taka frv. þetta ekki til alvarlegrar meðferðar fyr en frv. mínu hefir einnig verið vísað til hennar.