18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jakob Möller:

Það er óneitanlega dálítið einkennileg meðferð, sem mál þetta hefir fengið síðan lögin um ríkisveðbankann voru sett árið 1921. Eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, hafði þá verið fenginn maður til þess að rannsaka, með hverjum hætti mætti best koma fyrir lánum gegn fasteignaveði hjer á landi. Maður þessi, Böðvar Bjarkan lögfræðingur, fór síðan utan og ferðaðist víða til þess að leita álits sjerfræðinga um þessi efni. Eftir að hafa íhugað þessi mál, þ. á. m. álit fjölmargra sjerfræðinga, gerði Bjarkan svo till. sínar til stjórnarinnar, og á þeim voru lögin um ríkisveðbankann bygð. Og hann lagði aðaláherslu á það, að fasteignalánastofnun yrði ein fyrir alla. En á móti þeirri tillögu er gengið í þessu frv. Mönnum mun enn í fersku minni, að ríkisveðbankafrv. mætti allhvassri mótspyrnu hjer í þinginu. Mótspyrnu, sem var þannig vaxin, að mönnum hlaut að hnykkja við, þegar þeir heyrðu ósk hæstv. fjrh. (JÞ) um, að mál þetta yrði ekki gert að flokksmáli nú. Þá var málið sannarlega gert að flokksmáli og róið að því öllum árum af hendi ýmsra þeirra manna, sem nú fylla flokk stjórnarinnar, að koma ríkisveðbankanum fyrir kattarnef.

Jeg skal ekki efa, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi tekið fegins hendi þeim till. fulltrúa landbúnaðarins, að byggja veðlánsstofnun fyrir landbúnaðinn á grundvelli ræktunarsjóðsins. En jeg vil minna hann á það, að ein höfuðröksemd hans og. þeirra, sem honum fylgdu á þinginu 1921, gegn ríkisveðbankanum, var þá sú, að taka átti ræktunarsjóðinn og leggja hann til bankans og hækka vexti af fje hans að mun. Nú virðist þetta gleymt, því að samkv. frv. þessu á einmitt að taka ræktunarsjóðinn og ákveða vextina 61/2% þegar í upphafi. Þá var spurt, hvar ætti að fá fje til útlánanna. Sú spurning er engu síður vakandi nú. Og landbúnaðinum hentar ekki, frekar nú en þá, fje, sem fæst við sölu brjefa, sem bera svo háa vexti.

Það er yfir höfuð einkennilegt, að eftir að valinn hefir verið maður til þess að kynna sjer mál þessi til hlítar, og hann hefir sýnt með skýrslum sínum, að hann hefir aflað sjer víðtækrar þekkingar á þessu sviði, þá skuli svo að segja athugunarlaust vera gengið þvert á móti till. hans. Því það má kalla lítilsverða athugun, þó að skipuð sje nefnd manna, sem eiga tal saman hjer í Reykjavík, en leita ekki álits neinna sjerfræðinga annara landa.

Jeg hefi athugað frv. þetta lítilsháttar og fæ ekki sjeð, að í því felist nokkuð það, sem ekki megi koma eins vel fyrir með því að láta ríkisveðbankann taka til starfa. Tilgangur þess getur því varla verið annar en sá, að útiloka kaupstaðabúa frá fasteignaveðlánum. (Fjrh. JÞ: Útiloka þá frá lánum úr ræktunarsjóði). Ríkisveðbankanum var ætlað meira fje en ræktunarsjóður einn, en auk þess er í ríkisveðbankalögunum sannarlega sjeð fyrir því, að landbúnaðurinn verði ekki útundan. Og hver verður svo afleiðingin, ef kaupstaðirnir hafa í engin hús að venda til þess að fá lán gegn veði í fasteignum? Óumflýjanlega sú, að þeir verða að koma sjer upp eigin lánsstofnun, sem þá kæmi til að keppa við lánsstofnun landbúnaðarins. Og sú samkepni færi eftir því, hvor lánsstofnunin gæti greitt hærri vexti af brjefum sínum. Á þessa hættu benti Böðvar Bjarkan, og till. hans voru m. a. bygðar á því að reyna að koma í veg fyrir, að tvær slíkar lánsstofnanir risu upp hvor gegn annari.

En hvort mundi það nú verða sú stofnun, sem veitir kaupstöðunum, sem aðallega byggjast á sjávarútvegi, eða hin stofnunin, sem veitir lán til landbúnaðar, sem ber sigur úr býtum í samkepninni?

Menn verða að athuga, þegar þeir vilja hlúa að hag sínum, að þeir geri ekki sjálfum sjer ógagn, að hugsa ekki svo einhliða um að skara eld að sinni köku, að þeir brenni hana fyrir sjer.

Jeg sje ekki ástæðu til að halda langa ræðu að sinni; aðeins vil jeg benda nefndinni, sem fjallar um málið, — hver sem hún verður — á það að athuga gaumgæfilega það atriði málsins, að afleiðingin af þessari stofnun hlýtur að verða sú, að önnur stofnun rís upp og keppir við hana. Og vinningurinn verður í sjálfu sjer alls enginn fyrir landbúnaðinn að fá þessa stofnun, í samanburði við aðgang að ríkisveðbanka.

Það var sagt, að ríkisveðbankinn hefði ekki peninga. Jeg held, að sú ástæða gildi svipað um þessa stofnun. Hún á aðallega að vinna með sölu vaxtabrjefa, og ríkisveðbankinn hefir ekkert lakari aðstöðu í því efni en þessi fyrirhugaða stofnun.

Viðvíkjandi því, að talið hefir verið sjálfsagt, að frv. yrði vísað til landbn., tek jeg það fram, að jeg tel málið eiga mikið erindi til fjhn. líka; þykir mjer sennilegt, að þótt málinu verði formlega vísað til annarar nefndarinnar, muni þær báðar geta athugað það.