18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla ekki að fara að endurtaka umr. frá 1921 um ríkisveðbankann milli mín og hv. samþm. míns (JakM). En hann hjelt því fram, að það að taka ræktunarsjóðinn og gera úr honum þessa lánsstofnun væri gert í athugaleysi, og að ekki hefði verið leitað álits sjerfræðinga í öðrum löndum um málið. En þetta var gert áður en ákveðið var að setja á stofn ríkisveðbanka. Held jeg, að þessar aðfinslur hv. þm. (JakM) sjeu á engum rökum bygðar. Fyrst er að taka það fram, að þessi meðferð ræktunarsjóðsins þarf alls ekki að spilla fyrir ríkisveðbankalögunum. Þau geta komið til framkvæmda, ef menn vilja að svo verði og ástæður eru fyrir hendi til að gera það. Eins og menn máske muna, er ríkisveðbankinn þannig í hugmyndinni, að það á að leggja fram 3 milj. kr. af sjóðum, sem eru eign ríkisins, þar á meðal 1 milj. kr. úr ræktunarsjóði, — hann er minni nú. — Með þessum 3 milj. kr. átti að stofna ríkisveðbankann, og út á þær mátti hann selja vaxtabrjef, sem náðu áttfaldri upphæð, alls 24 milj. kr. Þegar ræktunarsjóðurinn er tekinn út úr og honum fengið nokkuð af því verkefni, sem ríkisveðbankinn hefði átt að sinna annars, þá er við það ekkert að athuga, ef stærð verkefnisins, þ. e. upphæðin til býlabóta, samsvarar þeim hluta stofnfjárins, sem tekinn er. Nægja þá 16 milj. kr. til þess, sem ríkisveðbankinn hefir eftir að sinna. Jafnvel þó menn búist ekki við, að 8 milj. kr. gengju til býlabóta, þá er innan handar að bæta ríkisveðbankanum upp missi ræktunarsjóðs; það eru engir erfiðleikar á að leggja honum til 3 milj. kr. tryggingarfje, ef menn vilja, án þess að gripið sje til ræktunarsjóðsins. Á þetta var bent 1921.

Jeg get upplýst hv. þm. um það, — þó jeg hafi ekki flíkað því —, að leitað hefir verið álits sjerfræðings þess, sem einna mest var á bygt, um það, að hafa veðlánastofnunina einungis eina; og fjelst hann fyrir sitt leyti algerlega á það, að þegar þetta sjerstaka verkefni væri tekið frá — að lána fje til umbóta beinlínis á býlum landsins —, myndi rjettast, eftir okkar kringumstæðum, að gera það, og veita síðan af hálfu hins opinbera stuðning nokkurn, sem vægi móti samkepni sjávarútvegsins, til þeirra umbóta, sem álitnar eru landinu nauðsynlegastar. Þetta álit mun jeg afhenda nefndinni, sem með málið fer, — og er þetta alveg laukrjett. Hitt er misskilningur, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að af 2 veðlánastofnunum muni leiða, að vextir brjefanna hækki. Þetta er misskilningur af því, að það er engin samkepni milli brjefakaupendanna innbyrðis, sem skapar vextina á vaxtabrjefum í landinu, heldur samkepni frá sterkum atvinnuvegi, sem heimtar lánsfje með öðru móti, víxillán, hlaupareikningslán, og borgar hærri vexti en hæfilegt er að setja á vaxtabrjef yfir höfuð. Það er samkepni frá sjávarútvegi og verslun um að fá lánsfje fyrir alt að 9%. Sú samkepni hleypir vöxtunum upp að svo miklu leyti sem um er að gera innanlands. En samkepnin í þessu efni skapast fyrst og fremst af vaxtakjörum í nágrannalöndunum, sem við skiftum mest við. Menn geta alveg rólegir tekið þessa lánsstofnun út úr þess vegna, að hún verður ekki til þess að hækka vexti á þeim lánum, sem landbúnaðurinn annars getur fengið, en verður einungis til að tryggja honum lánsfje, sem hann annars nær ekki í, til þessara umbóta.

Hv. þm. sagði, að vinningurinn væri alls enginn hjá því sem að taka ríkisveðbankalögin til framkvæmda. Stofnun, sem hefir um það að velja, hvort hún vill veita 10 jarðabótalán í fjarlæga landshluta, hvert að upphæð máske 300 kr., eða lán upp á 3000 kr. til einhvers í kaupstað, hefir freistingu til að sinna beiðninni um síðarnefnda lánið, en láta hitt eiga sig. Öll reynsla í þessum efnum hefir sýnt, og er það eðlilegt, að þetta kemur til greina, ef menn ætla sjer að láta ríkisveðbankann hafa í framtíðinni það verkefni að veita jarðabótalán. Jeg er því samþykkur, að ekki sje rjett að gera eina almenna veðlánastofnun sjerstaklega fyrir sveitirnar og aðra almenna veðlánastofnun sjerstaklega fyrir bæina; en veðlán, sem eru ekki sjerstaklega ætluð til jarðabóta, eigi heima í lánsstofnun kaupstaðanna. Á þessu er engin höggun gerð með þeirri till., sem hjer er fram komin.