18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer kom ekki á óvart yfirlýsing hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að hann væri málinu yfir höfuð andvígur. Og hv. þm. Str. (TrÞ) verður að gera það upp við sjálfan sig, hvað langt hann gengur að efna gefin loforð um fylgi við háttv. 3. þm. Reykv. í þessu máli. Annars stóð jeg upp til að leiðrjetta það, að jeg hafi sagt, að ekkert Væri því til fyrirstöðu, að ríkisveðbankinn tæki til starfa. Hafi jeg sagt þetta, þá er það mismæli; mín meining var sú, að ekkert í þessu frv. væri því til fyrir stöðu, að ríkisveðbankinn tæki til starfa seinna, ef kringumstæður leyfa. Þó skal jeg játa það, að vegna lagasetningar, sem gerð var á síðasta þingi, munu vandkvæði á því, að hann taki til starfa án þess að lögum hans sje lítillega breytt. Sú breyting mun ekki geta valdið ágreiningi. Þá voru bornar brigður á það, að það væri meining þeirra fulltrúa landbúnaðarins, sem málið var falið, að þetta yrði sjálfstæð stofnun, af því að í uppkasti nefndarinnar (TrÞ: Það var ekki uppkast) stóð grein þess efnis, að þessi stofn un rynni á sínum tíma saman við ríkisveðbankann, eftir nánari lagasetningu. Jeg stend við það, sem jeg sagði, vegna þess, að jeg spurði tvo menn í búnaðarfjelagsnefndinni, þegar stjfrv. var samið, hvort þeir í raun og veru óskuðu þess, að stofnunin á sínum tíma gengi inn í ríkisveðbankann. Kváðust þeir báðir helst vilja vera lausir við það, en að þeir hafi álitið rjett vegna ríkisveðbankalaganna að taka þetta upp í frv. sitt. En jeg sá ekki ástæðu til að taka þetta upp í stjfrv. þeirra vegna. Jeg álít þó málinu sæmilega borgið, þótt sjóðurinn verði látinn starfa sem sjálfstæð deild innan annarar stofnunar, t. d. ríkisveðbankans, en jeg vona þó, að þessi stofnun reynist svo vel, að menn vilji halda henni alveg sjálfstæðri. Auðvitað er ávalt hægt að sameina forstjórn þessarar stofnunar og ríkisveðbankans, hvort sem nokkur ákvæði um það standa í þessum lögum eða ekki.