04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg er þakklátur hv. landbn. fyrir meðferð hennar á frv. þessu. Geri jeg ráð fyrir, að hún hafi athugað það alt og einstakar greinar þess með þeirri nákvæmni, sem slíkt mál á skilið, og gleður það mig þá, hversu fátt hún hefir fundið, sem hún hefir talið sig þurfa að breyta, að undanteknum tveim fjárhagsatriðum, sem jeg hafði þegar bent á við 1. umr. Skoða jeg það sem vitnisburð þess, að stjórninni hafi tekist sómasamlega smíðið á frv. þessu.

Skal jeg nú stuttlega víkja að brtt. hv. nefndar og afstöðu minni til þeirra.

1. brtt. stendur í sambandi við 5. brtt., um að taka strax upp í 1. gr. það ákvæði, að lánað skuli jöfnum höndum úr sjóðnum til húsabóta sem til jarðræktar. Skoða jeg þessa brtt. sem nokkra útvíkkun á verkefni sjóðsins frá því, sem hugsað var í stjfrv., og hefi jeg ekki fyrir mitt leyti neitt við það að athuga, enda eðlilegt, og læt mjer þá breytingu vel líka, sjerstaklega þar sem hv. nefnd hefir fallist á það, sem jeg hefi talið höfuðatriðið og búnaðarfjelagsnefndin lagði áherslu á, að jarðabætur nokkrar væru að jafnaði gerðar á býli áður en því verði veitt lán til húsabóta. Er þá trygt, að lánað verði fyrst og fremst til jarðabóta, og svo síðan til húsabóta, eftir því sem menn sýna verðleika sína til þess. Það er raunar svo, að miklu áhættusamara er að lána til húsabóta en jarðræktar, en jeg vil þó ekki mæla sjóðinn undan því. Hinsvegar hefði jeg kosið, að varasjóður sjóðsins hefði verið aukinn að sama skapi og áhættan var aukin. Tel jeg víst, að ekki myndi verða ágreiningur um brtt. þess efnis við 6. gr. frv.

Þá er næst brtt. hv. nefndar við 2. gr. frv. Hefi jeg áður lýst afstöðu minni til hennar og tekið það fram, að mjer finst ekki þörf á meiri sjálfseign fyrir sjóðinn fyrst um sinn en þá, sem stjfrv. ætlar honum, en get auðvitað ekkert haft á móti því, að honum sje lagt til meira fje, ef landsmenn vilja leggja á sig álögur í því skyni. Jeg sje heldur ekki ástæðu til, að tekjur af þjóðjörðum eftir 1925 falli sjóðnum, og því tek jeg það fram, að í atkvæði mínu um frv. liggur ekki, að jeg álíti það nauðsynlegt.

Þó jeg þannig telji, að nefndin hafi ef til vill gengið fulllangt í kröfum sínum fyrir sjóðsins hönd, þá get jeg á hinn bóginn gefið henni viðurkenningu fyrir það, hvenær hún hugsar sjer að greiðslur ríkissjóðs til ræktunarsjóðsins fari fram. Skil jeg hv. nefnd svo, að hún ætlist ekki til, að fjárins verði krafist eða greiðslur fari fram fyrri en ríkissjóður hefir losað sig úr vanskilaskuldum sínum eða tekjuafgangur verði, nema fje sje sjerstaklega til þess veitt í fjárlögum. Byggi jeg þetta á því, að engin heimild til lántöku í þessu skyni er veitt, og tel jeg það vel farið Hinsvegar vona jeg, að þetta skilyrði þurfi ekki að standa í vegi fyrir því, að sjóðurinn fái það fje, sem hann þarf á að halda.

3. brtt. held jeg, að hv. deild ætti ekki að samþykkja, því að jeg lít svo á, að Landsbankinn sje sjálfstæð stofnun og að ríkið geti ekki skyldað hann til slíks og þessi brtt. fer fram á. Jeg veit, að margir líta svo á, að landið eigi Landsbankann og beri ábyrgð á skuldbindingum hans. En þetta tel jeg ekki rjett; jeg lít svo á, sem ríkissjóður beri ekki að lögum ábyrgð á innstæðum manna í Landsbankanum, en þá eiga líka innstæðueigendur kröfu á því, að löggjafarvaldið leggi ekki kvaðir á stofnunina. Þess vegna vil jeg ekki binda þeirri stofnun slíka bagga, sem henni eru óviðkomandi. Og mjer finst, að það sje of lítið gert úr ræktunarsjóðnum að ætla að hlífa honum við því að greiða húsaleigu fyrir starfrækslu og fyrir geymslu skjala og fjár. Þá vil jeg og í þessu sambandi bæta því við, að í 29. gr. stjfrv., sem hv. nefnd hefir ekki gert neinar breytingar við, stendur, að Landsbankinn eigi fyrst um sinn að hafa á hendi afgreiðslu sjóðsins fyrir þóknun. En í þessu felst það, sem hv. nefnd gerir ráð fyrir í brtt. sinni, sem sje húsnæði til starfrækslu og skjalageymslu. Jeg tel eðlilegasta úrlausn málsins eins og segir í 29. gr. Vil jeg um leið minna á það, að ráð er fyrir því gert, að þessi stöfnun byrji með meira stofnfje en Landsbankinn, og tel því, að það sje bygt á skakkri skoðun að heimila stærra fyrirtæki ókeypis fríðindi hjá minna fyrirtæki.

4. brtt. er orðalbreyting til bóta, og um 5. brtt. hefi jeg þegar talað.

Þá er eftir 6. brtt. Við hana hefi jeg það að athuga, að þar sem Landsbankanum er gert að skyldu að kaupa vaxtabrjef þessarar nýju stofnunar með nafnverði, þá skilst mjer, að það standi í beinu sambandi við ákvœði frv. sjálfs um það, að vextir skuli vera 6%, og þýði það, að tiltækilegt sje, að Landsbankinn skuli kaupa vaxtabrjefin með nafnverði, eftir því sem nú er ástatt um almenn vaxtakjör. En nú hefir hv. þm. Str. borið fram brtt. um að nema þetta ákvæði í burtu; en væri það gert, gæti hugsast, að vextir brjefanna yrðu lægri, og þau því ekki seljanleg með nafnverði. Það gæti borgað sig fyrir lántakendur, að brjefavextir yrðu settir 51/2% fremur cr. 6%, þó þau seldust þá ekki fyrir alveg fult nafnverð, en þá á ekki fremur að skylda Landsbankann til þess en aðra að kaupa fyrir nafnverð. Að öðru leyti skal jeg lýsa yfir því, að þessa tillögu, um að skylda Landsbankann til þess að kaupa brjefin, skil jeg svo, að skylda hans nái jafnlangt og ekki lengra í því efni en skylda hans til að veita lán úr búnaðarlánadeild. Þar er ákveðið alt að vissri upphæð á ári, en það ber ekki að skilja svo, að bankinn hafi skyldu til þess að láta alla upphæðina af hendi, hvort sem bankastjórnin hefir fje til þess eða ekki. Megi skilja þetta svo, hefi jeg ekkert við brtt. að athuga eins og hún er fram borin. Það stendur sem sje alveg eins á nú og á síðasta þingi, að það er ekki hægt að skylda Landsbankann til þess að leggja fram tiltekna upphæð, en það er hægt að gefa út ákveðna fyrirskipun og fylgja henni fram með hæfilegum þunga að vissu takmarki, en sje ekki fje til lengur, þá verður ekki frekara krafist.

Um almennar hugleiðingar hv. frsm. (ÁJ) skal jeg ekki segja margt, og sjerstaklega skal jeg láta það bíða að ræða ákvæði tolllagabreytingarinnar þangað til frv. um það er á dagskrá. En þar sem hv. frsm. (ÁJ) taldi till. nefndarinnar um tekjuauka hinar sömu og voru í till. búnaðarmálanefndar, þá vil jeg segja það, að frv. hefir breyst í það horf hjá hv. landbn. til batnaðar hvað form þess snertir, að brtt. hennar niá skoða sem nýjar og sjálfstæðar tillögur. Það er alveg rjett, sem hv. frsm. (ÁJ) sagði, að það er óviðeigandi að taka ákvörðun um nýja tollaukningu inn í lagabálka um óskyld efni. Og það hefir aldrei verið siður Alþingis. Mjer er óhætt að fullyrða það, að allar tekjur ríkissjóðs eru nú innheimtar eftir sjerstökum tolla- og skattalögum. Held jeg, að það sje holt og sjálfsagt að halda þeirri reglu áfram, en jeg skal bæta því við, að sje þörf á því að tryggja ræktunarsjóði 1 milj. króna framlag úr ríkissjóði, þá má hafa ákvæði um það í frv. sjálfu, án þess að ákvæði um tolllagabreytingar komi þar fram. í ýmsum lagabálkum er ákveðið, að svo og svo mikið fje skuli greiða úr ríkissjóði, og stjórninni veitt heimild til þess að sjá um, að þeim útgjaldaliðum verði fullnægt. Má gjarnan setja slíkt ákvæði inn í frv. sjálft, ef þurfa þykir. Jeg get fallist á flest það, er hv. frsm. (ÁJ) sagði um mótbárur gegn skattálagningu í þessu skyni, en einu verð jeg þó að mótmæla í ræðu hans, og hefir það sjálfsagt komið fram vegna ókunnugleika hans, þar sem hann sagði, að komið hefðu fram þær mótbárur frá kaupstöðum, er sýndu kaldan hug til sveitanna. Þessu hefir áður verið haldið fram, en jeg mótmælti því þá, og mótmæli því enn, því að þessi kaldi hugur, sem hv. frsm. (ÁJ) talaði um, er ekki til í kaupstöðum landsins, og væri það gott, ef sveitamenn gætu sagt hið sama frá sínu brjósti. En það er nauðsynlegt, að gott samkomulag haldist milli sveitamanna og kaupstaðabúa. Hitt er ekki nema eðlilegt, að mönnum þyki nú skattgjöld allþung þessi árin, er svo miklar kröfur eru gerðár um greiðslu á skuldum ríkisins.

Jeg vona svo, að frv. fái greiðan gang í gegnum hv. deild. Um brtt. hv. þm. Str. ætla jeg að geyma mjer að tala þangað til hann hefir gert grein fyrir þeim.