25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1927

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg finn enga ástæðu til að tala langt mál, enda þótt allir ráðherrarnir, að vonum, hafi fundið ástæðu til að spretta upp, hver eftir annan, til þess að svara mjer. Jeg tók það strax skýrt fram, að það væri aðeins eitt mál, sem jeg áliti svo langt fram yfir öll önnur, að jeg mundi gera það eitt að umtalsefni, enda þótt margt annað væri til, sem víta þyrfti hæstv. stjórn fyrir við þetta tækifæri. Sakir þess nefndi jeg aðeins lauslega nokkur atriði, en þau hafa verið nægileg til þess, að hæstv. stjórn hefir stokkið upp, af því að hún hefir fundið sig veika fyrir.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði langt mál um ræktunarsjóðinn, og talaði þar um margt, sem hann vissi, að engin þörf var að tala um, meðal annars um skipun Þórðar læknis Sveinssonar á Kleppi sem gæslustjóra sjóðsins, því að enginn hefir kastað ásökunum í garð hæstv. stjórnar fyrir þá skipun. En hæstv. ráðherra veit, að það stendur í lögunum, að a. m. k. annar gæslustjórinn skuli hafa sjerþekking á landbúnaði, og jafnframt er gefið í skyn, að þeir eigi að hafa það báðir. Og nú veit hæstv. ráðherra, að Þórður læknir hefir ekki verið skipaður í stjórn sjóðsins sem hinn búfræðilegi ráðunautur. Þá er það ekki undarlegt, þó að margir telji það móðgun í garð bændastjettarinnar að skipa í þessa stöðu mann, sem ekkert skyn ber á slíka hluti.

Þá þóttist hæstv. ráðherra ekki skilja, þar sem jeg var að tala um, að hann hefði gefið þinginu skakka skýrslu. En það hefði honum þó átt að vera í fersku minni, því að ekki er lengra síðan en í gær, að útbýtt var hjer í deildinni þingskjali, sem upplýsti, að hann sem fjármálaráðherra hefði verið búinn að gefa eftir veðrjett ríkissjóðs í skipum fiskiveiðahlutafjelagsins „Kára“. En eins og öllum mun kunnugt, hefir þó öðruvísi sungið í honum áður. Þetta kalla jeg að gefa skakka skýrslu, og ætti þetta dæmi að nægja til að sanna mál mitt.

Hæstv. forsrh. (JM) mintist á tvö atriði, en þau eru bæði aukaatriði. Hann neitaði, að skilað hefði verið aftur áfengi til smyglara. Þetta er ekki rjett. Hæstv. ráðherra veit, hvað jeg á við. Maðurinn fjekk sekt, og lögreglustjóri vildi áfrýja málinu, en fjekk ekki, og varð því að þola, að maðurinn heimtaði „sprúttið“ aftur.

Þá þóttist hæstv. forsrh. (JM) ekki skilja, hvað jeg hefði átt við, þegar jeg mintist á, að þagað hefði verið við árás á dómara. Það, sem jeg átti við, var árás Sigurðar Þórðarsonar á einn þektan dómara þessa lands. Mjer dettur vitanlega ekki í hug, að stjórnin hlaupi upp til handa og fóta hvenær sem einhver hnýtir að dómara. En hjer stóð sjerstaklega á, þegar um var að ræða „krítik“ frá gáfuðum og reyndum fyrverandi dómara.

Þá sný jeg máli mínu til hæstv. atvrh. (MG). Hann veit vel, að síðastliðið haust var stjórn bjargráðasjóðsins á fundi uppi í stjórnarráði og lagði eindregið til að veita ekki lán úr sjóðnum til þeirra hreppa, sem vegna auðsærra sjálfskaparvíta höfðu lent í örðugleikum, því að bjargráðasjóðsstjórnin áleit það misnotkun á sjóðnum, að taka fje frá öðrum til slíks. Og þar af leiðandi lagði stjórn sjóðsins í einu hljóði á móti því að veita einum hreppi í kjördæmi hans lán úr sjóðnum, en hann veitti það samt. (Atvrh. MG: Það er satt). Jæja, þá stend jeg vel að vígi, úr því hæstv. ráðherra játar syndir sínar. (Atvrh. MG: Var það ekki meira?). Það má vel vera, að svo hafi verið; jeg hefi ekki haft aðstöðu til að fylgjast með um úrslit allra lánbeiðnanna, en þetta stakk svo sjerstaklega í augu.

Þá hafði jeg þá ánægju að heyra hæstv. fjrh. (JÞ) halda langan fyrirlestur um gengismálið. Jeg efa ekki, að honum gangi gott til gerða sinna í því máli, en reynslan hefir sýnt, að hann hefir gert landinu stórtjón með því, hvernig hann hefir stýrt í málinu. Hann talaði langt mál um, að jeg vildi fella peningana í verði. En slíkt er ekki rjett, því að það tel jeg glæp að fella peningana í verði út í bláinn. Það, sem jeg vil vinna að, er að festa þá í verði, því verði, sem þeir raunverulega hafa, að því er rannsókn leiðir í ljós, og hæstv. ráðh. (JÞ) veit vel, að í þessu efni er jeg í fylsta samræmi við kenningar merkustu erlendra fjármálamanna.

Annars þykir mjer það merkilegt, ef hæstv. fjrh. beinir þungum ásökunum til mín út af gengismálinu, því að jeg fylgi þar algerlega hinum nafnkunna fjármálamanni Cassel, sem hæstv. fjrh. kallar læriföður sinn í gengismálinu, eins og sjá má á bók hans „Lággengi“. En þegar hann veitist með þungum ásökunum að þeim, sem fylgja. Cassel í gengismálinu, þá er hann þar hreint og beint á móti sjálfum sjer.

Hæstv. fjrh. hafði þung ummæli og ásakanir eftir einhverjum um, að það væru svik að hækka peningana ekki aftur í þeirra gamla verð. Það er líklega mætur maður, fyrst sjálfur ráðherrann tekur sjer hans orð í munn. En hvað segir nú Cassel um þær tilraunir, að koma peningum í gullverð? Hann segir, að það sje æðri skylda að svíkja ekki skuldbindingar sínar fyrir hverja þjóð og hvert land. En í því landi, þar sem gengissveiflur eru tíðar, eru einmitt sviknar allar skuldbindingar í hvert einasta sinn, sem breyting verður á genginu.

Síðast í gærdag sagði hæstv. fjrh. og leit vingjarnlega til mín um leið, að krónan yrði að vera innleysanleg, hvar svo sem gullsinnleysanleikinn væri. Með þessum orðum gaf hann í skyn, að það gæti þó komið til mála að drýgja þennan glæp.

Þá var hæstv. fjrh. að tala um „lúðurhljóm vesalmenskunnar“. Jú, hann er sá að fara eftir kenningum þeirra manna, er best og rjettast hafa kent í þessum málum.

Þá talaði hæstv. fjrh. um landbúnaðinn og gengið og sagði, að landbúnaðurinn stæði nú rjettari en verið hefði áður. Þetta haggar í engu því, sem jeg sagði, því hæstv. fjrh. gat vitanlega ekki komið með snefil af rökum fyrir þessari staðhæfingu. Það er aðeins orð á móti orði. Jeg veit, að bændur skulda nú alment miklu meira en áður, og jeg get ekki fallist á þá staðhæfing hæstv. fjrh., að menn safni aðallega skuldum þegar góðæri sje. Jeg veit líka, að mestu erfiðleikarnir eru fyrir dyrum hjá bændastjettinni. Það hjálpar ekki nú, sem hjálpaði á síðasta ári, að kjötið var í 50% hærra gullverði en árið þar á undan, vegna þeirrar tilviljunar að norska krónan hækkaði enn meira en sú íslenska og verðlag þar í landi var ekki komið í samræmi við það. Það voru ekki mín orð, sem hæstv. fjrh. hafði eftir mjer, að landbúnaðurinn væri lagður að velli, en hitt veit jeg, að sum bök hinna yngri bænda hafa brotnað, og jeg veit upp á víst, að næsta ár verður stórkostleg verðlækkun á kjöti vegna hækkunar íslensku krónunnar.

Hæstv. fjrh. neitaði því, að hann hefði gengið á móti þingviljanum í gengismálinu. Við höfum talað um þetta áður, og jeg vil minna á það, að jeg er ekki sá eini, sem hefi þessa skoðun. Í gerðabók gengisnefndar hafa báðir fulltrúar atvinnuveganna skírskotað til þingviljans, er þeir mótmæltu hækkun krónunnar.

Afleiðingjn af stefnu hæstv. fjrh. er sú að hjer er aldrei fast gengi. Hann vill láta gengið vera komið undir dutlungum árferðisins. Við viljum setja lög um, að verð peninga fylgi ákveðnu gullverði.

Hæstv. fjrh. bar á móti því, sem jeg sagði, að árekstur hefði orðið milli hans og Íslandsbanka út af gengisversluninni í haust. En það kom einmitt fram í gengisnefnd af hálfu fulltrúa Íslandsbanka, að bankinn hefði orðið að hætta að kaupa sterlingspund, af því að hæstv. fjrh. hefði neitað honum um þann stuðning, er þurfti.

Þá dró hæstv. fjrh. dár að því, að jeg vildi taka til greina kröfur frá einum þingmanni og einum utanþingsmanni um að kveðja til aukaþings. En þetta voru menn, er settir höfðu verið í gengisnefnd af sjálfu Alþingi sem fulltrúar atvinnuveganna, og þeir báru fram þessa kröfu, þegar þeir sáu, að hagsmunum atvinnuveganna var stórhætta búin. Svo sagði hæstv. fjrh. síðar, að eina afleiðingin af tillögu minni í haust — ef farið hefði verið eftir henni — hefði orðið sú, að ekki hefði verið hægt að hækka krónuna, heldur aðeins að festa hana. Það var þá svona ákaflega erfitt að hækka krónuna, og það varð að stíga þessi voðalegu spor til þess, því að annars hefði verið loku fyrir skotið, að hægt hefði verið að hækka hana endanlega! En það, sem blasir nú við, eru enn meiri erfiðleikar og erfiðari spor til þess að ná því marki, er hæstv. fjrh. vill ná. Og jeg öfunda hann ekki út af því að standa yfir hinum mörgu rústum hjer á landi, sem fjármálaspeki hans á sök á nú og í framtíðinni.