10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Mjer þykir það nokkuð hart að gefa hv. fjvn. einræði eða einveldi yfir fjárl., og jeg veit ekki til þess, að hún hafi það vald að rjettum lögum, og jeg vil því leyfa mjer að mótmæla algerlega tilmælum hæstv. fjrh. (JÞ).

Það eru aðeins 2 brtt., sem jeg á á þskj. 297 við þennan kafla fjárlagafrv. Hefir hv. frsm. (ÞórJ) lagt á móti þeim báðum, og hæstv. forsrh. (JM) hefir líka minst á þar. Hann lagði ekki á móti fyrri till., um hækkun á skrifstofukostnaði sýslumanna og bæjarfógeta, og fór vingjarnlegum orðum um síðari till., styrkinn til Skúla Guðjónssonar, og get jeg verið honum þakklátur fyrir það. En með því að hv. frsm. aðeins vitnaði í ræðu hæstv. forsrh. um skrifstofukostnað sýslumanna, þá þarf jeg ekki að svara honum, en ætla nánar að athuga ummæli hæstv. forsrh. Hann hjelt því fram, að um sýslumannaembættin úti um land væri öðru máli að gegna en um bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættin í Reykjavík, sem væru stofnuð með sjerstökum lögum og ætti að borga kostnaðinn af þeim eftir reikningi. Þetta er nú alls ekkert frábrugðið, því í launalögunum frá 1919 eru hvortveggja embættin tekin til sömu meðferðar, talin upp í 11. gr. og að kostnaðurinn, sem um ræðir í þessari gr., skuli greiddur sem þar segir. Hæstv. atvrh. (MG) segir, að bæjarfógetinn og lögreglustjórinn í Reykjavík hafi ekki gengið undir þessi lög og lúti því lögunum frá 1917, um skifting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík. En þetta breytir engu í raun og veru. Því að í lögunum frá 1917 er svo fyrir mælt, að skrifstofukostnaður þessara embættismanna skuli ákveðinn í fjárlögum, en það er ekkert tekið fram um það, að hann eigi að greiðast „eftir reikningi“ frekar en skrifstofukostnaður embættismannanna úti um land. En í hvorumtveggja lögunum er svo fyrir mælt, að skrifstofukostnaðurinn skuli greiddur úr ríkissjóði. Munurinn er aðeins sá, að kostnaðurinn er ákveðinn til 5 ára í senn úti um land, en hjer í Reykjavík á samkv. lögunum frá 1917 að ákveða hann fyrirfram fyrir hvert ár, og er tilgangur laganna bersýnilega sá sami í báðum tilfellum, að borga skrifstofukostnað embættanna það, sem með þarf. Enda liggur það í breytingum þeim, sem gerðar voru á launalögunum 1919, að meiningin var að borga kostnaðinn aðeins á annan hátt en áður, en aukatekjur embættanna áttu að ganga til þess að standast þau útgjöld.

Hæstv. forsrh., sem annars talaði sanngjarnlega um þetta, sagði, að erfitt væri að ákveða sanngjarnt, hvað þyrfti á hverjum stað, því að kröfurnar væru misjafnar, og nefndi ýms dæmi því til sönnunar. Því ber ekki að neita, að munurinn á þessum kröfum er lítt skiljanlegur í fljótu bragði, en jeg finn þó skýringu á þessu í einstökum tilfellum. T. d. nefndi hæstv. forsrh., að í Snæfellsnessýslu sæti duglegur og mjög starfhæfur embættismaður, sem ekki þyrfti nema. 4000 kr. En sýslumennirnir í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum þættust þurfa 5 þús. kr. Jeg skal ekkert um það segja, hvort Snæfellsnessýsla er umfangsminni en hinar eða hvort sýslumaðurinn þar leggur fram meira starf sjálfur, en jeg veit hitt, að það stendur dálítið ólíkt á um þessa embættismenn að öðru leyti. Sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu komst að mjög góðum kaupum á húsi og hefir þar af leiðandi minni húsnæðiskostnað en hinir, sem báðir þurftu að byggja hús, og varð annað þeirra mjög dýrt. Hafa þeir því þurft að leggja í mikinn kostnað, svo að munurinn sem hjer er um að ræða, er ekki langt frá því að vega upp á móti kröfum þessara manna. Jeg sje ekki, að það sje neitt ósanngjarnt að taka tillit til þessara sjerstöku kringumstæðna, heldur finst mjer það miklu fremur skylt að gera það. Í þeim plöggum, sem fyrir liggja, segir sýslumaður Skagafjarðarsýslu, að vegna þess, hve lítið sje lagt til embættisins, sje hann að verða á eftir með afgreiðslu málanna, því að hann verði að spara útgjöld til alls. Mjer finst það því auðsætt, að það borgar sig ekki fyrir ríkissjóð að skera bæði við nögl sjer kostnaðinn til þessara embætta og jafnframt ofhlaða embættismennina störfum, því að það miðar aðeins til þess, að þeir geta ekki staðið í stykkinn og ekki rækt embætti sín sæmilega. Jeg get ímyndað mjer, út frá þessum dæmum, sem hæstv. forsrh. nefndi, að eitthvað svipað kunni að vera annarsstaðar. Hvað snertir Húnavatnssýslu, ef hún er borin saman við Snæfellsnessýslu, þá er þess líka að gæta, að hún er tvískift, og er sýslumaðurinn þar oddviti tveggja sýslunefnda; er aukakostnaður að því, og svo má fleira telja. Hjer við bætist svo það, sem hæstv. fjrh. benti á, að störf sýslumanna eru að aukast, og síðastliðið ár bættist það við, að þeim er lagt á herðar að safna innflutnings- og útflutningsskýrslum með öðrum hætti en áður, og hefi jeg orðið þess var, að sýslumennirnir telja þetta hafa orðið til þess að auka starfrækslukostnað embættanna til muna. Hinsvegar verður að hafa eftirlit með embættisrekstri þeirra og láta þeim ekki haldast uppi að vanrækja embætti sín. En samkv. lögum eiga þeir fulla heimtingu á því að fá greiddan þann kostnað, sem þeir hafa af embættum sínum. Nú hafa þeir ekki farið fram á nema 100 þús. kr., þótt þeir gerðu ráð fyrir, að meira þyrfti og samanlagðar kröfur þeirra nemi meiru en þessari upphæð. Held jeg því, að rjett sje að hækka þessa upphæð og vona, að hv. þm. athugi, að þetta er áætlunarupphæð, eins og hæstv. forsrh. tók fram, og er þá enn rjettmætara að færa þessa áætlun upp í 100 þús. kr.

Viðvíkjandi styrknum til Skúla Guðjónssonar hefi jeg fátt að segja. Hæstv. forsrh. hefir talað hlýlega um hann og hv. frsm. hafði lítið um hann að segja, en vísaði til ummæla einstakra lækna, sem teldu þetta ekki nauðsynlegt. Jeg vil nú vísa til þess, að þegar þessi maður sótti um styrk til að nema þessi fræði fyrir nokkrum árum, þá hafði hann eindregin meðmæli háskólaráðsins, Læknafjelags Reykjavíkur og landlæknis og fleiri „autoriteta“. Og hvernig hafa þeir farið að því að mæla með styrk til þessa manns, ef þeir álíta starf hans óþarft? Skýringin liggur nærri, og tel jeg rjett að skýra frá þeirri einu hugsanlegu skýringu, sem er sú, að þegar starfssvið mannsins er fjarlægt, þá mæla þeir með styrknum, en þegar hann ætlar að setjast að heima og vinna á þessu sviði, þá lendir starfssvið hans á sviðum þeirra sömu manna, sem höfðu mælt með styrknum til hans. Þetta er eina skýringin, og má telja þetta dularfult fyrirbrigði. Jeg hygg, að málið hafi ekki verið lagt fyrir læknadeild háskólans, og er það mikill galli á meðferð málsins, og myndi það liggja öðruvísi fyrir nú, ef það hefði verið gert. Jeg vil taka það fram og vekja athygli á því, að í Alþt. 1923 eru prentuð meðmæli læknadeildar háskólans á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta lagi, að það væri mjög æskilegt, að völ væri á sjermentuðum lækni í þessari grein, og að staðgóð þekking á henni myndi koma að góðum notum, hvort heldur sem umsækjandinn verður síðar hjeraðslæknir eða starfar á annan hátt í landsins þarfir. Og í öðru lagi, að Skúli Guðjónsson sje efnilegur læknir og líkindi til, að styrkur, sem honum yrði veittur, komi að tilætluðum notum. Deildin er því á einu máli um að gefa umsókn hans bestu meðmæli.“

Þessi meðmæli eru svo góð, að betri er ekki hægt að hugsa sjer. Jeg fæ því ekki sjeð, hvernig hægt er að skýra afstöðu hv. frsm. til þessa máls, er hann segir, að nú hafi komið andmæli frá læknum viðvíkjandi þessum styrk.

Jeg er alveg sannfærður um, að hjer er um að ræða afarþýðingarmikið mál fyrir heilbrigðismál landsins. Við erum orðnir á eftir öðrum þjóðum í þessu efni, og er okkur því sjerstök nauðsyn að kynnast sem best framförum annara þjóða á þessu sviði. Annars er jeg ekki neinn sjerfræðingur á þessu sviði, en jeg leyfi mjer að vísa að öðru leyti til meðmæla þeirra „autoriteta“, sem jeg hefi nefnt.

Til samkomulags ætla jeg að flytja skriflega brtt. til vara og færa upphæðina niður, ef ske kynni, að hv. deild fjellist þá á lægri till.

Viðvíkjandi till. háttv. þm. Dal. á þskj. 297,XV, er það að segja, að hv. frsm. hefir lýst yfir afstöðu hv. fjvn. til þeirra, að hún geti ekki fallist á, að þær verði samþyktar, af því að engin áætlun sje til um þessar framkvæmdir. Jeg vil nú segja það, að þetta er ekki fullnægjandi ástæða til þess að vera á móti þessu, ef framkvæmd þess, sem till. fara fram á, er nauðsynleg fyrir hlutaðeigandi hjeruð og líkleg til þess að verða til mikilla hagsbóta fyrir þau. Jeg er alveg viss um, að hv. þm. eru sjálfir sannfærðir um, að ekki getur liðið á löngu, þangað til þessi akvegur, sem um ræðir í annari tillögunni, kemur yfir Bröttubrekku, og er engin sanngirni í því að láta þetta dragast, úr því að kominn er vegur upp Norðurárdal og hjeraðið á afarerfitt með allar samgöngur.

Hinsvegar er á það að líta, að þetta eru brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1927, og má því rannsaka þetta áður en ráðist verður í framkvæmd verksins. Það er nógur tími til þess.

Um hitt atriðið, að setja kláf á Krosssund milli Langeyja við Skarðsströnd, er það að segja, að vegamálastjóri hefir athugað það, og eftir hans umsögn má gera ráð fyrir, að það kosti ekki meira en till. ræðir um, en þó mun það kosta alt að 4 þús. kr., en líka alls ekki meira. Og þar sem þetta er mikil samgöngubót, þá er ekki í það horfandi að bæta úr hinni miklu þörf, sem hjer er fyrir hendi. Það er að vísu satt, að vegamálastjóri álítur ekki brýna þörf fyrir þessa samgöngubót. En það stafar af því, að hann veit ekki, hve umferðin er mikil þarna. Hann hefir ekki komið á þennan stað, þegar umferðin teppist mest, nefnilega vor og haust. Á öðrum tímum má komast á bát yfir sundið, og þess vegna hefir hann ekki orðið var við þennan farartálma. Hinsvegar kemur þörfin best fram í hinum mikla áhuga, sem er í þessu hjeraði fyrir að fá þessa samgöngubót, því að það hefir eindregið verið farið fram á það á þingmálafundum að fá þetta.