26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að segja, að jeg bjóst ekki við neinum umræðum um þetta mál nú, og satt að segja finst mjer þær hafa farið talsvert utan við efnið.

Jeg hirði ekki að svara þeirri ræðu, sem hv. 3. landsk. (JJ) hjelt í þessu máli við 2. umræðu. Jeg skildi vel, hvað hann fór. Hann vildi eigna sjer og sínum flokki mál þetta algerlega. Þetta læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. En jeg verð að segja, að mjer er ekki kunnugt um, að komið hafi fyr fram en nú frá stjórninni till. um samlög milli Eimskipafjelagsins og ríkissjóðs. Svo að sá hluti hugmyndarinnar sýnist mjer að minsta kosti nýr. En jeg kæri mig ekki um að deila um það; það er mest um vert að fá skipið, um það hugsa jeg og annað ekki, og er ófús á að blanda flokkstogstreitu í málið.

En jeg vildi aðallega gefa dálitlar upplýsingar, sjerstaklega út af ræðu hv. þm. Vestm. (JJós) viðvíkjandi tilraun þeirri, sem gerð var á síðasta hausti um útflutning á frystu kjöti. En fyrst vil jeg taka það fram, að það rúm, sem fer fyrir kæliútbúnaðinn í hinu nýja skipi, er borgað, afnotin af því, með 350 þús. kr. framlagi nú úr ríkissjóði, svo að skipið þarf ekki að renta sig eins og Goðafoss. En jafnframt leiðir þar af, að þegar kældar eða frystar vörur eru endar með skipinu, þarf útgerðin ekki að taka hærra gjald fyrir þær en aðrar vörur, nema sem því svarar að halda vjelunum í gangi. Það er það eina, sem Eimskipafjelagið þarf að krefja um fyrir utan venjulegt flutningsgjald.

Viðvíkjandi tilrauninni á síðasta hausti um útflutning frysts kjöts er það rjett, að, hún tókst illa. En það var einungis fyrir það, að ekki var hægt að fá hentugt skip til að flytja fryst kjöt. Það var reynt ákaflega. mikið. Því tilboði, sem lá fyrir þinginu í fyrra, var ekki tekið þá fyrir þá sök, að það þótti of dýrt. Það var reynt alt í sumar til að fá ódýrara tilboð, en það fjekst ekki. Annaðhvort voru skipin of stór eða þá það varð að leigja þau til langs tíma. Svo þegar kom að því að þetta skip var leigt og það átti að leggja af stað samkvæmt samningi, kemur skeyti frá útgerðinni um, að kæliútbúnaðurinn sje í ólagi og firmað óski eftir að verða laust við samninginn, því að það hafi ekki ráð á að setja skipið í stand. Fjelaginu var símað aftur, að það yrði að standa við samninginn, láta gera við skipið og senda hið bráðasta. Þetta gerði fjelagið að nokkru leyti, en ekki öllu. Og þess vegna var það, að skipið tafðist hjer við frekari endurbætur.

Jeg verð að segja, að jeg held það sje ekki hægt að saka þá, sem fóru með þetta mál, um það, að þeir hafi ekki gert það, sem hægt var, til að fá hentugt skip. Framkvæmdastjóri Eimskipafjelagsins gerði alt, sem hann gat, fyrir stjórnina í því efni, en allar tilraunir mistókust.

Það var víst mjög lítið af farminum, sem var skemt, þegar á markaðinn kom, og það er þó það gleðilega við þessa tilraun, að með henni er sýnt, að opna má markað fyrir kjöt okkar í Englandi. Svo að jeg verð að telja, þó að tap hafi orðið á þessum fyrstu tilraunum, þá hafi þær þó fært okkur sann fyrir því, hvers virði kjötið geti orðið okkur í framtíðinni í Englandi. Það er nú sýnt, að frosið kjöt getur verið í allgóðu verði þar, en þó vil jeg taka fram, að kælt kjöt mundi í ennþá betra verði og Englendingar sækjast meira eftir því. Því eigum við að keppa að því að koma kældu kjöti á markaðinn og vanda sem föng eru á allan útbúnað þess, svo að varan þoli alla samkepni annarsstaðar frá. Og því meiri þörf er okkur að vera hjer á verði, sem gera má ráð fyrir, að saltkjötsmarkaður okkar í Noregi fari minkandi. Norðmenn eru nú að auka kjötframleiðslu sína hröðum skrefum. Þess vegna er okkur um að gera að ljetta á kjötmarkaðinum í Noregi og brjóta okkar nýjar leiðir, sem við getum vænst, að verði okkur til mikilla nytja, er stundir líða. Og þó að kæliskipið sje dýrt og tilraunirnar svari ekki beinum arði svona á byrjunarstiginu, þá er jeg sammála hv. þm. Vestm. (JJós) um það, að við megum ekki missa kjarkinn og leggja árar í bát. Og þó að sæmilegt verð sje á saltkjöti okkar í Noregi eins og stendur, þá megum við ekki láta það villa okkur sýn og draga þess vegna úr tilraunum um að koma kældu kjöti á markaðinn, því jeg geri mjer engar vonir um það, að slíkt ástand haldist lengi, eins og t. d. átti sjer stað í Noregi í haust, að saltkjöt sje í nærri sama verði og nýtt kjöt.

Nei, við megum ekki tapa trúnni á góðan sigur þessa mál. Við verðum að leita fyrir okkur og finna ný og betri ráð, og þó að þau sýnist dýr í bili, þá mun framtíðin segja annað, þegar ísinn er brotinn og leiðin opnuð til nýs og fullkomnari kjötmarkaðs.