26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer gleymdist að taka það fram áðan, að jeg held, að það sje nokkuð orðum aukið hjá hv. 3. landsk. (JJ), að Eimskipafjelag Íslands fái sína heitustu ósk uppfylta með byggingu þessa kæliskips. Að minsta kosti efast framkvæmdarstjórinn um það, að kæliskipið verði Eimskipafjelaginu til fjárhagsþrifa, þó hann hinsvegar gangi inn á þetta fyrirkomulag, sem horfið er að, enda ýmsir aðrir stuðlað að því.

Jeg man ekki eftir því, að jeg hafi fengið brjef það, er hv. 3. landsk. var að tala um, en hitt man jeg, að Jón Árnason átti tal við mig um byggingu kæliskipsins, og það oftar en einu sinni. Þó að jeg minnist ekki þessa brjefs nú, er jeg ekki þar með að draga úr þeim heiðri, sem Jón Árnason á skilinn fyrir afskifti sín af málinu. Mjer er vitanlegt, að hann gerði alt, sem hann gat, og á miklar þakkir skildar fyrir það.