26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

99. mál, vörutollur

Frsm. (Björn Líndal):

Þegar lagður er á nýr þungur skattur, og þegar jafnframt er tekið fram, að hann sje aðeins lagður á til bráðabirgða, til þess að bjarga fjárhag ríkisins, þá er eðlilegt, að þjóðin vonist eftir því, að sú verði líka reyndin á, og það því fremur, þegar skömmu eftir að tollurinn er á lagður breytist hagur ríkissjóðs mjög til batnaðar. Það er því eðlilegt, að þjóðin geri sjer vonir um, að ljett verði af henni einhverju af sköttum, þegar fjárhagur ríkissjóðs hefir batnað jafnmikið og á síðasta ári. En því er miður, að jeg hygg, að þessar vonir hljóti að breytast að miklu leyti. Útlitið er nú þannig, að a. m. k. hefi jeg ekki treyst mjer til þess að leggja það til, að álögur yrðu lækkaðar eins mikið og jeg vonaði áður en jeg kom á þing. Það verður að fara varlega, og er þá vandinn sá, að ráða fram úr því, hvar fyrst eigi að lækka. Fjhn. komst að þeirri niðurstöðu, að nú hvíldu svo miklar og þungar álögur á atvinnuvegunum, og þá sjerstaklega á sjávarútveginum, að það væri sjerstök nauðsyn að reyna að ráða þar bót á. Að vísu er í þeim till., sem hjer liggja fyrir, ekki um stórar lækkanir að ræða. Eftir upplýsingum, sem nefndin hefir fengið, þá nemur lækkunin á kolatollinum 1500–2000 kr. á togara á ári. En þó ekki sje meira, þá munar það samt nokkru. Ennfremur vill nefndin lækka vörutoll af steinolíu um helming, þó að sá tollur sje raunar ekki eins tilfinnanlegur eins og kolatollurinn. Það, sem munar hjer mestu, er tunnutollurinn, og liggja til þess alveg sjerstakar ástæður, að nefndin leggur til, að hann sje strikaður alveg út. Sú vara, sem einkum er látin í þessar tunnur, nefnilega síldin, er nú vafalaust sú framleiðslutegund, sem allra mest hvílir á af tollum tiltölulega. Þessi vara er nú svo fallin í verði, að láta muni nærri, að fáist 12 ísl. kr. fyrir tn. síldar, og verður þá vörutollurinn og útflutningsgjaldið um l6% af verði hverrar síldartunnu. Munu allir sjá, hvað þetta gjald er ranglátt. Jeg hefði kosið að fara fram á lækkun á útflutningsgjaldi á síld. En það varð nú að samkomulagi í nefndinni að fella heldur niður vörutoll á tunnum. Gat jeg þá fallist á að láta útflutningsgjaldið eiga sig að sinni. Jeg vona því, að hv. þdm., að þessu athuguðu, vaxi ekki í augum, þótt tunnutollurinn verði afnuminn.

Jeg játa það, að till. fjhn. í þessu máli eru einkum til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. En þó jeg sje sjálfur bóndi, þá hika jeg ekki við að játa það, að álögur þær til ríkisins, sem á okkur hvíla, eru miklu minni en á útgerðarmönnum og kaupstaðarbúum, og jeg vil vera svo sanngjarn að játa þetta bæði í orði og verki.

Hv. þdm. hafa nú lesið frv. og sjeð, hvað í því er. En jeg vil benda á það til frekari skýringar, að við höfum lagt það til, að breytingar þær, sem nú kunna að verða gerðar, verði feldar inn í vörutollslögin, en jafnframt verði feldur úr þeim kafli, sem nú hefir enga þýðingu lengur, nefnilega það, að kola- og salttollurinn sje settur til þess að vinna upp tap á kolum og salti 1919. Þetta tap er nú upp unnið og þess vegna óþarfi, að þessi klausa standi lengur í lögunum.

Jeg leyfi mjer loks að vænta þess, að hv. þm. sýni þá sanngirni, hvort sem þeir eru fulltrúar fyrir útvegs- eða landbúnaðarkjördæmi, að rjetta nú lítilsháttar hjálparhönd þeirri atvinnugrein, sem nú stendur höllustum fæti gagnvart örðugleikum þeim, sem stafa jöfnum höndum af mjög mikilli verðlækkun afurðanna, miðað við gullverð, og hinni óvæntu, snöggu og stórstígu gengishækkun íslensku krónunnar á síðastl. ári.