26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

99. mál, vörutollur

Halldór Stefánsson:

Þótt fjhn. sje sammála um að bera fram breytingar á lögum um vörutoll, þá er hún, eins og sjá má á nál., ekki sammála um einstök atriði. hvorki um þær breytingar, sem frv. leggur til, nje heldur yfir höfuð um það, hverjar breytingar helst beri að gera. Í þessu sambandi vil jeg benda á, að ummæli og ástæður nál. eru aðallega miðaðar við þær brtt., sem fram eru settar í frv., en ekki við ástæður eða skoðanir okkar, sem höfum ágreining um einstök atriði, en erum þó sammála um að breyta lögunum að nokkru. Jeg mun þó ekki tala hjer fyrir þá samnefndarmenn mína, sem ágreining hafa gert að meira eða minna leyti, enda hefir háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) talað fyrir sig, en háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) er ekki viðstaddur.

Jeg skal þá byrja á því að geta þess, að í þetta sinn eru tekjuhallalaus fjárlög ekki aðalatriði fyrir mjer, þegar þess er gætt, að afkoma ríkissjóðs á síðasta ári varð svo miklu betri en búist var við — borgaðar allar lausaskuldir ríkisins og bætt miklu við sjóð, og ennfremur, að þjóðin hefir á því ári greitt nær tvöfalt við það, sem henni var ætlað. — þá þykir mjer rjettmætt, þó nokkuð sje gengið á sjóðinn til að skila þjóðinni aftur, með ríflegum framkvæmdum þess, sem þjóðin þarfnast og þráir, litlum hluta af því, sem af henni hefir verið heimtað með harðri hendi í augnamiði, sem nú er að fullu náð. Auk þess er verðtollsfrv. enn í bakhönd til þess að gera þann jöfnuð, sem þurfa þykir á tekjum og gjöldum ríkisins.

Það er eingöngu vegna örðugrar aðstöðu atvinnuveganna, að jeg get fallist á að lækka nokkuð þessa tolla. Þeir hafa á sínum tíma verið settir inn sem rjettmætur þáttur í tollalöggjöf landsins. Þess vegna hefðu neyðartollar hinna síðari ára í raun og veru átt að falla fyr. En af því að jeg fyrir mitt leyti álít þungatoll annmarkameiri en verðtoll, þá get jeg fallist á nokkra lækkun á honum, en taka þá aftur tillit til þess við afgreiðslu verðtollsfrv. Og fyrir mjer vakir að breyta þungatollinum í verðtoll smátt og smátt.

Eins og segir í nál., er það of ör hækkun íslensku krónunnar á síðastl. ári, sem á mikinn þátt í því, hve örðugt gengur nú með atvinnuvegina. Það sýnist nú í sjálfu sjer fráleitt að leggja byrðar á atvinnuvegina með verðbreytingu peninganna til þess að þurfa svo aftur að ljetta á þeim með ívilnunum um tollaálögur. Slíkt er í sjálfu sjer hálfgerður skollaleikur eða svikamilla. En nú er svo komið sem komið er, og verður að taka afleiðingum þess.

Þessar ástæður, sem jeg hefi nefnt, ættu þá að verða okkur til varnaðar í framtíðinni, að reka ekki þá gengispólitík, sem legst með öllum þunga og afleiðingum fjárhagslegra örðugleika á atvinnuvegina jafnskjótt og hvenær sem almennar ástæður kynnu að leyfa þeim að rjetta nokkuð við, og heldur þeim þannig í kútnum og kreppunni, með öllum þeim afleiðingum, sem það hefir fyrir þjóðlífið, hver veit hve lengi. Með því er atvinnuvegum þjóðarinnar, sem eru undirstaða þjóðlífsins, sýnt það tilræði og veittur sá áverki, sem vægast sagt, verður ekki varið, að forsvarsmenn þjóðarbúskaparins veiti þeim, því að þá má með rjettu segja, að „heggur sá, er hlífa skyldi“.

Þetta vildi jeg nú sagt hafa alment, en hvað einstök ágreiningsatriði mín við frv. snertir, þá býst jeg við að gera frekari grein fyrir þeim við 2. umr. málsins. Jeg get aðeins tekið það fram, að okkur sumum nefndarmönnum þykja lækkunartillögurnar ekki nógu almennar; okkur þykir vera of lítið tillit tekið til neytendanna, og meðal annars þess vegna viljum við, sumir nefndarmenn, afnema kornvörutollinn, og þykir of langt vera gengið í því að lækka kolatollinn um 2/3 hluta og í að afnema tunnutollinn.

Jeg hefi með þessu aðeins viljað 1ýsa afstöðu minni til frv., en mun að öðru leyti eins og jeg hefi sagt, gera nánari grein fyrir þeim einstöku atriðum við 2. umr. bæði þeim till., sem fyrir liggja og fram kunna að koma.