10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1927

Benedikt Sveinsson:

Það er ekki ætlun mín að rífa niður till. annara hv. þm., þó að hæstv. fjrh. (JÞ) segði, að þeir, sem kæmu fram með nýjar brtt., rifu með því niður fyrir öðrum. Jeg ætla einmitt að fara að dæmi hæstv. fjrh. og fara vel að þessari hv. deild, með því að atkvgr. er nú fyrir dyrum, og vil jeg minna hv. þm. á það, að jeg hefi greitt atkv. með mörgum till. þeirra við 2. umr. Mjer heyrðist á háttv. frsm., að vegamálastjóra væri ekki kunnugt um nauðsyn þess, sem hin litla brtt. mín fer fram á, að fá brú á Brunná, og jafnvel, að hann þekti ekki ána. Það væri reyndar ekki svo undarlegt, því að það er ofætlun ungum verkfræðingi að þekkja allar torfærur á landi voru, jafnvel þótt hann hafi einhverntíma farið yfir þær að hásumarlagi. En þegar jeg átti tal við vegamálastjóra rjett fyrir jólin um þessa brú, tók hann svo vel í mál mitt, að maður, sem gekk við hlið mjer, sagði við mig á eftir, að þarna hefði jeg fengið brú í jólagjöf handa kjósendum mínum, og kvaðst óska mjer til heilla, því að margur mundi fá lakari jólagjöf. Nú virðist þetta horfa öðruvísi við, eftir því, sem háttv. frsm. sagði, en áin hefir þó ekkert breytt sjer; hún er engu minni farartálmi en áður, þar sem hún fellur eftir miðju hjeraði, á lögteknum þjóðvegi og kaupstaðarvegi, eins og jeg hefi áður rjettilega lýst. Jeg vona þess vegna fastlega, að háttv. deild verði ekki á móti fjárveitingu til brúar þessari, því að á þessi er mikill farartálmi og ófær yfirferðar með vagna eða bifreiðar, sem eru þau samgöngutæki, sem í mörgum hjeruðum hafa orðið til mikilla samgöngubóta. Það liggur að vísu ekki fyrir nein kostnaðaráætlun, en jeg held, að það geri ekki svo mikið til, því að þá er að minsta kosti ekki um neina skakka áætlun að ræða, eins og stundum kemur fyrir.

Jeg mun ekki fjölyrða meira um þetta, en vil mæla mjög sterklega með till. háttv. 3. þm. Reykv. um styrk til Skúla læknis Guðjónssonar. Þessi maður er mjög vel að sjer; hann hefir skrifað vísindalegar ritgerðir í útlend tímarit og sýnt það ljóslega, að hann var þess trausts maklegur, sem Alþingi bar til hans, er það styrkti hann til náms. Það væri líka brigð gagnvart þessum manni, ef þingið kipti nú að sjer hendinni, þar sem það hefir styrkt hann til þessa náms áður í sjerstökum tilgangi og þar með gefið honum vonir um starf hjer heima. Það væri ef til vill verjandi, ef svo mikið hallæri væri í landinu, að vjer gætum ekki haldið uppi sóttvörnum, þó að svarti dauði eða önnur slík pest væri á ferðinni. En nú er frekar góðæri í landinu og þess að vænta, að háttv. þm. sjái sjer fært að samþykkja þessa till.