28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

99. mál, vörutollur

Frsm. (Björn Líndal):

1. umr. þessa máls varð endaslepp, af því að við flm. vildum ekki tefja fyrir málinu að komast til 2. umr. Jeg átti þá eftir að svara allmörgu því, er mælt hafði verið móti frv., og mun jeg nú víkja að helstu mótbárunum, er mjer þykja máli skifta.

En áður en jeg sný mjer að því, vil jeg leyfa mjer fyrir nefndarinnar hönd að þakka hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir það, hve vel hann tók í frv. Hann skildi, hvað fyrir okkur vakir, að við viljum byrja á því að reyna að rjetta þeim hjálparhönd, sem höllustum fæti standa í landinu.

En það má ef til vill til sanns vegar færa, að það lítur ekki vel út að bera fram frv. um talsverða lækkun á tekjum ríkissjóðs jafnhliða því, að útgjaldahækkun í fjárlögunum, frá frv. stjórnarinnar, nemur um 600 þús. kr. og svo ógætilega gengið frá fjárlagafrv., að við afgreiðum það út úr deildinni með 200 þús. kr. tekjuhalla. Eins og sjá má á frv., eiga þessi lög að ganga í gildi á miðju ári eða 1. júlí n. k., og þess vegna var mjer það gleði að heyra frá ráðherrastóli, að hæstv. fjrh. væri ekki hræddur við þetta. Hann sagði, að ef svo færi, að fjárhag ríkisins yrði stefnt í hættu með þessum lögum, þá yrði næsta þing að taka til sinna ráða. Jeg vil í þessu sambandi vekja athygli á, að ef ekki er hægt að lækka gjöld ríkissjóðs og þá jafnframt skatta og tolla, þá er það af því, að þjóðin og þingið vill ekki spara, þrátt fyrir alt sparnaðarhjal. Með lækkun tekna leiðir af sjálfu sjer, að ýmsum verklegum framkvæmdum verður að fresta í bili, enda er víst, að sumar þeirra þola einhverja bið. Jeg þykist hafa fengið reynslu fyrir því þessi fáu ár, sem jeg hefi átt sæti á þingi, að líkt sje um þjóðarbúskapinn og tíðkast á mörgum heimilum, að því hærri sem tekjurnar eru, því meiri er eyðslan.

Þess vegna leyfi jeg mjer að brýna fyrir hæstv. stjórn að gæta alls hófs við samning næsta fjárlagafrv., svo að ekki þurfi að hækka tolla eða auka skatta á næsta ári, því að það yrði jeg að telja afaróheppilegt og ver farið en heima setið.

Þá vil jeg nú athuga ræður ýmsra hv. þdm. frá því um daginn og minnast á brtt. þær, sem fyrir liggja.

Verður þá fyrst fyrir mjer brtt. á þskj. 434, frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Hjer er ekki farið fram á annað nje meira en það, sem fjhn. hefði getað fallist á, ef hún hefði sjeð sjer það fært vegna fjárhags ríkissjóðs. Þessi skoðun nefndarinnar kemur fram í greinargerðinni fyrir frv. og verð jeg að halda mjer við hana, þótt jeg hinsvegar játi, að gott væri að geta afnumið þennan toll. En eins og horfir, virðist betra að byrja lækkunina á öðru sviði. Hjer er líka um tiltölulega litla fjárhæð að ræða. Þessi tollur, kornvörutollurinn, mun nema sem svarar um 50 eða 55 aurum á mann, en kemur vitanlega þyngst niður á fjölskyldum í kaupstöðum, en þær þurfa ekki að eyða meira en tveim tonnum af kolum á ári til þess að hagnast meira á lækkun kolatollsins en afnámi korntollsins. Annars vil jeg heldur tolla það, sem alment eru kallaðar nauðsynlegar neysluvörur, heldur en leggja þunga skatta á nauðsynjar þær, sem framleiðslan stendur eða fellur með. Jeg lít svo á, að þjóðin gæti sparað til stórra muna þessi svonefndu nauðsynjakaup, með því að nota betur en alment er gert gæði okkar eigin lands. Ef hver fulltíða maður í landinu borðaði sem svaraði 100 síldum á ári, mundi hann spara við það miklu meira en korntollinum nemur. Jeg er sannfærður um, að með þessu móti gætum við sparað allstóra upphæð, sem annars fer út úr landinu, og þó værum við að mörgu leyti betur haldnir, en að engu leyti ver.

Brtt. þeirra hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 1. þm. N-M. (HStef), á þskj. 456, vill fara skemra í að lækka kolatollinn. En úr því að telja má hættulaust fyrir ríkissjóð að lækka hann niður í 1 kr., og að öll útgerð stendur nú mjög höllum fæti, þá virðist mjer ekki áhorfsmál að samþykkja frv. eins og nefndin hefir flutt það. Vona jeg því, að hv. þdm. samþykki ekki brtt., heldur fallist á hitt, að tollurinn færist niður í það, sem stendur í frv.

Um brtt. á þskj. 443 ætla jeg ekki að tala að þessu sinni.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að háttv. þm. Str. (TrÞ), enda þótt hann sje ekki viðstaddur sem stendur, því að það á ekki að vera neitt persónulegt, heldur aðeins alment um málið. Hann lagði áherslu á það við l. umr., að verið væri með þessu frv. að hlynna einhliða að sjávarútvegsmönnum, en ekki að bændum. Hann taldi, að einar 10 þús. kr. af tolllækkuninni væru bændunum til hagsbóta. Væru þó erfiðleikar landbúnaðarins og sjávarútvegsins hliðstæðir og svo líkir, að þar yrði naumast gerður nokkur munur á. Jeg þekki nú til beggja þessara atvinnuvega, þar sem jeg stunda þá báða, en þó öllu meira landbúnaðinn. Get jeg sagt það með sanni, að það þrengir miklu meira að sjávarútveginum. Mesta dýrtíð landbúnaðarins er fólgin í dýru verkafólki, en þó má segja, að það gangi nokkurnveginn jafn yfir báða atvinnuvegina. Auðvitað er það markaðurinn, sem mest er undir komið, en ekki verður þó annað með sanni sagt en að hann hafi síðastliðið ár verið mun betri fyrir landbúnaðarafurðir en sjávarafurðir. Landbúnaðurinn stendur því betur að vígi nú sem stendur. Jeg vil vekja athygli þeirra manna, sem bágt eiga með að líta óvilhalt á málið og hættir jafnvel við að leggja á það hlutdræga dóma, á því, að fljótlegt er að gera samanburð á því, sem gert hefir verið fyrir hvorn atvinnuveginn fyrir sig hin síðustu árin af hálfu löggjafarvaldsins. Er þá fljótlegt að telja það upp, sem gert hefir verið til þess að bæta markað sjávarútvegsins, því að það er ekki neitt að heitið geti. Aftur á móti var stigið nýlega mjög þýðingarmikið spor til þess að bæta markað landbúnaðarins. Á jeg þar við norska samninginn. Það er stærsta sporið, sem stigið hefir verið til þess að hjálpa einum atvinnuvegi á kostnað annars. (TrÞ: En Spánarsamningurinn?)

Það er alt öðru máli að gegna með hann, því að hann gekk ekki út yfir neinn sjerstakan atvinnuveg. Sjávarútveginum var fórnað að nokkru leyti, til þess að hægt væri að bæta kjötmarkaðinn. Þá má minna á það, að í fyrra var hjer á þinginu veitt stórfje eftir okkar mælikvarða til tilrauna með útflutning á kældu kjöti. Þá var og heimilað að lána fje með góðum kjörum til byggingar íshúsa. Alt var þetta í þarfir landbúnaðarins, til þess að reyna að bæta markaðinn fyrir afurðir hans. Ef bera á saman það, sem gert hefir verið fyrir sjávarútveg og landbúnað síðustu árin, með beinum styrkjum eða með útvegun á ódýrum lánum, þá er, eins og áður, fljótlegt að telja upp það, sem viðkemur sjávarútveginum, því að það er ekkert. En ef við snúum okkur að landbúnaðinum, má fyrst nefna jarðræktarlögin, þar sem heimilað er að borga bændum peninga af almannafje fyrir að rækta sínar eigin jarðir. Ætti jeg síst að vera óþakklátur fyrir þetta, þar sem jeg er einn af þeim lukkulegu, sem búist get við því, að eitthvað af þessu fje renni í minn vasa. En mest og best ætti jeg þó að þakka sjávarútveginum, sem leggur fram þetta fje. Þá get jeg einnig nefnt ræktunarsjóðinn, sem að sumu leyti byggist á nýjum álögum á sjávarútveginn. Á nú ekki að endurgjalda þessum öðrum aðalatvinnuvegi landsins neitt fyrir alt þetta, sem var samþykt jafnt af fulltrúum sjávarkjördæma og sveita? Mjer finst það vera skylda háttv. þm. að líta sanngjörnum augum á þarfir sjávarútvegsins. Jeg verð líka að segja það, að enda þótt frv. þetta hlynni nokkuð einhliða að þessum atvinnuvegi, er það lítið á móts við það misrjetti, sem hann hefir orðið að þola, landbúnaðinum til gagns.

Jeg vil gera háttv. þm. Str. (TrÞ) tilboð. Mun óhætt að gera það hjer í heyranda hljóði. Jeg þori fyrir hönd allra þeirra, er fást við síldveiðar, að lofa því að fara ekki fram á lækkun á tunnutolli eða síldartolli, ef hv. þm. Str. vill stuðla að því, að norsku samningunum verði sagt upp. Jeg býst við, að hver einasti síldarútvegsmaður muni ganga að þessu með glöðu geði.

Þá hjelt hv. 2. þm. Árn. (JörB) langa ræðu, sem engin ástæða er til að svara því að hún var mest almenns efnis, enda heyrði jeg hana ekki alla. En eitt er víst, að jeg bjóst við meiri sanngirni af hans hálfu í garð sjávarútvegsins en raun hefir á orðið.