28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

99. mál, vörutollur

Frsm. (Björn Líndal):

Hv. 1. þm. N.M. (HStef) sagði skýrt og skorinort, að hann gæti ekki verið með þessari tillögu og ber því við sem jeg vissi áður, að þessi atvinnugrein væri ekki landinu til þrifa. Mjer er kunnugt um, að hann lítur ekki síldarútveginn hýru auga, og jeg veit, að það er sakir þess, að hann er skæður keppinautur landbúnaðarins um verkafólk um heyskapartímann. En jeg þori að fullyrða, að landbúnaðurinn getur ekki veitt atvinnu helmingi þess fólks, er síldarútveginn stundar. Jeg hygg, að honum sje ekki ljóst, að á þetta mál verður að líta frá alþjóðarsjónarmiði. Það er alveg áreiðanlegt, að þrengja mundi að þjóðarbúskapnum, ef engin væri síldin, og þarf ekki annað en að benda á það, að árlega eru borgaðar hjer um bil 4 miljónir króna í verklaun við síldveiðar og síldarvinnu. Jeg fæ ekki skilið, hvernig þjóð, sem telur tæplega 100 þús. manna. getur verið án slíks atvinnuvegar. Það er vitanlegt, að á þeim tíma, sem síld veiðist, er erfitt að stunda annan veiðiskap. Árið 1924 var hrein undantekning frá þessu, þegar ný fiskimið fundust á „Halanum“ svokallaða, sem því miður reyndust nokkuð endaslepp. Hv. þm. (HStef) gat þess, að betra skipulag á sölu mundi bæta meira úr en linun á sköttum. Jeg vil benda honum á, að hvað gott skipulag, sem er á sölunni, bætir það ekki úr nema varan sje samkepnisfær. Það er eitt höfuðmein síldarútvegsins, að hann er eltur svo með gjöldum, að síldin verður ekki samkepnisfær á hinum erlenda markaði hvað verðið snertir. Á þessu verður engin bót ráðin, nema gætt sje hófs í álögum og kaupkröfum.

Þá ætla jeg að svara hv. þm. Str. (TrÞ) örfáum orðum. Hann þóttist undrast það mjög, að jeg teldi, að fórnað hefði verið miklu af hálfu sjávarútvegsins vegna norska samningsins. Jeg skal játa, að þegar jeg átti minn litla þátt í þessum samningi, bjóst jeg ekki við, að að því yrðu jafnmikil brögð og reynslan hefir sýnt. Því hefir verið haldið fram af Íhaldsflokksins hálfu, að Framsóknarflokkurinn vildi fórna meiru en fórnað var, og það er líka óhrekjanlegur sannleikur. En það hefir orðið meira en gert var ráð fyrir af hálfu okkar íhaldsmanna, því að þetta mál var þannig í pottinn búið, að erfitt er að komast undan því að láta Norðmenn hafa meiri hagnað af þessum samningi en til var ætlast í fyrstu, íslenskum síldarútveg til stórtjóns.

Hv. þm. (TrÞ) mintist á ½% aukagjaldið, sem lagt var á í fyrra. Jeg gerði ekki mikið úr þeirri fórn, en það var þó fyrst og fremst ætlað landbúnaðinum til hjálpar. En hv. þm. gleymdi að geta framlagsins til kæliskips. Þeim 350 þúsundum er fórnað í þágu landbúnaðarins. En það er fórnað meiru en þessu og það vitum við, sem eigum eitthvað í Eimskipafjelagi Íslands. Þetta er mjög þýðingarmikið spor fyrir framtíðarrekstur Eimskipafjelagsins. Tel jeg nú alla von líti um það, að hlutabrjef fjelagsins gefi nokkurn arð fyrst um sinn, því að jeg geri ráð fyrir stórtapi árlega á rekstri kæliskipsins. Þó mundi jeg ekki fárast út af því, ef það gæti komið landbúnaðinum að nokkru gagni. Hv. þm Str. vill svo ofan á alt annað, láta skip ríkisins flytja inn áburð fyrir ekkert. hver á svo að borga það? Hafi jeg verið einhliða í þarfir sjávarútvegsins, þá er hv. þm. Str. einhliða í þarfir landbúnaðarins.

Að lokum vil jeg þakka hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir undirtektir hans við frv.