30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á hjer 3 brtt. á þskj. 455, sem engin er efnisbreyting á frv., en allar saman einungis til lagfæringar. Fyrsta till. er að setja sóda í 1. flokk. Aðeins leiðrjetting á prentvillu, sem því miður komst inn í lögin fyrst þegar þau voru prentuð. Þá fjell sódi út úr 1. flokki. Þetta hefir verið skoðað sem villa í lögunum, inn komin af vangá, og hefir verið fyrirskipað af fjármálaráðuneytinu að innheimta vörutoll af sóda eftir 1. flokki. Svo að þetta er engin breyting frá því, sem nú er.

Rafmagnsvjelar er óákveðið hugtak. Ýmsir kalla rafmagnsvjelar þær vinnuvjelar, sem hafa rafmagnsmótor. En það er meining hv. þm., sem flytur till. um að setja rafmagnsvjelar í 2. flokk, að það sjeu þær vjelar, sem framleiða rafmagn, vatnshreyfivjelar (vatnstúrbínur) og aðrar tilheyrandi vjelar. Önnur vatnsvirkjunartæki þarf ekki að telja, því að þau eru þegar í 2. flokki.

3. brtt. fer fram á að heimila, að um leið og lögin verða prentuð og gefin út í heild, verði raðað eftir stafrófsröð þessum upptalningum í 1. og 2. lið. Það er dálítið óþægilegt að nota þau eins og þetta er nú, þar sem orðaröðin er öll komin á tvístring. Því að þessir liðir hafa í raun og eru orðið fyrir mörgum breytingum frá því, sem þeir fyrst voru. Og þess var ekki gætt að setja breytingarnar inn í rjettri stafrófsröð.