30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

99. mál, vörutollur

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi greitt atkv. móti þessu frv. bæði við 1. og 2. umr. En jeg hefi ekki enn þá getið þess, hvers vegna jeg hefi gert það. Það mun þó rjett að gera áður en kemur að síðustu atkvgr. Jeg álít í raun og veru ekki þessa ívilnun skatta svo mikilvæga, að það beri að leggja sjerstakt kapp á að koma henni fram, og það því síður, sem líkur eru til, að fjárlögin verði aldrei afgreidd frá þessu þingi tekjuhallalaus. Jeg tel sem sje ekki endilega nauðsynlegt að láta báðar vogaskálarnar vera hnífjafnar, og skaðlaust, þótt svo færi, að einhver tekjuafgangur yrði. Það er þó ekki svo mjög fyrir þessa skuld, að jeg legg á móti frv., heldur einnig af því, að mjer finst þessi ívilnun koma mjög misjafnlega niður. Hún er nærri einungis ívilnun fyrir sjávarútveginn, eða sjerstaka grein hans. Þó að feldur verði niður vörutollur af korni, sem vitanlega snertir alla landsmenn, þá er það svo örlítill hluti af neyslukostnaðinum, að það skiftir hreint engu máli. 45–50 þús. kr., skift niður á alla landsmenn, er ekki það, sem neinu munar einstaklinginn. En það er ekki nóg með það, að þessi skattaívilnun komi sjerstaklega niður á ákveðnum stjettum þjóðfjelagsins. Hún kemur líka mjög misjafnlega niður á þeim vörutegundum, sem á að færa niður vörutoll á. Jeg verð að segja, að mjer finst ekki tilhlýðilegt að færa niður kolatollinn um 2/3, þegar salttollurinn er ekki færður niðum nema um 1/3. Jeg held líka, að þegar borið er saman verð þessara vörutegunda eins og það hefir verið síðustu mánuðina, að þá hljóti að vera nokkuð nærri rjettu að færa vörutollinn á kolum og salti niður að sömu hlutföllum, eða hvorn fyrir sig um 1/3

Jeg skal láta þess getið, að jeg myndi miklu fremur geta sætt mig við frv., ef samþ. yrði brtt. á þskj. 456 um hærri kolatoll. Með því móti þokast hlutföllin meira að því, sem mjer finst sanngjarnlegt vera. Yfirleitt lít jeg ekki á þessa tollívilnun sem neina rjettarbót eða verulega linun um skattgreiðslu; því að meðan skattar ríkissjóðs nema um 100 kr. á hvert mannsbarn þjóðarinnar að meðaltali, — þegar miðað er við 10 milj. ríkissjóðstekjur, — þá munar ekki geysimikið um niðurfærslu á þessum vörutegundum, sem hjer er um að ræða, eða 400–500 þús. kr. Það má segja, að þessar 4–5 kr., sem ljett er af fyrir mann hvern, eða 4–5% af öllu gjaldinu, sje ekki það, sem afkoman veltur á, þegar ekki er þá meiri jöfnuður á þessu en í frv. og ekki hægt að færa gjöldin að meiri mun niður.

Jeg verð að segja það, að jeg sem skattgjaldandi. — og jeg hefi lengi verið það — óska ekki eftir þessari ívilnun og kysi fremur, að gjaldið stæði óbreytt enn um sinn.

Þessi orð vildi jeg láta fylgja frv.; því að líklega get jeg ekki greitt því atkv. fremur en áður.