30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

99. mál, vörutollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. frsm. (BL) varð ekki hissa á tillögu okkar hv. l. þm. NM. (HStef), enda var ekki við því að búast, þar sem við höfðum talað skýrt um þetta í nefndinni. Hinsvegar skildist mjer á hv. frsm., að afkoma síldarútvegsins væri undir þessari ívilnun komin, en það fær hv. þm. ekki talið mjer trú um. Þegar ekki er meira en 32 aurar tollurinn á hverri tunnu, getur þetta ekki verið rjett. Það er satt, að það getur ekkert skipulag bjargað, ef varan er ekki samkepnisfær, en nú er það svo, að við höfum ýms góð skilyrði fram yfir aðrar þjóðir. Við höfum fullkomin afnot af landinu sjálfu, og nú er einmitt verið að gera ráðstafanir til að draga úr þeirri leppmensku, sem átt hefir sjer stað undanfarin ár, og auka landhelgisgæsluna. Jeg hygg, að sú sjerstaða sje mun meira virði en að sleppa við að borga þessa 32 aura á tunnu. Jeg þarf vart að endurtaka það, enda mótmælti hv. frsm. því ekki, að áhættusömu atvinnuvegirnir verða að bera þyngri skatt en hinir. Að taka hundraðstölu af verði síldarinnar er ónákvæmt, af því að verðið er svo stopult. Tollurinn er ekki tilfinnanlegur, þegar verðið er gott. Þá talaði hv. frsm. um, að við hefðum sært sig, og finst mjer það leitt, en þá er okkur skylt að reyna að hugga hann, og vona jeg, að það hafi tekist með þessum fáu huggunarorðum.