30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

99. mál, vörutollur

Jörundur Brynjólfsson:

„Jeg er nú svo gamall, sem á grönum má sjá, átján barna faðir í álfheimum, og hefi jeg aldrei sjeð svo langan gaur í svo lítilli grýtu.“ Þessi hv. þm. (ÓTh), sem síðast talaði, þóttist hafa margt og mikið að athuga við orð mín við 1. umr. Nú þykist hann hafa lokið skylduverki sínu, og skal jeg ekki lasta hann fyrir það, en satt að segja bjóst jeg við því af þessum hv. þm., þótt ungur sje og sennilega ekki svo ákaflega kunnugur þingtíðindunum, að hann talaði af meiri varúð um þau atriði, sem hjer hafa borið á góma, en raun er á orðin. Jeg bjóst við, að hv. þm. hefði grundað þetta málefni vel og vandlega, því að af þeim kynnum, sem jeg hafði af hv. þm. á fyrri árum, hjelt jeg, að hann mundi verða fyrst og fremst gætinn maður. Jeg hjelt því, að hann hefði melt betur það, sem jeg bar á borð fyrir hann. Það er ekki til neins fyrir háttv. þm. að ætla sjer að standa upp og staðhæfa, að allir útgerðarmenn hafi farið að með forsjá. Jeg get viðurkent, að hjer er lægra um að tala en í að komast, og skilið þann framfarahug manna að vilja láta eitthvað eftir sig liggja. Svo er fyrir að þakka, að þeir, sem eru atorkusamastir, hugsa meira um framkvæmdarsemina og framfarirnar en arðinn, sem þeir kunnu að fá í aðra hönd. Jeg get því skilið þá útgerðarmenn, sem er það tamara að leggja út í aukningu útgerðarinnar en að láta peningana í kassann. Það er erfitt að koma tryggingarráðstöfunum við, þar sem þeir hugsa meira um framkvæmdir en það, að tryggja sig fjárhagslega. Þegar jeg talaði síðast, hefir hv. þm. líklega misskilið mig og þá skoðun, sem hann hefir nú álasað svo mjög. Jeg þarf ekki annað en að skírskota til orða minna nú við 1. umr. þessa máls og á síðasta þingi um þessi mál. Hv. þm. hefði ekki þurft annað en lesa þau, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, því að þar er ekki sagt eitt einasta hnjóðsyrði í garð útgerðarmanna. Jeg drap á afleiðingar undanfarinna ára og ástandið eins og það er nú máli mínu til stuðnings, og fullyrði jeg, að þar var rjett með farið.

Þegar kappið var sem mest og arðsvonin, var fólki boðið við síldarvinnu 10–12 kr. um klst. hverja. Þetta varð til þess að koma hinn mesta róti á alt atvinnulíf landsins. Og ef hv. þm. (ÓTh) vill athuga afleiðingarnar af þessu, býst jeg við, að hann verði mjer sammála um, að þetta hefir orðið til stórhnekkis öðrum aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Þessi atvinnugrein er ekki þannig löguð, að ugglaust sje, að hún geti borið sig, og óhjákvæmilegt er, að aðrar atvinnugreinir, sem þjóðinni eru nauðsynlegar, bíði tjón við slíkt. Eins og jeg sagði áðan, álít jeg, að útgerðarmenn sjeu meira haldnir af stórræðaþrá en því að safna sjer auði. Þetta er auðvitað gott og blessað meðan vel gengur, en það á sjer líka takmörk.

Jeg býst við, að þessi áhugi þeirra til að starfa sem mest hafi verið þess valdandi, að þeir keyptu mörg botnvörpuskip til landsins, þrátt fyrir það, þó verð þeirra væri afarhátt. Og jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að það hefir orðið að sumu leyti til tjóns, og það mikils tjóns. Hinsvegar datt mjer ekki í hug að staðhæfa það, að þessir menn hefðu ekki ráðist í framkvæmdirnar og skipakaupin í góðri trú. Þeir eru þannig gerðir, að þeir kæra sig ekki um að leggja peninga sína í kistuhandraðann. Og það má segja útgerðarmönnunum til hróss, að þeir eru miklu gefnari fyrir stórræðin heldur en að safna auði. Þetta getur þó haft sín takmörk, þegar um varasamar atvinnugreinir er að ræða, hve gott eða affarasælt það er fyrir þjóðina sem heild.

Jeg bjóst síst við því, að hv. 2. þm. G.K. mundi misskilja ummæli mín svo hraparlega sem hann hefir gert, eða mjer virðist hann hafa gert. Nú hefir hv. þm. óskað þess, að jeg nefndi dæmi um það, að hverju leyti útgerðarmenn hafi sýnt að atvinnurekstur þeirra er ekki á traustum grundvelli. (ÓTh: Jeg veit að hann er ekki á traustum grundvelli). Nú, hvers vegna vill hv. þm. þá vera að fetta fingur út í það, sem jeg hefi sagt? Og það eru vissulega takmörk fyrir því, hve mörg % af þjóðinni mega stunda stopul og áhættusöm fyrirtæki. En hafi ummæli mín í færri ræðu minni verið loðin, þá bið jeg afsökunar á því, en þetta, sem jeg nú hefi sagt, meinti jeg.

Þá mintist hv. þm. á aukingu skipastóla útgerðarmanna og sagði, að 9 skip hefðu bæst við á árunum 1922–1925. Nú ber þess að gæta, að allir Íslendingar eru ekki nema rúmlega 90 þús. (Margir þdm.: 100 þúsundir). Nei, fólksfjöldinn nær ekki 100 þúsundum. Þess vegna er þessi aukning skipastólsins allmikil hjá þjóð, sem ekki er mannfleiri og þegar þess er gætt, hvernig þessari atvinnugrein er háttað. Jeg vil minna hv. þm. á það, að geta okkar fjárhagslega er mjög takmörkuð og að það er ekki lítið fje, sem liggur í þessum nýju skipum, jafnvel margar miljónir króna, þegar alt kemur til alls, þegar rekstrarfje er tekið með. En hvernig fer svo, ef illa veiðist eða framleiðslan selst ekki, eða selst illa. Þeirri spurningu ætti að vera auðvelt að svara, og jeg bjóst við, að hv. þm. mundi geta svarað henni fyrir sjálfan sig, því að jeg hefi talið hann mjer kunnugri á þessu sviði. (ÓTh: Jeg er það). Já, það er gott að hafa háar hugmyndir um sjálfan sig, en það er holt, að þær sjeu ekki meiri en maðurinn er til.

Hv. þm. mintist á bústofn minn og spurði, hvað hann hefði aukist á síðari árum. Því væri nú betur, að bústofn bænda hefði aukist meira en útvegurinn þessi árin. En því er nú miður, að bústofninn hefir staðið í stað. Jeg hefi ekki búið lengi, reisti bú árið 1919, og mjer hefir skilist á þeim, er stundað hafa búskap lengi og glegst skil vita á honum, að árferði hafi ekki verið svo síðustu árin, að þeir hafi getað safnað auði eða stækkað bú sín. En það hefir verið og verður lífsskilyrði fyrir þjóðina að viðhalda landbúnaðinum. Það er og hann, sem hefir mesta þýðingu fyrir viðhald tungu og þjóðernis. Og ef hann hefði verið stundaður með meiri forsjá en verið hefir, og hefði þar af leiðandi mátt sín meira en nú, þá hefði þjóðin verið styrkari en hún er nú og hagur hennar betri að öllu leyti. Og það er ekki vert fyrir útgerðarmenn, þótt þeim finnist, að þeir hafi gert afskaplega mikið, að kasta steini að bændum fyrir starfsemi þeirra. jeg get frætt hv. 2. þm. G.-K. um það, að það eru einmitt bændasynirnir, sem mest og best hafa stutt hann í starfsemi sinni. Þeir menn, sem vinna hjá honum og afla honum auðs, eru alt bændasynir ofan úr sveit.

Hv. þm. tók dæmi um áveitur, og verð jeg að segja, að mjer fanst geiga eigi alllítið það skeyti hans, því að hvorugum okkar hefir að sjálfsögðu komið til hugar að halda því fram, að þær framkvæmdir, er telja má öruggar, eigi að sitja á hakanum, hvorki á sjó nje landi. En hitt ætti hv. þm. að vita og þekkja, hvaða afleiðingar hafa orðið af slíkum framkvæmdum erlendis. Jeg skal t. d. nefna samgöngubæturnar, sem hafa orðið þess valdandi, að útkjálkahjeruð hafa lagst í eyði, en fólkið þyrpst saman þar, sem lífsskilyrði voru betri. Engum hefir þó dottið í hug að hætta slíkum framkvæmdum fyrir þær, sakir, því að þegar á heildina er litið, er þjóðin miklu öruggari í lífsbaráttu sinni og afkoma hennar betur trygð en áður fyrir slíkar framkvæmdir. Og hefði jeg nú gert þessa áveittt, sem hv. þm. var að tala um, þá átti hún fyllsta rjett á sjer, ef hún gerði meira gagn en nokkur hætta var á, að skemdir af henni munu nema.

Jeg ætla þá ekki að eyða fleiri orðum að hv. þm. Mjer þykir fyrir, að hann misskildi mig og tók orð mín svo, að jeg vildi útvegsmönnum ilt. Og vilji hann ekki trúa þessu, þá vísa jeg honum til þingsögu minnar og hvernig mjer hafa fallið orð í garð útgerðarmanna á undanförnum þingum.