11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

99. mál, vörutollur

Frsm meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg held, að hv. 3. landsk. eigi örðugt með að sannfæra aðra en sjálfan sig og hv. 2. þm. S.-M. (IP) um, að verið sje að berjast fyrir hagsmunum einhverrar vissrar stjettar með þessu frv. Það getur verið, að það skifti litlu máli fyrir margar sveitir landsins, hvort kolatollurinn er kr. 3,75 eða kr. 1,00 á hverju tonni. En það skiftir ekki svo litlu máli fyrir sumar sveitirnar og einkum þó kauptúnin og sjávarþorpin, svo að það er ekki rjett að segja, að þetta sje gert eingöngu fyrir stórútgerðina. Hitt er vitanlegt, að því meira sem kolin eru notuð, því meiri upphæð sparast við tollbreytinguna, en það kemur þó óbeinlínis þeim til góðs, sem hafa atvinnu af þeim fyrirtækjum, sem vöruna nota mest.

Jeg get ekki sjeð, að það sje hægt með nokkrum rökum að setja þetta frv. í samband við frv. um tekjuskatt í fyrra. Þar var talað um hlutafjelög, sem breytingin átti að ná til, en hjer er ekki um neitt slíkt að ræða. Breytingin nær til allra landsmanna hlutfallslega jafnt, eftir því hversu mikið þeir nota af þessum vörutegundum, og að nokkrum sveitum undanskildum eru þau afnot almenn.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að gera að eltast við útúrsnúning hv. þm. (JJ). Hann leyfir sjer svo oft að rangfæra orð andstæðinga sinna og reyna að leggja í þau aðra meiningu en í þeim átti að felast. Hann sagði, að það hefði verið auðheyrt á mjer, að jeg væri á móti því, að korntollurinn væri feldur burtu. Jeg býst við, að ræða mín hafi verið skrifuð eins og jeg talaði hana. Jeg sagði, að sumir nefndarmanna hefðu álitið fulllangt gengið með því að fella niður þennan toll, en mitt álit væri það, að ekki væri heppilegt að gera aðra breytingu á honum en að fella hann alveg niður. Hvernig hægt er úr þessum orðum að draga þá ályktun, að jeg sje að telja lækkunina á korntollinum eftir, er mjer óskiljanlegt. Til þess þarf hugsanagang og röksemdafærslu hv. 3. landsk., en einskis annars. Hv. 3. landsk. var að gera lúalega tilraun til þess að gera mjer upp það, sem jeg hefi aldrei sagt. Mjer hefir aldrei dottið í hug að telja eftir lækkun korntollsins, og það veit hv. þm. Þess vegna eru þessi orð hv. þm. búin til í stóriðjuverksmiðjunni frægu, án þess að þau eigi sjer nokkurn raunverulegan stað. Þetta frv. er ekki borið fram til þess að vernda hagsmuni einnar sjerstakrar stjettar, og allar ásakanir í þá átt lenda líka á flokksmönnum hv. 3. landsk. í fjhn. Nd. og þeim, sem greiddu þessu frv. atkv. út úr Nd.

Jeg held, að það sje óþarfi að teygja lopann um þetta meira en orðið er. Frv. sjálft ber það með sjer, að allar staðhæfingar hv. 3. landsk. falla um sjálfar sig. Hv. 3. landsk. vill altaf reyna að kveikja eld á milli stjetta og vekja óánægju milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Þetta er mjög misráðið af hv. þm., af því að það getur oft orðið til þess að koma í veg fyrir framgang þarfra mála.