11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi enga tilhneigingu til þess að fara út í orðasennu við hv. 3. landsk. Jeg hefi ósköp mikið leitt það hjá mjer á þessu þingi, og er það af því, að það er komið alveg upp úr hjá mönnum, þannig að það er ákaflega mikið hætt að taka tillit til þess, sem þessi hv. þm. segir í þingræðum, og venjulega er óviðkomandi þeim málum, sem þá liggja fyrir til umræðu.

Hv. þm. (JJ) hefir nú talað æðimikið um það, að hjer væri verið að gefa eftir tiltekinni stjett eða tiltekinni atvinnugrein. Jeg lít alls ekki svo á það mál, að þótt linaðir sjeu skattar, sem viðurkent er að hafi verið óvanalega háir, sje þar með verið að gefa neinum neitt. Það er ekki annað en það, sem sjálfsagt er, að það opinbera taki ekki meiri skatta af landsmönnum en það, sem nauðsynlega þarf, því að ef tekið er meira, má ganga að því vísu, að af því leiðir ekki nema eitt, og það er eyðslusemi á fje landsmanna til ýmislegs, sem ekki er vert, að sitji í fyrirrúmi fyrir því, að landsmenn geti notað fjeð til sinna eigin þarfa og eflt sína atvinnuvegi. En það er undirstaða allrar almennrar velmegunar í landinu; það er undirstaðan undir hag ríkissjóðs og getu hans til að inna af hendi nauðsynlegar framkvæmdir. Nú hefir hv. þm. (JJ) í þessum tveim ræðum sínum ekki með einu orði reynt að færa sönnur á, að þessi skattalinun væri óeðlileg eða ósanngjörn. Hv. þm. hefir bara slegið því fram, hvort ekki væri rjettara að lækka sykurtollinn eða verðtollinn, án þess að færa nokkra sönnun fyrir því, að það væri rjettara eins og á stendur, en jeg skal segja hv. þm. það, að það má ekki líta alveg framhjá því, að það stendur yfir hækkun á okkar gjaldeyri, og sú hækkun kemur sjerstaklega niður á þeim mönnum, sem hafa á herðum sjer rekstur þessa atvinnuvegar, sem framleiðir okkar helstu útflutningsvörur. Aftur á móti kemur sú hækkun þeim mönnum til góða, sem vinna að ýmsum verkum við þá atvinnugrein og aðrar, án þess að þeir sjálfir gerist framleiðendur eða eigendur að útflutningsvörum. Af þessu sýnist mjer það einmitt vera rjettlátara að lina skattana á þessum framleiðendnm útflutningsvörunnar, sem verða að skaðast á gengishækkuninni, heldur en að lina skattana á öllum almenningi, sem hefir hagnað af henni. Meira þarf jeg ekki að segja. Jeg þarf ekkert að hrekja, því að hv. þm. reyndi ekki að færa sannanir fyrir því, að nein önnur linun á sköttum værri rjettlátari. En náttúrlega get jeg svo vel skilið þá aðstöðu að vilja yfir höfuð, að ríkissjóður fái sem mestar tekjur; en jeg lít ekki svo á, og jeg get að gefnu tilefni sagt háttv. þingmanni það, að jeg lít heldur ekki svo á, að embættisskylda fjrh. sje það fyrst og fremst að halda í tekjur ríkissjóðs, hvort sem hann álítur það vera öldungis nauðsynlegt eða ekki. Og jeg held, að það megi miklu fremur sjá þess, merki á þessu þingi og á með ferð þessa þings á fjárlögunum, að freistingin til þess að taka upp á ríkissjóð ýms miður nauðsynleg útgjöld verður of sterk, ef tekið er of mikið fje í ríkissjóð með sköttum. Það mætti þá segja sem svo, að það mætti safna því fje í sjóð til lakari áranna, en það verð jeg að segja, að það lítið sem jeg hefi kynt mjer álit fróðra manna um skattamál, en það hefi jeg reynt að gera eftir að jeg tókst þessa stöðu á hendur, þá er það eitt, sem jeg hefi sjeð, að allir hafa verið sammála um, þó að þeir hafi verið ósammála um margt annað, að það væri betra að láta peningana vera kyrra í vösum og vörslum gjaldenda heldur en að láta þá safnast í sjóði í eign ríkisins, af því að þeir beri meiri ávöxt hjá einstaklingunum heldur en ef þeir eru teknir í opinberan sjóð, sem svo aftur er notaður til þess, að lána hann út til gjaldendanna, því að á hann hátt eru vitanlega allir sjóðir ávaxtaðir. En höfuðástæða mín til að styðja þetta frv. er samt sem áður sú, að ef ríkissjóður má ekki missa þessar tekjur, þá álít jeg rjettara að bæta það skarð upp með öðrum álögum en þessum, og það er bæði af því, að þessir skattar eru hærri en annars gerist á nauðsynjavörum, og svo af því, sem jeg sagði um gengisbreytingarnar. Hitt er misskilningur hjá hv. þm., að jeg eða aðrir hafi með afstöðu okkar til þeirra tillagna, sem fram komu í hv. Nd., tekið nokkra afstöðu móti því að láta byggja hjer strandferðaskip. En við höfum ekki getað greitt þeim till. atkv., sem þar komum fram, undirbúningslaust, og hafa borið greinileg merki þess, að það hefir ekki verið rannsakað, hvernig þessu máli yrði best fyrir komið, en þó jafnframt svo einskorðaðar, að ekkert svigrúm er til að rannsaka fyrst, hver tilhögun væri hentugust um að ráða málinu til lykta á þeim grundvelli. Jeg er ekki viss um það, að besta lausnin sje að byggja hjer skip, sem sje svo lítið, að það sje aðeins við hæfi hinna allra lökustu hafna á landinu, sem núverandi strandferðaskipi og milliferðaskip geta ekki komið á, og hafa svo það strandferðaskip fyrir alt landið. Það hafa ekki verið færð nein rök fyrir því, að þetta væri sú eina rjetta úrlausn á því máli, og hefir það mál þó oft legið fyrir til athugunar áður, hvernig best yrði fullnægt rjettmætum kröfum landsmanna um strandferðirnar.