11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

99. mál, vörutollur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er nú ekki ýkjamargt í ræðu háttv. frsm. minni hl., sem jeg þarf að gera athugasemdir við, vegna þess að hann endurtók ekki þann áburð sinn, sem hann kom með í fyrri ræðum sínum. (JJ: Um hvað?). Um það, að við meirihlutamenn hefðum sjeð ofsjónum yfir þeim skattaívilnunum, sem fjellu í hlut bænda. Sennilega hefir hv. þm. (JJ) tekið þeirri leiðrjettingu sem jeg kom með í því máli, eða hv. þm. hefir nú í fundarhljeinu fengið einhverjar þær upplýsingar, sem hafa fært honum heim sanninn um það, að sökin, sem hann hallar, fyrir frv. ekki hvíli meira á íhaldsmönnum heldur en hinum. Jeg skal ekkert um það segja, hve margir af hvorum flokki hafa greitt þessu frv. atkvæði, enda skoða jeg það ekki sök; hitt vissi jeg, að bæði framsóknarmenn og íhaldsmenn studdu þetta mál í hv. Nd., en jeg hefi aldrei komið fram með neinar tölur um það, hve margir það hafi gert af hvorum flokki. Hv. þm. getur eiginlega ekki sakast neitt um það, þótt á það væri bent, að hann vildi gera úr þessu stjettaríg; fyrri ræður háttv. þm. hnigu í þá átt, og þegar gefið er tilefni til eins eða annars, þá er ómögulegt fyrir háttv. þm. að sakast um, að dregnar sjeu ályktanir af því. Hæstv. fjrh. benti greinilega á það, að hjer er ekki á ferðinni frv., sem getur heitið að vera fyrir neina eina stjett í landinu, t. d. hvað kolin snertir. Það er svo almenn notkunarvara, og þó að lítið sje notað af þeim í sumum sveitum, þá mun það aftur vera talsvert í öðrum, svo að ekki er hægt að segja, að það sje eingöngu gert fyrir eina stjett manna. Hv. þm. sagði, að jeg hefði verið að skjóta húskolunum þar inn undir; en jeg var alls ekki að skjóta þeim þar inn undir, þau koma þar auðvitað af sjálfu sjer; kol eru vitanlega meira notuð í skipum en húsum, en jeg hefi ekki gert neina tilraun til að sýna fram á að það væri ósanngjarnt að ljetta af þessum kolatolli. Það er hv. þm. sjálfur, sem hefir sýnt sterka andúð á móti afnámi hans af því að það væru útvegsmenn, sem nytu þess, án þess þó að leiða nein rök að því, að kolatollurinn væri vel bærilegur og þyrfti ekki að breytast.

Hv. frsm. minni hl. var, eins og honum hættir oft við, að leggja spurningar fyrir, því að það er oft kennarinn í honum, sem talar, og þá er hann altaf að spyrja. Hv. þm. spyr mig að því á einum stað í sinni ræðu, hvort mjer sýnist ekki ef ein stjett þykist hafa rjett til að losa sig undan sköttum, að hún geti ekki haft neitt verulega á móti því, þó að henni sje bent á það í allri vinsemd, hvað hún sje að gera. Nei, nei, jeg hefi ekkert á móti slíku, en það liggur alls ekki fyrir, að hjer sje nein ein stjett að losa sitt bak undan gjöldum, þó að vörutollurinn sje færður í svolítið skaplegra horf en verið hefir. En jeg vil þá benda hv. þm. á eitthvert hið stórfenglegasta dæmi í þingsögunni, þar sem ein stjett eða fjelagsskaparheild notaði bolmagn sitt til þess að losa sig undan gjöldum, og efast jeg ekki um, að háttv. frsm. minni hl. hafi stutt að því eftir megni; það eru samvinnufjelögin, sem með lögunum frá l921 eru þannig sett. (JJ: Eru samvinnufjelögin stjett?). Jæja, hvort þessi fjelög eru stjett eða ekki, má heita, að þau haldi sig þannig sett í þjóðfjelaginu, að þau þurfi enga skatta að greiða, því að þau borga sama sem enga skatta, nær alveg laus við eignarskatt og líka við tekjuskatt, og um útgjöldin er það svo, að í einn merku blaði var það fullyrt í vetur, og ekki mótmælt, að í sumum sveitarfjelögum væru yfirvöldin í stökustu vandræðum, þar sem áður höfðu verið kaupmenn, sem borið hefðu mikið af sköttunum, en nú væru í staðinn fyrir þá komin kaupfjelög, sem störfuðu undir samvinnulögunum, og ekkert væri hægt að leggja á þau. Í þessari háttv. deild var fyrir skömmu sagt frá mjög átakanlegu dæmi, sem sýnir, hvernig útkoman getur orðið, þegar notaðir eru allir krókar og brögð til þess að losa sig undan útsvörunum í skjóli samvinnulaganna. Mjer dettur ekki í hug að hafa á móti því, þó að í allri vinsemd, eins og hv. þm. komst að orði, sje vakið máls á slíku, en þegar einhver stjett beitir öllum áhrifum sínum á þingi þjóðarinnar til þess að losa sig og sín fjelög við almenn lögboðin gjöld, til þess að þau lendi á öðrum, og það eru þessi svör, sem hv. þm. knýr fram með sínum stöðugu ásökunum í þessu máli, sem er fullkomið sanngirnismál; það er þetta, sem hv. þm. knýr fram með sínum stöðugu spurningum. Þessi lög frá 192l, sem jeg hefi minst á, munu vera eins dæmi í sögu þingsins, eins dæmi um það, að fleiri menn hafi getað náð svo miklum tökum á löggjöfinni, að þeir hafi getað losað sig og sinn fjelagsskap um óákveðinn tíma við svona gjöld. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að taka hjer upp eitt dæmi, til þess að nota orð hv. frsm. minni hl., svo að það standi í þingtíðindunum, sem er tilfært í riti, sem hjer er gefið út. Verslunartíðindunum, og er nýlega komið út. Höfundurinn segir:

„Í kauptúni einu hjer á landi er kaupfjelag og 3 kaupmenn. Kaupfjelagið hefir langsamlega mesta verslun. Árið l924 námu útfluttar vörur þess kr. 600000,00 en útfluttar vörur kaupmanna til samans kr. 540000,00. Jafnað var niður kr. 25000, 00. Af þeirri upphæð greiddu íbúar hreppsins aðrir en kaupmenn (og kaupfjelagið) kr. 12500,00. Afgangurinn. kr. 12500.00. skiftist þannig, að á kaupmennina var jafnað kr. 11400,00, en kaupfjelagið greiddi kr. 1100.00 í útsvar.

Getur hver maður með óbrjálaðri skynsemi sjeð, hvílíkt misrjetti hjer á sjer stað, og er hjer aðeins tekið þetta eina dæmi, en fleiri lík munu finnast.“

Höfundurinn er hjer að tala um samvinnulögin frá 1921 og afstöðu þeirra í kauptúni einu. Þetta getur maður sagt að sje karlmannlega að verki verið til þess að losa einstakan fjelagsskap, sem eins vel mætti kalla stjett manna, undan opinberum gjöldum.