10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1927

Árni Jónsson:

Jeg vil ekki láta það viðgangast fyrir mitt leyti, að þau ummæli, er hv. frsm. (ÞórJ) vjek áðan til okkar þm. K.-M., standi ómótmælt í Alþingistíðindunum. Eina úrræðið fyrir hv. frsm. virðist vera það, að honum verði virt til vorkunnar, að hann var orðinn æðiheitur af því að fást við erfðaóvin fjvn., sem sje samgmn., sem fjvn. á altaf í illdeilum við á hverju þingi. Hann var að bera það á hv. frsm. samgmn. (JAJ), að hann hefði verið fljótfær í ræðu sinni.

Hv. frsm. (ÞórJ) hefir enga aðra afsökun fyrir orðum þeim, sem hann ljet falla í garð okkar, en þá, að þau voru í fljótfærni töluð.

Þær fjárveitingar, sem samþyktar voru við 2. umr. til kjördæmis okkar, Norður-Múlasýslu, voru alveg sjálfsagðar, og jeg man ekki betur en frsm. greiddi sumum þeirra atkvæði sitt. A. m. k. greiddi hann atkvæði með einni fjárveitingu, sem þó var hærri en fjvn. sjálf hafði lagt til, og jeg geri ekki ráð fyrir, að það hafi verið af kaupmensku frá hans hálfu. Brú á Selá er í brúalögunum. Loðmundarfjarðarsíminn í símalögunum, Hróarstunguvegurinn hefir verið í lagningu árum saman. Þetta eru því ekki neitt háskasamlegar fjárveitingar, og jeg hygg, að sanngirni hv. þdm. sje svo mikil, að ekki sje ástæða til að ætla, að bjóða hafi þurft þeim sjerstök fríðindi fyrir samþykt svo sjálfsagðra fjárveitinga. Það er auðvitað ástæðulaust vegna þeirra manna, sem hjer eru staddir, að mótmæla dylgjum hv. frsm. En þær koma á prent í þingtíðindunum. Og mönnum á ekki að haldast það uppi að halda slíku á lofti. Þó það sje sagt sem einskonar fyndni í gáska í kunningjahóp, þá fara slík orð illa í munni framsögumanns fjvn. — Jeg geri fastlega ráð fyrir því, að hv. frsm. muni ekki dreyma vel eftirleiðis, ef hann gerir ekki einhverja yfirbót. Komi hann og biðji fyrirgefningar á þessu, þá er jeg svo sáttfús, að jeg býst við því að jeg fyrirgæfi honum. Kysi jeg, að hann gerði það helst strax, og mundi jeg þá láta sakir niður falla.