11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

99. mál, vörutollur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Ef hv. frsm. minni hl. hefði ekki varið svo sem 20 orðum af ræðu sinni til að minna á frv., þá hefði verið ástæða til að taka það fram við hv. deildarmenn, hvaða mál er hjer til umræðu. — svo langan tíma óð hann elginn um algerlega óskyld efni. En það er farið að verða einskonar bragð hjá þessum hv. þm., þegar hann er rökþrota, að spranga svona út um heima og geima og grípa bara eitthvað og eitthvað. Þetta getur nú verið stríðslist dálitla stund, en það líður aldrei á löngu, að hún verði uppgötvuð af andstæðingunum.

Hv. þm. hefir alveg láðst að sýna nokkur rök fyrir, að þetta frv. sje aðeins fyrir fámenna stjett í landinu. Enda þyrfti öllu snjallari ræðumann en hann til að sanna fyrir háttv. deild, að vara eins og kol væru aðeins handa fámennri stjett og verð á henni kæmi eiginlega ekki almenningi við.

Út af því, sem jeg sagði um samvinnufjelögin og var bein afleiðing af áskorun hv. þm., þá flýtti hann sjer að vitna til margra landa, þar sem hann sagði, að samskonar lög væru til. Hann gerði auðvitað ráð fyrir, að enginn annar myndi vita um þetta en hann. En þó að slík löggjöf væri til eða hefði verið til í þeim löndum, sem hann nefndi, þá er það í raun og veru engin fullgild sönnun fyrir því, að sú stefna í skattamálum hjá samvinnufjelögunum, er þar kemur fram, sje rjettlát eftir staðháttum hjer á landi. Reynslan hefir sýnt það með hverju ári, sem líður, síðan þessi stefna hefir komið upp í skattamálum hjer, að hún er mjög varhugaverð og verður ranglát í mörgum tilfellum. Á þessu er að smábóla úti um landið, sem er eðlilegt. Hreppar, sem mikil útgjöld hafa, finna mjög til þess, að þeim er ómögulegt að ná til þessara stóru fjelaga, vegna laga, sem sett eru til að vernda hagsmuni þeirra.

Jeg skal taka það fram, að jeg átti áðan aðeins við, að hv. þm. hefði ekki rjett til að gera ráð fyrir því fyrirfram, að meiri hl. fjhn. notaði vísvitandi rangar forsendur. Þá var hann að nefna með nöfnum og lýsa ástandi þriggja manna í fjhn. Þetta er bardagaaðferð þessa háttv. þm. Hann getur aldrei haldið sig við málefnið án þess að draga inn í umr. persónur andstæðinga sinna; því nær sem hann kemst þeirra einkalífi og lögum, því áhrifameiri finst honum sín aðferð. En yfir höfuð er þetta ekki viðurkent heppilegt í stjórnmálabaráttu, að geta aldrei talað um málefnin sjálf, heldur blanda inn í umr. því, sem ekkert skiftir máli, svo sem einkahag einstakra manna.