11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er ekki gustuk að hella úr fleiri skálum yfir hv. 3. landsk. en þegar er gert. Jeg ætla þess vegna aðeins að taka það fram, að strandferðaskip eins og t. d. „Esja“ þarf helst að geta flutt fleira en vörur frá kaupmönnum í Reykjavík út um landið. Það væri ekki óviðeigandi til dæmis, að bændur gætu sent með þessu skipi eitthvað af lifandi peningi, svo sem stórgripum, ef þeir vildu nota sjer þann góða sumarmarkað í Reykjavík.

Það er eitt af meistarastykkjum höfunda þessa strandferðaskips, að það hefir ekki enn getað flutt einn einasta stórgrip milli hafna, af því að hvergi er hægt að koma slíkri skepnu fyrir í skipinu svo forsvaranlegt sje.

Þó að þetta vanti á „Esju“, farmrými og kælirúm fyrir vörur bænda, þá er ekki víst, að rjetta úrlausn málsins sje að efna til skips, sem geti tekið það, sem vantar á að „Esja“ hafi verið skynsamlega bygð. Það gæti verið ástæða til að hafa nú eitthvað ofurlítið myndarlegri hugmynd um það, hverjar þarfir landsmanna muni verða í framtíðinni til að koma vörum að sjer og frá sjer með slíku strandferðaskipi.