27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

51. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem stendur í áliti nefndarinnar á þskj. 214. Nefndin leggur til, að gerð sje breyting við þetta frv., þótt hún fallist að öðru leyti á það. Í frv. er gert ráð fyrir, að tími sá, sem þarf til þess að búa til kjörskrá, sje lengdur fyrir Reykjavík eina um einn mánuð. Nefndin getur nú ekki sjeð, að vert sje að gera breytingu á lögunum sem sjerstök lög fyrir Reykjavík, því að það getur vel verið samræmi í að hafa þetta þannig fyrir alt landið. Þótt þörfin sje ef til vill mest í Reykjavík, eins og í brjefi borgarstjóra er haldið fram, þá er enginn vafi á, að þessi tími er alt of stuttur fyrir ýmsa kaupstaði, og jafnvel sveitirnar líka. Við sjáum ekkert því til fyrirstöðu að lengja þennan tíma alment um einn mánuð.

Allshn. leggur því til, að frv. verði samþ. með slíkri breytingu, og sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið.