10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1927

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer virðist það einskonar kurteisisskylda, sem hvíli á fjvn., að víkja nokkrum orðum að ummælum tveggja hv. þdm., er þeir hafa snúið á hendur nefndinni. Á jeg hjer við þá hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Það kemur nokkuð oft fyrir, að við köstumst orðum á, hæstv. fjrh. og jeg. Og í þetta skifti byrjaði hann ræðu sína svo hlýlega og mæltist til þess að eiga mig að við atkvgr. um þennan kafla fjárlaganna, að jeg fór að hugsa, að eitthvað talsvert grimmilegt væri í aðsigi, einkum þegar þar við bættist, að hæstv. fjrh. fór að tala um gengismálið. En þá brá svo undarlega við, að við allan meginkaflann af ræðu hans hafði jeg ekkert að athuga. Við erum alveg sammála, hæstv. fjrh. og jeg, um það, að nú vofi yfir mjög mikil kreppa fyrir atvinnuvegi landsins, ef til vill enn alvarlegri kreppa en nokkru sinni áður. Hæstv. fjrh. lýsti þessu ljóslega, og skal jeg ekki neitt draga úr orðum hans um það, að svo hörð og löng sem síðasta kreppan var, frá 1920-'23, þá muni sú, sem nú er byrjuð, ekki verða skemri. Það var ágætt að fá það fram, að hæstv. fjrh. álítur ástandið núna ákaflega alvarlegt. Nú notaði hann þessa lýsingu til þess að beina þeirri áskorun til háttv. deildar að fara varlega í afgreiðslu fjárlaganna. Og það er eðlilegt, að þeir, sem stefna að hækkun á verðgildi krónunnar, taki afleiðingunum af því og vilji fá fjárlögin afgreidd í annari mynd en nú. Hæstv. fjrh. er í fullu samræmi við þá stefnu að þessu leyti. En jeg get tekið undir með hv. þm. Ak. (BL) um það, að þau fjárlög, sem hjer liggja fyrir og frumvarpið eins og hæstv. stjórn lagði það fyrir þingið var ekki í samræmi við stefnu hæstv. fjrh. Það er ekki í samræmi við þá stefnu að flytja auknar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Slíkt er í beinni mótsögn við það, sem hæstv. fjrh. hefir marglýst yfir, að hækka beri gildi krónunnar í gullverð. Þó jeg sje nú sammála hæstv. fjrh. um það, að okkar bíði erfiðleikar vegna peningamálanna, þá er áminningin hjá mjer alt önnur en hjá hæstv. fjrh. Mjer virðist, að sú kreppa, sem framundan er, eigi að vera áminning um það, að það markmið, sem fjrh. stefnir að, að hækka krónuna í gullgengi — það næst aldrei. Þegar kreppan kemur miklu fyr en vanalega er — vanalega líða 7 ár á milli, segir hæstv. fjrh., en nú ekki nema 5 — og það er einmitt hækkunarstefna fjrh., sem nú hefir flýtt svo mjög fyrir þessu — það ætti að vera mjög ljós aðvörun um það að stefna ekki lengra fram á þessa braut, að takmarki, sem ómögulegt er að ná. Jeg vil ennfremur benda á annað, sem ætti að vera mönnum rík áminning við atkvgr. um þessi fjárlög. Jeg hygg, að það liggi í loftinu, að sá sje uppi í háttv. fjhn. að leggja það til, að ríkið taki á sig alla áhættu af því að halda uppi því gengi, sem nú er, og jeg hygg, að hæstv. fjrh. standi þarna á bak við. Þær voðalegu afleiðingar, sem gengishækkunin hefir haft, og hið illa útlit, sem nú er um afkomu atvinnuveganna, sem af henni hefir leitt, ætti að vera áminning þinginu að leggja ekki út í það glæfraspil að halda í það peningagildi, sem fyrirsjáanlegt er, að atvinnuvegirnir geta ómögulega risið undir.

Þá vil jeg fara fáum orðum um þau ummæli, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vjek að fjvn. Hann hjelt enn ræðustúf í garð fjvn., hvernig hún læsi till., hvernig hún bókaði sínar gerðir og hve djúpt hún færi í till. Jeg verð nú að játa það, að fjvn. fer ekki svo djúpt í till., að þegar eitthvert kjördæmi óskar eftir fjárveitingu 1928, eins og kjördæmi háttv. þm. (JAJ), þá fer fjvn. ekki að setja þá fjárveitingu í fjárlög 1927. Hún sjer ekki ástæðu til þess að taka fram fyrir hendurnar á kjördæmunum. Hv. þm. (JAJ) hjelt áfram samanburði sínum um það, hversu fjvn. hefði skarað eld að sinni köku. Jeg skal nú benda á það, að sú fjárveiting, sem þessi hv. þm. hefir sótt fastast að fengist, er til þess ætluð að styrkja flóabáta og að kaupa vjelar í flóabáta. Þessir peningar koma að notum í Skaftafellssýslum, Barðastrandarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu, og þetta eru alt kjördæmi, sem eiga fulltrúa í samgmn., sem hv. þm. (JAJ) er einmitt frsm. fyrir. Þeir ættu sannarlega ekki að kasta grjóti, sem búa í glerhúsi eins og hv. samgmn. Nú er það gömul venja, þegar tveir deila, að velja gerðarmann, og jeg býst við því, að hv. þm. (JAJ) mundi ekki vera ófús að velja til gerðarmanns á milli okkar formann flokks síns, hæstv. fjrh. En hann lagðist einmitt allfast á móti till. samgmn., en beindi því eindregið til hv. deildar að fylgja till. fjvn. Jeg er nú ekki vanur því að leggja mitt mál undir úrskurð hæstv. fjrh., svo mjer þykir hart, ef hv. þm. (JAJ) skyldi hafa á móti því að hlíta úrskurði hans í deilu okkar, þar sem hann er flokksforingi sjálfs hans.