10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Kjartansson:

Það voru aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. fjrh. (JÞ) um hækkunina á styrknum til flóabáta samkvæmt till. samgmn. Jeg vil geta þess, að þær hækkanir eru aðallega gerðar vegna þess, að hæstv. stjórn hefir sjálf á yfirstandandi ári bundið mikið af því fje, er til bátaferðanna er ætlað, við ákveðna báta, svo sem Borgarnesbátinn, Breiðafjarðarbátinn o. fl., og styrkinn til Hornafjarðarbátsins hefir hún hækkað um helming frá því, er áætlað var af samgmn. í fyrra, eða úr 4 þús. kr. upp í 8 þús. kr. Þessar hækkanir hjá einstöku bátum hljóta að koma hart niður á öðrum; en þeir eru ef til vill eins eða meir þurfandi. Samgmn. vill þess vegna nú þegar tala þessar hækkanir með í reikninginn og fá heildarupphæðina hækkaða að sama skapi. Af öðrum bátum er það m/b Skaftfellingur, sem hefir fengið mesta hækkun nú. Er það af því, að farið var fram á, að báturinn kæmi við á Stokkseyri og Eyrarbakka. Sýslunefnd Árnessýslu hafði beðið um 7000 kr. í þessu skyni, en samgmn. sá sjer ekki fært að leggja til að veita þessa upphæð, en hefir hinsvegar mælt með, að styrkurinn til Skaftfellings verði hækkaður um 3000 kr., með því skilyrði, að hann komi þarna við einstöku sinnum. Jeg vil í þessu sambandi taka það fram, að jeg átti nýlega tal við framkvæmdarstjóra h/f „Skaftfellings“ um þetta, og sagði hann, að ekki yrði skorast undan því að láta Skaftfelling koma við á þessum stöðum, en hinsvegar gætu þeir ekki skuldbundið sig til að hafa þangað fastar áætlunarferðir.

Þá er 1000 kr. hækkunin á styrknum til Suðurlandsskipsins. Stafar sú hækkun af því, að stjórn Eimskipafjelags Íslands hefir neitað að sjá um þessar ferðir nema því aðeins, að þeir fái 4000 kr. styrk. Nú fær fjelagið 3000 kr. styrk í þessu skyni. Samgmn. hefir vitanlega ekkert á móti því, að hæstv. stjórn nái hagkvæmari samningum við fjelagið til þess að halda þessum ferðum uppi. En nefndin hefir talað við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, og sagðist hann ekki sjá sjer fært að halda þessum ferðum uppi fyrir minna en 4000 kr. Jeg held þess vegna, að það sje öldungis ófær leið, sem hæstv. stjórn hefir stungið upp á, að fella þessar till. samgmn. og láta nægja þá upphæð til flóabátanna, sem stjórnin hefir stungið upp á í fjárlagafrv.

Annars tel jeg að þær umr., sem hjer hafa farið fram, sjett í alla staði óviðeigandi, þar sem töluvert aðkast hefir átt sjer stað til einstakra þingmanna, og því sjerstaklega verið dróttað að okkur í samgmn., að við hefðum verið að leitast við að draga til okkar kjördæma með till. okkar. (TrÞ: Það sagði jeg alls ekki). Jeg vil sjerstaklega mótmæla þessu hvað mig snertir. Ferðir m/b Skaftfellings eru ekki síður fyrir Austur-Skaftfellinga en Vestur-Skaftfellinga, og einnig eru þær fyrir Rangvellinga og að nokkru leyti fyrir Vestmannaeyinga. En því verð jeg hiklaust að halda fram, að það sje engu síður skylda Alþingis að halda uppi ferðum til þessara hjeraða en annara.