26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

67. mál, veðurstofa

Jóhann Jósefsson:

Eins og frv. á þskj. 194 ber með sjer, þá hefir hv. sjútvn. Nd. borið fram frv. um veðurstofu á Íslandi.

Þetta mál, að sjerstök veðurathugunarstöð yrði lögfest hjer á landi, hefir tvisvar áður legið fyrir hinu háa Alþingi. Í fyrra skiftið. 1917, dagaði það uppi, en árið eftir, eða 1918, var því vísað til hæstv. stjórnar.

En þó að málinu hafi ekki verið skipað með sjerstökum lögum, þá hefir þó verið haldið uppi veðurathugunarstöð nú síðari árin með talsverðum styrk í fjárlögum, og mun hann hafa komist upp í 40 þús. kr. á ári, þegar hæst ljet.

Veðurathugunum og veðurspám hefir fleygt svo fram á síðari árum, að jafnvel undrum sætir, og meira að segja hjer á landi hefir verið reynt að fylgjast dálítið með. Fyrir fáum árum hefði það þótt fyrirsögn, að til væru veðurspár, bygðar á vísindalegum athugunun. En svona er því nú farið, að veðurfræðin er orðin ein af vísindaiðkunum nútímans.

Og sje þörf á veðurathugunum og veðurspám í öðrum löndum, þá ætti þeirra ekki síður að vera þörf hjer á landi, sem jafnháð er dutlungum veðráttunnar. Enda mun vandfundið það land á hnettinum, sem eins mikið á afkomu sína undir veðráttunni.

Þetta vita líka allir og finna, en þrátt fyrir það er stundum talað á þá lund, að menn vilji setja lög og reglur, sem frekast ættu við í verksmiðjubæ, en ekki hjer á norðurhjara veraldar, þar sem veðráttan grípur inn í atvinnulífið bæði seint og snemma. Nei, við Íslendingar erum meira upp á veðráttuna komnir en nokkrar aðrar þjóðir, og því nauðsynlegt að skipa veðurathugunum okkar í betra og vísindalegra horf. Og þó að frv. þetta fari fram á hærri fjárhæð til styrktar þeim en verið hefir áður, þá megum við ekki sjá í það, enda óhjákvæmilegt að fullkomna þær eins og kostur er.

Hlutverk veðurathugunarstofu eru tvens konar.

Í fyrsta lagi að safna veðurfarsskýrslum, sem lagðar eru til grundvallar þeirri rannsókn, hvernig veður hagi sjer á lengra tímabili. Og í öðru lagi að gefa út veðurspár fyrir hvern dag.

Veðurfarsathuganir eru ekki neitt nýmæli hjer á landi. Í marga tugi ára hafa slíkar athuganir verið framkvæmdar að tilstiðlun Meteorologish Institut í Kaupmannahöfn og skýrslur sendar þangað mánaðarlega áður en sími var lagður hingað til lands.

Hjá öðrum þjóðum eru þó veðurathuganir miklu lengra á veg komnar.

Í Þýskalandi eru t. d. 28 veðurathugunarstöðvar víðsvegar um ríkið með miðstöð í Hamborg. Er veðrið athugað þrisvar sinnum á dag á öllum þessum stöðvum, og 20 mín. eftir athugunina liggur svo alt fyrir á miðstöðinni og eru veðurspárnar símaðar út um alt land hið bráðasta. Þjóðverjar nota líka millilandaskip sín til veðurathugana. T. d. 12 af skipum þeirra, sem eru í Atlantshafsferðum, senda reglulega veðurskeyti til miðstöðvarinnar í Hamborg, og gerir það stöðinni mikið hægra fyrir um veðurspárnar.

Í Noregi er líka þessum málum komið í mjög gott horf, einkum að því er snertir veðurspárnar. Norðmenn sjá, að bráðaþörfina verður mest að meta. Þar fer daglega, mikill floti fiskibáta á sjó, og er því þeirra vegna mest áhersla lögð á hinar daglegu veðurspár, og er nú svo komið þar, að sagt er, að bátar fari ekki á sjó, ef spáin er slæm. Á sjálfri höfninni í Björgvin er í einni átt slæmt að geyma báta, og eru þeir jafnan fluttir í kyrrara lægi eftir vísbendingu frá veðurstofunni. Það er alveg augljóst, bæði af reynslu annara þjóða og vegna aðstöðunnar hjer, að það er hin mesta nauðsyn að fullkomna þessa stofnun, sem í frv. er kölluð veðurstofa. Og þörfin fyrir slíka stofnun er ekki minni hjer, heldur meiri en víðast annarsstaðar. Hjer er bæði litlu til þessa kostað og mennirnir, sem að því starfa, að einum undanskildum, óvanir slíkum störfum. Auk þess eru áhöldin ófullkomin og veðurstofan er t. d. nú alveg nýskeð búin að fá tæki til þess að geta sjálf tekið á móti skeytum frá hinum stóru firðsendingarstöðvum úti í heimi. Veðurstofan hefir tvennan tilgang: Að vinna úr veðurfarsskýrslum frá ýmsum stöðum og rannsaka tíðarfarsbreytingar, og svo hinar daglegu veðurspár. Það er sú hliðin, sem menn verða hjer á landi að snúa sjer aðallega að, einkum vegna hinna stóru verstöðva. Það er auðvitað mikill kostnaður að senda út daglega veðurspár, og það verður að leggja mikla áherslu á það, að þær verði sem rjettastar og komi þeim að notum, sem eiga að njóta þeirra, og að menn fari eftir þeim, að svo miklu leyti sem það er unt. Til þess að þessi starfsemi nái tilgangi sínum, er það mjög nauðsynlegt, að stofan sje sem öflugust, að hún geti aflað sjer upplýsinga frá nógu mörgum stöðum, svo að hægt sje að mynda sjer fullkomna hugmynd um ástandið. Þá er það eigi síður nauðsynlegt, að til sjeu hæfir menn til þess að vinna úr þeim upplýsingum, sem stofan aflar sjer, og að þeir menn hafi svo mikla aðstoð, að þeir þurfi ekki að eyða kröftum sínum í smávægileg skrifstofustörf, sem allir geta int af hendi.

Það er mjög mikilvægt atriði, bæði fyrir útsendingu veðurskeyta og eins til að afla veðurstofunni sem mestra upplýsinga til að byggja á, hve mörg skip okkar hafa loftskeytatæki, og gæti það, ef vel væri á haldið, orðið veðurstofunni mikil stoð.

Veðurstofan þarf að vera þess megnug að fá frjettir frá fleiri stöðum en hún fær nú og þarf að vera svo um búið, að slíkar fregnir gangi fyrir öllu öðru. Frv. gerir ráð fyrir, að reglur verði settar af atvrh. um sendingu og birtingu veðurskeyta út um land, og þarf sjerstök áhersla að vera lögð á það, að skeytin sjeu birt á þeim tíma og á þeim stöðum, sem almenningur hefir gagn af þeim. Mjer hefir virst, að stundum væri komið langt fram á dag, þegar skeytin hafa verið birt á opinberum stöðum, sem hafa þó verið símuð kl. 6 á morgnana.

Veðurstofan þarf að senda út veðurspár tvisvar á dag, og spáin fyrir næsta dag þarf að vera komin út um land svo snemma daginn á undan, að sjómenn geti áttað sig á henni og ráðið ráðum sínum, hvort þeir ætla að fara eftir henni eða ekki. Storm kvað vera hægt að segja fyrir með 12 stunda fyrirvara, en aðrar algengar veðurbreytingar með sólarhrings fyrirvara.

Útvarpið, sem nú er nýkomið hingað, getur orðið öflugur þáttur í því að senda út spár og aðvaranir fyrir storma. En til þess þarf, eins og veðurstofan hefir bent á í áliti til nefndar Fiskiþingsins 1925, að vera ábyggilegur maður á hverjum stað, er taki við skeytunum og komi þeim til hlutaðeigandi manna. Það er hætt við, að svo kunni að fara fyrst í stað með veðurspárnar, eins og með loftþyngdarmælinn, að menn fari ekki alment eftir þeim. En eftir reynslunni með veðurspárnar að dæma, er það mjög líklegt, að niðurstaðan verði sú sama og sagt er að sje í Noregi, að sjómenn fari ekki á sjó, ef spáin er slæm. Eftir framförum útvarpsins að dæma er alls ekki að vita, nema skamt verði að bíða þess, að bátar geti haft slík tæki, að þeir geti heyrt til útvarpsstöðvarinnar hjer, og gætu þá vjelbátar úti á sjó fengið boð um það, hvernig veðurstofan spáir fyrir veðrinu. Hvernig sem það fer, er það mjög nauðsynlegt, að í öllum verstöðvum sjeu menn, sem sjái um, að veðurskeytin sjeu birt almenningi á rjettum tíma, og eins er áríðandi, að ekki sje dregið að síma þau. Í sama brjefi frá forstöðumanni veðurstofunnar til nefndar Fiskifjelagsins, er jeg mintist á áðan, er minst á það, hve mörg slys vilja hjer til árlega, og það er augljóst, að þó ekki væru nema örfá eða jafnvel eitt einasta slys, sem komið yrði í veg fyrir, þá væri landinu margendurgoldinn kostnaðurinn. Það eru ekki aðeins sjóslys, sem veðurstofan gæti fyrirbygt, heldur líka sjóferðir, sem ekkert leiða af sjer annað en eyðslu á krafti og tap á veiðarfærum. Og það er ekki ólíklegt, að veðurspárnar geti líka haft sína þýðingu fyrir atvinnu á landi, fiskvinnu o. s. frv., þegar þær komast í fullkomið horf.

Það er tilgangur frv. að fjölga starfsmönnum við veðurstofuna, og sjeu tveir af þeim fullkomnir veðurfræðingar, sem sjeu færir um að annast veðurspárnar. Hjer er nú aðeins einn slíkur maður, nefnilega forstöðumaður veðurstofunnar. Hinn maðurinn, sem flm. frv. hafa augastað á, er Íslendingur, sem nú starfar í Noregi við þá veðurstofu, sem talin er einna merkust þar í landi, og er það meiningin, að landið tryggi sjer starfskrafta þessa manna og að hann verði fulltrúi í veðurstofunni, ef hún verður stofnuð. Það skal tekið fram um launakjör hans, að gert er ráð fyrir, að hann fái 5500 kr. árslaun, auk dýrtíðaruppbótar. Auk þess er gert ráð fyrir, að meðan ekki er til sjerstök íbúð handa forstjóra veðurstofunnar, verði þeim veittur húsaleigustyrkur, forstjóra og fulltrúa, er skiftist jafnt milli þeirra, en eftir að hús er komið upp handa forstjóranum, verði leigan metin, og greiði þá forstjóri fulltrúa sem svarar helmingi húsaleigunnar.

Jeg vona, að háttv. deild taki þessu frv., sem borið er fram af háttv. sjávarútvegsnefnd Nd., eins vel og því var tekið í hv. Nd. og það nái fram að ganga. Jeg veit það, að þau rök, sem jeg hefi fram borið í þessu máli, eru í raun og veru lítils virði, samanborin við þau rök, sem allir Íslendingar þekkja til sjós og lands, um nauðsyn þess fyrir atvinnuvegi vora og fyrir líf sjómanna og öryggi, að veðurathugunum og spám sje komið í svo gott horf, sem þjóðinni er unt. Það er nú mjög skamt síðan við áttum á bak að sjá heilli skipshöfn hjer við Faxaflóa, og var auk þess einn bátur úr Keflavík þá mjög hætt kominn. Mjer er sagt, að margir formenn þar hafi sett sig í samband við veðurstofuna kvöldið áður en slysið varð og setið heima þennan dag vegna spárinnar. Það er mjög líklegt, að þegar veðurstofan fer að geta starfað með fullkomnum vísindalegum hætti, þá muni sjómenn fara eftir spám hennar, þegar þeim er unt, og að við það fækki slysum og svaðilförum hjer við land, sem nú koma svo raunalega oft fyrir.