25.02.1926
Neðri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

36. mál, forkaupsréttur á jörðum

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Enda þótt hv. þingdeild sje nú í nokkrum vígahug. vona jeg þó, að það verði ekki látið hitna á þessu frv.

Jeg get tekið það fram, að ástæðan til þess að frv. þetta er fram komið, eru áskoranir um það, sem komið höfðu til mín á þingmálafundum í janúarmánuði síðastl. Við athugun þessa máls hefi jeg á ný algerlega fallist á rjettmæti þess, svo að jeg tel sjálfsagt, að það nái fram að ganga. Þegar jeg fór að kynna mjer umræður um þetta mál á þingunum 1917 og 1919, sá jeg að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hafði bent á, að þessi lög gætu leitt til þess, að niðjar jarðareiganda gætu alls ekki eignast jörðina eftir hana dag. Og sá, sem mest beitti sjer þá fyrir þessari lagasetning í Nd., prófessor Einar Arnórsson, þáverandi þm. Árn., viðurkendi, að þetta gæti átt sjer stað, en máli þessu var þá svo langt komið, að breytingar í þessa átt komust aldrei fram. Af þessum ástæðum er það, að hv. l. þm. S.-M. (SvÓ) er meðflytjandi minn að þessu máli.

Frv. þetta fer fram á að undanskilja forkaupsrjettarákvæðum laganna frá 1919 niðja jarðareigenda, börn þeirra, kjörbörn, fósturbörn og systkini. Jeg hefði jafnvel viljað fara enn lengra í þessa átt og láta frv. einnig taka til barnabarna og annara niðja, en sem þó gæti ekki ágreining valdið í framkvæmd. En jeg ljet þó við þetta sitja að sinni, en leyfi mjer hjer með að skjóta því til væntanlegrar nefndar, sem þetta mál fær til meðferðar, að athuga, hvort ekki væri tiltækilegt að bæta þessu við í frv. Nú er þessu svo varið eftir gildandi lögum, að sjálfsábúðar- og eignarjörð sína getur eigandinn ekki selt í hendur niðjum sínum, ef sveitarfjelagið vill fá forkaupsrjettinn til kaupanna, nema niðjinn geti tekið við ábúð á jörðinni. En einatt er svo því varið af ýmsum ástæðum, að þetta getur ekki átt sjer stað nema „leppa“ ábúðina, sem ekki er einasta mörgum ógeðfelt, heldur getur líka verið hættulegt. jeg veit eitt dæmi í þessa átt, sem er sannsögulega rjett. Það er aldraður maður, sem býr á eignarjörð sinni; hann vill ekki, að jörðin eftir sinn dag gangi til þeirra niðja, sem hann á, vegna þess að hann treystir þeim ekki til að fara með hana að sínum vilja. En hann á dótturson, sem hann trúir til þessa og vill láta hann eignast jörðina. Nú getur dóttursonur hans ekki orðið sjálfur ábúandi á jörðinni sökum æsku, en yrði þá til þess að fá einhvern mann fyrir sig, „leppa“ ábúðina. Nú vildi gamli maðurinn ekki af neinni leppmensku vita og tók því það ráð, að hann gaf dóttttrsyni sínum jörðina. Ýms fleiri dæmi mætti og hugsa sjer, sem sýna nauðsyn þessarar breytingar. Það er t. d. maður að ala upp son sinn og menta í því augnamiði, að hann eignist jörðina og sitji hana eftir sinn dag, en á fleiri erfingja, svo hann þarf að hafa selt jörðina áður en hann fellur frá. Nú verður hann ófær til að búa sjálfur, veikist eða deyr. En þessi, sem hann ætlar til þess að taka við jörðinni, er enn of ungur til, þess að búa þar, eða við nám og á enn eftir mikið að búa sig undir framtíðarstarf sitt. Undir þessum kringumstæðum skeður ekki annað en að annaðhvort verður jörðin seld sveitarfjelaginu eða til erfingjaskifta kemur að eigandanum látnum.

Þessi ákvæði laganna um forkaupsrjett sveitarfjelaga að jörðum eru skerðing á sjálfsábúðarrjettinum, sem þó er tryggasta undirstaðan undir landbúnaðinum. Reynslan hefir sýnt það hjer sem annarsstaðar, að þar, sem jarðir hafa lengst haldist í ættum, hafa þær verið jafnbest setnar og best haldið við. Það liggur í eðli mannsins skyldutilfinning að varðveita og bæta það, sem feðurnir hafa sjerstaklega búið þeim í hendur. Mætti finna mörg dæmi hjer á landi, sem sanna þetta. En sjerstaklega má þó benda á það, að þar sem óðalsrjettur hefir verjð lögleiddur, er þetta orðið að helgri skyldu.

Nú munu menn máske segja, að það sje meiri trygging fyrir því, að jarðirnar fari ekki í braskarahendur, ef sveitarfjelögin eigi þær og sje því uppbót á móti því, að sjálfsábúðinni er glatað. En einhlítt er þetta þó ekki. Jeg þekki jafnvel eitt dæmi í þessa átt, sem jeg fullyrði, að er í alla staði satt og í samræmi við það, sem fram fór. Nýverið keypti sveitarfjelag jörð nokkra, til að forða því, að hún yrði eign annara sveitarfjelags, sem hafði falast eftir kaupum á henni. En það kom brátt í ljós, að hreppsnefndin hafði ekki keypt jörðina til eignar sveitarfjelaginu, heldur seldi hún þegar jörðina aftur innansveitarmanni, sem þó sat á eignarjörð sinni; en hann vildi heldur búa á áðurnefndri jörð. Kaupandinn tók því næst þessa jörð til ábúðar, en eignarjörð sína sem hann sjálfur hafði búið á áður, ljet hann sem fótaskinn undir nágranna sinn, sem þóttist hafa of lítið land og setti aðeins þangað húsfólk. Þó að hreppsnefndin kæmi jörð þeirri, er hún seldi, í sjálfábúð aftur, varð hún þó orsök þess, að önnur jörð var svift ábúð. Og enn þess, að opnuð er leið fyrir sveitarfjelag það, sem ekki náði kaupum á jörðinni, að fá hana fyrir hækkað verð hjá þeim, sem keypti. Sýnir þetta dæmi ljóslega, að ákvæði laganna eru ekki einhlít til að fyrirbyggja brask.

Jeg ætla svo ekki að fara lengra út í þetta mál, en jeg hygg, að það, sem jeg hefi tilfært, nægi til að sýna, að það er ekki að ófyrirsynju, að þetta frv. er borið fram. Aðrar breytingar á lögunum frá 1919 leiða af aðalbreytingunni og nokkrar til að leiðrjetta prentvillur, sem í lögunum eru. Hefi jeg svo lagt til, að frv., þegar það nær staðfestingu, verði fært inn í meginmál laganna frá 1919 og þannig gefið út, þó það sje ofurlítið dýrara. Er það til þess gert, að ekki sje sinn skækillinn í hverri áttinni. Jeg vil svo að síðustu gera það að tillögu minni, að frv. þessu verði að þessari 1. umr. lokinni vísað til landbn.