25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

36. mál, forkaupsréttur á jörðum

Þórarinn Jónsson:

Jeg get verið háttv. landbn. þakklátur fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál, þó jeg hinsvegar taki undir með form. hennar, háttv. þm. Barð. (HK), að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð lengi. En er jeg finn hinn góða hug hv. nefndarmanna og velvilja til málsins, veitist mjer ljett að fyrirgefa dráttinn og vona, að málinu reiði vel af úr þessu og komist klaklaust gegnum þingið.

Jeg ætla ekki að gera að umtalsefni sjálfsábúð í landinu, enda er það þessu óviðkomandi, sem hjer er stefnt að: að tryggja sem best, að jarðir haldist í sömu ætt á meðan kostur er. Þetta viðurkennir líka nefndin, og fyrir það flyt jeg henni þakkir okkar flm. Hinsvegar höfum við flm. ekki getað aðhyllst vatill. hv. nefndar. Að vísu föllumst við á þá viðbót, að „foreldri“ skuli einnig undanþegin ákvæði 1. gr. laganna frá 1919, og teljum, að hún sje til bóta, en að öðru leyti teljum við ekki rjett, að enn sje ákveðin samskonar kvöð og nú er gildandi. Aðalástæðan er sú, að í gildi eru ákvæði um óðalsrjett og þau fara í bága við brtt. háttv. nefndar. Tilskipun um þetta efni er frá 1833, en þó undarlegt sje, virðist hún hafa farið fram hjá milliþinganefndinni, sem sat á rökstólum 1904 og átti frumkvæði að lögunum 1905. En þó tilskipunin frá 1833 sje ekki komin inn í meðvitund þjóðarinnar, er hún eigi að síðar talin að vera í gildi.

Nú er það svo eftir brtt. hv. nefndar, að sá, sem fær forkaupsrjett á jörð eftir frv., getur orðið aðnjótandi óðalsrjettar áður en hann fær ábúð. Þá koma ákvæði viðaukatillögu nefndarinnar í bága við innlausnarrjett þann, sem eigandi á á eigninni, sem er 5 ár samkvæmt tilskipuninni. Þess vegna viljum við ekki ákveða, að sveitarfjelagið fái forkaupsrjettinn að vissum tíma liðnum, og höfum við því leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 209, sem fer fram á að fella niður þessi ákvæði, sem nefndin vill setja inn með sinni brtt. En ef hv. nefnd vildi taka til athugunar 1. og 2. gr. forkaupsrjettarlaganna frá 1919, þá væri ekki nema til bóta, að það yrði tekið skýrt fram við 3. umr., að auk þessara tveggja greina væri tilskipunin frá 1833 einnig í sínu gildi. Annars vildum við flm., að ef þingið vildi á annað borð sinna óðalsrjettinum, þá yrði það gert á annan hátt og víðtækari en að skinna upp gömul lagaákvæði. En það liggur ekki fyrir nú, og getur því máli mínu verið lokið.

Vænti jeg svo, að 1 . deild sporni ekki móti því, að frv. nái fram að ganga í því formi, sem við háttv. l. þm. S.-M. leggjum til.