18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

71. mál, slökkvilið á Ísafirði

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Eins og getið er um í greinargerð þessa litla frv., þá er það borið fram samkv. ósk bæjarfógetans á Ísafirði. Ástæðan til þess að breyta lögunum frá 1883 er sú, að nú nýlega, þegar bæjarstjórn vildi setja reglugerð um slökkviliðið, vantaði ákvæði, sem heimilaði að sekta þá, sem brjóta í bág við hana. Hefir mjer nýlega borist brjef um þetta frá bæjarfógetanum, og fer hann fram á að gerðar sjeu breytingar á lögunum, og tel jeg mig hafa náð því með þessu frv.

Sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um það að sinni, en vænti þess, að það fái að ganga til 2. umr. Að vísu skal jeg geta þess, að það eru fáeinar orðabreytingar, sem jeg mun gera á því, og tala jeg um þær við hv. nefnd, sem jeg legg til að verði allshn. Þetta er lítið mál og snertir aðeins Ísafjörð.