10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1927

Bernharð Stefánsson:

Jeg á tvær brtt. við þennan kafla fjárlaganna og vildi minnast á þær örfáum orðum. Þær eru báðar á þskj. 297. Fyrri till., sú XXIX. í röðinni, fer fram á, að veittar sjeu 5 þús. kr. til framhaldsnáms fyrir nemendur, sem lokið hafa gagnfræðaprófi í gagnfræðaskólanum á Akureyri. Þetta framhaldsnám var stofnað við skólann haustið 1924, eftir samþykt þessarar hv. deildar það ár og með samþykki ríkisstjórnarinnar. Fyrsta veturinn — 1924–25 — tóku þátt í þessu framhaldsnámi 22 nemendur, og af þeim las helmingurinn latínu o. fl., sem heimtað er til stúdentaprófs — en hinn helmingurinn slepti latínu, en lagði í þess stað meiri stund á nýju málin. Síðastliðið haust bættust svo 16 nýir nemendur í hópinn, sem fyrir var, en af þeim eru það aðeins 4 eða 5, sem búa sig undir stúdentspróf. Hinir nemendurnir lesa nýju málin og önnur gagnfræði.

Á þessu sjest, að þetta framhaldsnám hefir tvenskonar hlutverk. Í fyrsta lagi er það einskonar æðri alþýðuskóli, sem stefnir að því að veita nemendum frekari fræðslu en kostur er á í gagnfræðaskólanum, því þar vinst ekki tími til að kenna nema helstu undirstöðuatriðin, og þarf því að bæta við, svo að nemendurnir hafi sem mest og best gagn af náminu.

En auk þessa hlutverks, að veita alþýðumönnum staðbetri fræðslu en kostur er á annarsstaðar í landinu, hefir og framhaldsnámið einnig það hlutverk að greiða götu þeirra manna á Austur- og Norðurlandi, sem hafa löngun og hæfileika til náms, en ekki geta sótt mentaskólann hjer, vegna fátæktar eða annara erfiðleika, því ferðir hingað frá Norður- og Austurlandi eru langar og dýrar, húsaleiga hjer og fæðiskostnaður talsvert hærri en fyrir norðan; en sjerstaklega er það þó óheppilegt fyrir fátæka námsmenn, hve námstíminn hjer er langur. En með þessu frjálsa fyrirkomnlagi þarna norður frá geta menn haft í hendi sjer að stytta hinn árlega námstíma, auk þess sem námskostnaðurinn nyrðra er það mikið lægri, að fátækum mönnum veitist ljettara að kljúfa hann. Jeg verð því að líta svo á, að bæði þessi hlutverk framhaldsnámsins eigi þann rjett á sjer, að það sje fyllilega maklegt þess styrks, sem jeg fer fram á með brtt. minni. Þetta framhaldsnám hefir haft húsnæði í skólanum endurgjaldslaust og kennarar skólans hafa lagt á sig aukakenslu við það. Annar styrkur hefir ekki verið veittur til þess. Enda var ekki farið fram á það í hitteðfyrra, að kostnaður við framhaldsnámið yrði greiddur úr ríkissjóði. Þá var líka alt í óvissu um, hvernig þetta mundi gefast. Nú er fengin nokkur reynsla í þessu efni, og hún sýnir það tvent, að hjer er um fullkomið nauðsynjamál að ræða, og líka hitt, að það er erfitt og jafnvel óklejft að halda þessu framhaldsnámi áfram, svo að fullum notum komi, nema ríkið hlaupi undir bagga og styrki það með fjárframlögum.

Annars skal jeg taka það fram, til þess að fyrirhyggja allan misskilning, að það er langt frá því, að það sje skólameistari gagnfræðaskólans á Akureyri einn, sem er að berjast fyrir þessu máli, eða jeg fyrir hans hönd. Heldur er það Stúdentafjelagið á Akureyri, sem tekið hefir málið að sjer. Það hefir kosið nefnd til þess að fylgja málinu fram. Nefndin hefir samið erindi, sem sent hefir verið Alþingi og hv. fjvn. haft til athugunar. Í erindi þessu eru glögg rök færð fyrir því, að fjárveiting sje nauðsynleg til þess að bera uppi kostnað þann, sem óumflýjanlegt sje að framhaldsnámið hafi í för með sjer. Formaður nefndarinnar er bæjarfógetinn á Akureyri, Steingrímur Jónsson, og með honum eiga sæti í nefndinni 4 aðrir ágætismenn.

Þessi nefnd Stúdentafjelagsins á Akureyri sækir um 6 þús. kr. styrk. Og enda þótt jeg hefði talið fulla þörf á þessari upphæð, hefi jeg samt sem áður dregið úr þessu og fer ekki fram á meira en 5 þús. kr. Vona jeg, að það finni fremur náð fyrir augum hv. deildar heldur en ef um alla upphæðina hefði verið að ræða.

Þó að jeg verði nú að viðurkenna, að útlit fjárlaganna verði alt annað en glæsilegt, ef allar hækkunartill. þær, sem fyrir liggja, verða samþyktar — eða þó að ekki nema nokkur hluti þeirra nái fram að ganga — þá verð jeg samt að telja svo mikla nauðsyn á þessari fjárveiting, sem kemur svo mörgum að notum, að hv. deild eigi að fallast á hana. Getur líka farið svo, að þetta þurfi ekki að auka útgjöld ríkissjóðs, því eitthvað ætti að sparast á rekstri mentaskólans við það, að norðanmenn hættu að sækja hann. Jeg á við, að hægt mundi að spara eitthvað á því, að þá muni ekki vera þörf á að skifta efri bekkjum mentaskólans eins mikið og nú er gert.

Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði. Það hefði verið ástæða til að lesa upp brjef stúdentafjelagsnefndarinnar á Akureyri til Alþingis, en það er nokkuð langt og mundi því taka of mikinn tíma, enda þykist jeg vita, að hv. fjvn. sje því kunnug, og ef til vill fleiri hv. þdm.

Hverf jeg þá frá þessari fyrri brtt. minni og sný mjer að hinni síðari. Önnur brtt. mín á þskj. 297,LV er um að hækka styrkinn til U. M. F. Í. upp í 5 þús. kr. Það var samþykt í þessari hv. deild við 2. umr. fjárlagafrv. að hækka styrkinn til Goodtemplarareglunnar allverulega, eða upp í 10 þús. kr. Jeg mintist á það við 2. umr., að mjer fyndist starfsemi stórstúkunnar og ungmennafjelaganna vera svo hliðstæð, að ekki væri rjett að gera mikinn mun á styrk til þeirra. Jeg sá enga ástæðu til að gera meira en helmingsmun á þessum fjelögum, og þar eð hv. deild hefir hækkað styrkinn til stórstúkunnar, þá fanst mjer rjettlátt, vegna ungmennafjelaganna, að þeirra styrkur yrði líka hækkaður, og er þetta í samræmi við það, sem jeg hefi áður sagt.

Fyrst jeg talaði um þetta við 2. umr., ætla jeg ekki að fjölyrða um það nú, aðeins vísa til þess, sent jeg sagði þá.

Þessar 2 till., sem jeg hefi borið fram, fara fram á örlitla hækkun á gjaldahlið fjárlagafrv. Jeg viðurkenni samt fyllilega nauðsynina á því að fara gætilega — úr því sem nú er komið — í því að auka útgjöld ríkjssjóðs. En jeg vil minna á það, að þann tíma, sem jeg hefi setið á þingi, hefi jeg ekki verið kröfuharður vegna kjördæmis míns. Útgjöld ríkissjóðs hafa því ekki hækkað til muna vegna till. frá mjer. Get jeg því með góðri samvisku borið fram þessar till. þótt til hækkunar sjeu.