10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1927

Magnús Jónsson:

Jeg verð nú að segja, það, að mjer þykir salurinn hjerna vinstra megin ekkert árennilegur til þess að sannfæra. (BL: Betra að sannfæra fáa en marga). En jeg hefi kvatt mjer hljóðs, svo að umr. yrði ekki slitið án þess að jeg hefði gert grein fyrir brtt. mínum. Jeg á hjer 2 brtt. á þskj. 304, 5. og 6. brtt. (TrÞ: En sú 4.?). Það talar annar um hana. Sú fyrri er um það, að Listvinafjelagið fái 1000 kr. styrk til þess að gefa út rit um íslenska listamenn. Þetta fjelag er hv. þm. kunnugt; það naut styrks í síðustu fjárlögum, og gæti notið styrks hliðstætt við Bókmentafjelagið, þar sem það starfar að ákveðnu verkefni eins og það, og engu ógöfugra verkefni, með fundahöldum, þar sem rædd eru áhugamál listamanna, heldur sýningar á íslenskri list, og hefir þessi starfsemi fjelagsins gert mikið gagn. En það, sem er erfiðast fjárhagslega fyrir fjelagið, er það, að það hefir byrjað á því að gefa út rit, sem á að vera saga íslenskrar listar. Hafa þegar komið út 2 hefti mjög vönduð, sjerstaklega fyrra heftið. Varð útgáfan á því afardýr vegna þess, að það var gefið út á dýrum tíma, og auk þess voru prentaðar litmyndir í það, sem jók kostnaðinn að mun. Aftur á móti var farið varlegar í útgáfu síðara bindisins, ekkert litprentað, en samt var útgáfan dýr, kostaði á 4. þús. kr., og fjelagið hefir varið öllum tekjum sínum, árgjöldum fjelagsmanna, tekjum af sýningum og öllu, sem til hefir tínst, til þess að standast þennan kostnað, og er samt í skuld. Það er því ekki hægt að sjá annað en að það væri mjög vel farið, ef landssjóði væri ekki mjög um megn að veita fjelaginu þessar 1000 kr., og það er öldungis víst, að þær fara ekki í neitt annað en að efla starfsemi fjelagsins. Það eru ekki til nein önnur drög en þetta til íslenskrar listasögu. Og það, sem út er komið af henni, hefir alveg gerbreytt skoðunum manna á uppruna og þróun íslenskrar listar. Menn hjeldu, að við hefðum ekki átt neina listamenn, en þetta rit hefir sýnt, að við höfum átt listamenn, sem barist hafa við mikla örðugleika, og ýmsir þeirra hafa ekki verið neinir heimalningar í listinni, heldur numið hana erlendis og komist furðu langt áleiðis, þó að slept sje Thorvaldsen, sem einnig er tekinn með í þessu hefti. Hjer hefir legið fyrir skýrsla, sem ekki hefir víst komið til nefndarinnar, af því að hún kom svo seint til þingsins. Hún er frá form. fjelagsins og jeg ætlaði að lesa upp úr henni, en það vill svo óheppilega til, að verið er að skrásetja hana, svo að jeg hefi hana ekki í höndum á þessu augnablikinu, og verð að hætta við það.

6. brtt. flyt jeg ásamt samþingismanni mínum, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og er hún um styrk til Hljómsveitar Reykjavíkur. Hún fór fram á að fá 4 þús. kr., en við höfum tekið upp 3500 kr. Ef talað er um framfarir síðustu tíma, þá hefir ekki orðið eins gagnger breyting á neinn eins og í meðferð hljóðfæra, eða svo hefir það að minsta kosti verið síðan jeg fyrst kom til Reykjavíkur. Þá voru hjer menn, sem þóttu ágætir í því að leika á harmóníum og píanó, og örfáir, sem ljeku á fiðlu. En svo hafa kröfur manna breyst, að nálega engir þessara manna mundu nú telja sjer mögulegt að koma fram opinberlega. Og auk þessara framfara hafa menn nú lagt stund á fleiri tegundir hljóðfara, og er það mikil framför. Við höfum ekki fyr en á síðustu árum getað eignast listamenn eins og Pál Ísólfsson, Emil Thoroddsen, Þórarin og Eggert Guðmundssyni, Harald Sigurðsson og fleiri, sem ekki koma nú upp í hugann í svip. Allir þessir menn eru fyrirbrigði, sem talin hefðu verið fánýtur draumur fyrir nokkrum tíma.

En það, sem erfiðast er talið, en jafnframt nauðsynlegt, er að hafa góða hljómsveit. Það er alveg óhugsandi, að tónlistarlíf geti þrifist hjer í Reykjavík án hljómsveitar, því að fjöldinn allur af hinum fegurstu tónsmíðum er gerður fyrir hana og eru ekki meðfæri neins annars en symfóníuorkesturs.

Nú fyrir nokkru hefir verið ráðist í það þrekvirki að setja hjer upp hljómsveit, og er erfitt fyrir þá menn, sem ekki geta tekið þátt í slíku starfi, að hugsa sjer, hvílík fórnfýsi kemur fram hjá þeim mönnum, sem starfa að henni, þar sem annarsvegar er mikil fyrirhöfn og miklir erfiðleikar við það að ná valdi á hljóðfærunum, og þar sem hinsvegar 20 manna sveit verður að vinna að þessu í hjáverkum því nær ókeypis, því að þótt hljómsveitarmönnunum sje greidd lítil þóknun, þá nemur það aldrei líkt því lægstu tímavinnuborgun. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi flestir heyrt einhverntíma til Hljómsveitarinnar, og jeg vona, að jeg móðgi ekki neinn hv. þm. þótt jeg segi, að enginn okkar hafi verulega vit á að dæma um þessa hluti, en þó getum við hafa myndað okkur einhverja skoðun um það, hvort það hafi ekki verið mikið verk að koma þessari sveit upp.

Nú hefir hún sem stendur 2 þús. kr. styrk frá bænum, og með öðrum 2 þús. kr. gæti hún að vísu haldið í horfinu, en þó er sá galli á gjöf Njarðar, að sveitin er hvergi nærri fullskipuð enn, lágmarkið eru 24 menn til þess að hún sje nokkurnveginn skipuð, og svo vantar hljóðfæri í viðbót, og sjerstaklega er einn galli augljós, og hann er sá, að ennþá verður að hafa harmonium með, sem hvergi er gert, þar sem um fullkomna sveit er að ræða. Það er nú fyrir sig, þótt 6 menn vanti, en það vantar meira. Það vantar kunnáttu í því að leika á viðbótarhljóðfærin, og þó að nógir menn vildu læra það, þá vantar kennarann. Nú hefir forstjóri Hljómsveitarinnar hugsað sjer að bæta úr þessu á þann hátt, að komast í samband við veitingahúsaeigendur, sem fá hljómsveitarmenn frá útlöndum, að hyllast til þess að fá hingað menn, sem kunna að leika á þessi hljóðfæri, svo að hægt sje að koma til þeirra þeim, sem læra vilja; en sennilega mundi þetta hafa einhvern aukakostnað í för með sjer, og verður þá að leggja fram fje í því skyni. Ennfremur eru hljóðfærin afardýr, og þarf að styrkja menn til að kaupa þau.

Það er áreiðanlegt, hvað sem hv. þm. kunna að hugsa um þetta, að þeim peningum, sem veittir kunna að verða í þessu skyni, verður vel varið. Þeir fara ekki í neinn „luksus“, þeir fara eingöngu í það að fullkomna hljómsveitina. Þeir fara ekki í há laun forgöngumannanna, því að þeir eru áhugamenn, sem hafa sýnt frábæra fórnfýsi í þessu starfi. Nei, þetta fer alt til þess að gera sveitina svo fullkomna, að hún þurfi hvergi að koma fram sjer til minkunar. Styrknum verður varið til þess að hjer geti orðið hljómsveit, sem getur lofað mönnum að heyra hið markverðasta af tónsmíðum heimsins.

Það hefir nú ýmsum mönnum verið mjög tamt að benda á árið 1930 og þau hátíðahöld, sem þá eiga að fara fram. Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að „agitera“ fyrir þessu máli með því að minna á það ár. En þó vil jeg taka það fram, að þá verður alls ekki komist af án góðrar hljómsveitar. Og jeg hefi heyrt menn segja það, að mjög væri það leiðinlegt, ef þá þyrfti að fá hljómsveit frá útlöndum. Hinsvegar á þetta starf langan aðdraganda og sveitin þarf að starfa í mörg ár, áður en hún getur talist fullkomin.

Jeg vil svo fela þetta velvild hv. þm., og er alveg áreiðanlegt, að ef þeir sjá sjer fært að veita þetta fje, þá verður því vel varið.

Þá ætla jeg að minnast á brtt. á þskj. 297, LII, um að veita Guðmundi Einarssyni myndhöggvara 4 þús. kr. styrk til þess að setja upp leirbrensluofn til myndgerðar.

Þessi maður er mjög efnilegur listamaður, nýkominn frá útlöndum, fjölhæfur mjög og hefir lagt gerva hönd á flestar tegundir lista, aðallega þó myndhöggvaralist. Auk þess er hann sjerlega góður teiknari og hefir sýnt málverk eftir sig, bæði olíumyndir og vatnslitamyndir, prýðilega vel gerðar. Og þar að auki hefir hann lært að mála freskomyndir. Og eitt af því, sem hann hefir lært í síðustu för sinni til útlanda, er alt, sem lýtur að leirbrenslu til leirkerasmíðis. Hefir hann ferðast um hjer á landi til þess að leita að leir til slíks og segir sig hafa fundið leirtegund, sem hæfi mjög vel til þessa.

Það er mikið keypt inn af allskonar útlendum smíðisgripum, og er sumt af þessu heldur ljelegur verksmiðjuiðnaður. Væri því mikilsvirði að fá þetta gert í landinu sjálfu. Það er því í rauninni enginn listastyrkur, sem hjer er farið fram á, heldur styrkur til þess að koma upp innlendri iðnaðargrein. Og það er mjög virðingarvert af þessum listamanni, að hann vill vinna að þessu til þess að hafa ofan af fyrir sjer, til þess að þurfa ekki að lifa á styrk framvegis. En ofnar þessir eru afardýrir, og hann getur ekki komið honum upp nema hann fái 4 þús. kr. styrk til þess. Jeg veit að vísu ekki, hvernig þessir ofnar eru gerðir, en víst er um það, að þeir þurfa að vera mjög vandaðir og listamaðurinn þarf að geta haft fult vald á öllu meðan á brenslunni stendur. Er t. d. eldtungum stýrt þannig, að þær sleikja myndirnar á þeim stöðum, sem listamaðurinn vill, og fá þær við það á sig sjerstakan blæ á þeim stöðum o. s. frv.

Þá ætla jeg loks að minnast á brtt. á þskj. 297, LII, um byggingarstyrk til starfsmanna ríkisins, alt að 10% af byggingarkostnaði, þó ekki yfir 3000 kr. fyrir hverja íbúð, enda sje húsið fullgert og vandað, alt að 20 þús. kr.

Þetta er í raun og veru endurveiting, því að styrkur var veittur í fjárlögum 1924, en kom þá aldrei til framkvæmda. Nú er þetta borið fram í öðru formi en 1923, því að þá var hann hærri, að því leyti, að ætlast var til, að veitt yrði 15% af byggingarkostnaði, en hjer er aðeins farið fram á 10%, og í fjárlögum 1924 var veitt ábyrgðarheimild gegn 2. veðrjetti í byggingum fjelagsins. En nú er hjer um enga slíka heimild að ræða, styrkurinn 10%, en upphæðin ein látin halda sjer. Hv. þm. muna það, að þessi styrkur hefir aldrei verið notaður og stendur inni í ríkissjóði, og jeg lít þess vegna svo á, að þegar um slíka endurveitingu er að ræða sem þessa, þá sje hún svo sjálfsögð, að ekki þurfi einu sinni að mæla fyrir henni. Það má líka benda á það, að þótt styrkurinn væri ekki notaður 1924, vegna þess að menn treystu sjer þá ekki til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, þá geta hv. þm. verið vissir um það, að nú yrði ráðist í þær, enda þótt byggingarstyrkurinn verði lægri.

Jeg ætla svo ekki að mæla frekar með þessari till., af því að jeg er sjálfur starfsmaður ríkisins og málið þess vegna skylt.

Þá eru það 2 till., sem jeg að vísu flyt ekki, en eru þannig vaxnar, að jeg get ekki látið hjá líða að minnast á þær.

Sú fyrri er ein af brtt. nefndarinnar við þennan kafla fjárlagafrv., og hefi jeg heyrt, að nefndin sje klofin um hana. Þessi tillaga er um það, að ef prestaköll eru laus, er kirkjustjórninni heimilt, samkvæmt tillögu prestastefnu, að verja alt að einum prestslaunum til þess að greiða ferðakostnað handa prestvígðum manni, einum eða fleirum, til eflingar andlegri samvinnu meðal presta og kristilegra áhrifa á söfnuði úti um land.

Jeg vil mæla með þessari till., en sje hinsvegar ekki ástæðu til að taka fram um hana meira en hv. frsm. (TrÞ) hefir gert. Mjer finst sanngjarnt, að þegar prestaköll standa óveitt og ríkissjóður sparar á þann hátt nokkuð af því fje, sem ætlað er til þess að efla kirkju og kristindóm í landinu, þá megi taka það til þess að efla kristindómslífið með öðru móti. Því að það er altaf borgað ákveðið gjald í prestlaunasjóðinn, og úr þeim prestaköllum, sem laus standa, er borgað alveg fult gjald eins og úr hinum, sem hafa presta, og þess vegna finst mjer sanngjarnt að verja þessu fje, sem úr hinum óveittu prestaköllum kemur, til þess að bæta að einhverju upp prestsleysið þar.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði, að góðar bækur myndu koma að betri notum en það, sem hjer um ræðir. Jeg gæti skilið þessi ummæli hv. þm., ef aðeins væri um annað tveggja að ræða. En jeg held, að þetta þurfi alls ekki að draga neitt úr útgáfu góðra bóka. En af því að mjer er ekki kunnugt um, að þessi háttv. þm. hafi sýnt neinn sjerstakan áhuga á því, að út kæmu góðar bækur með því að styðja slíkt af almannafje, þá er mjer ekki ljóst, hvers vegna hann lætur svo um mælt. Jeg lasta að vísu ekki góðar bækur, en jeg tel þær alls ekki til jafns við það, að mikilhæfur andans maður ferðist um. Það gerir áreiðanlega mikið gagn, sem ekki verður vegið í pundum, talið í krónum eða mælt í álnum. En það er mikil andleg hressing í þessu fólgin fyrir fólk úti um land, eins og hv. frsm. (TrÞ) sagði, og þess vegna engin ástæða til að vera á móti því. Það er ekki heldur nein ástæða til þess að halda, að það yrðu jafnan Reykvíkingar, sem í þessu skyni mundu ferðast um, ef mönnum er svo meinilla við þá. En hitt finst mjer of mikil meinsemi, að vera á móti þessu af því einu, að einhver kaupstaðarembættismaður kynni að fá hressingu af slíku sumarferðalagi, auk þess sem hann vinnur starf sitt.

Hin tillagan, sem jeg vil leggja liðsyrði, er brtt. á þskj. 297,XXXVII, um eftirgjöf á eftirstöðvum viðlagasjóðsláns Dalasýslu til Hjarðarholtsskólans. Eins og hv. þm. er kunnugt, er sýslan mjög skuldug, og þótt búsæld sje þar í hjeraði, hafa margvíslegir örðugleikar steðjað að, harðir vetrar hafa skollið yfir og sýslan orðið hart úti af völdum þeirra; svo hvíla skuldir á henni vegna Hjarðarholtsskólans. Jörðin var keypt, þegar alt var sem dýrast, og eins áhöfn á hana, og hygg jeg, að þetta lán, sem upphaflega var 10 þús. kr., en er nú mikið afborgað, hafi gengið til áhafnar á jörðina. Og þótt þessar leifar verði gefnar eftir, þá er samt kostnaðurinn við jarðarkaupin eftir, og hygg jeg, að það verði um 30 þús. kr., sem eftir sem áður hvíla á sýslunni vegna skólans.

Það má náttúrlega segja, að þótt vel hafi verið tekið í fjárbeiðni Hvítárbakkaskólans, þá sje hjer ekki farið fram á neitt hliðstætt, því að Hjarðarholtsskólinn er lagður niður. En alveg er það þó sama viðleitnin, sem hvorumtveggja skólanum hefir hleypt af stað, og jafnþungar eru fjárhagsbyrðar af báðum skólunum. Hitt má og segja, að tveir skólar svo nærri hvor öðrum hafi ekki verið heppilegir og því rjett, að annar legðist niður. En að hegna þeim, sem víkur úr vegi, með því að láta hann óstuddan með alla skuldasúpuna, en styðja hinn mjög rausnarlega, það tel jeg alls óverjandi.

Það hefir nýlega verið vikið að draumi í þessari háttv. deild, og það er þá ekki úr vegi, að jeg segi frá draumi, sem mig dreymdi í morgun, rjett áður en jeg vaknaði. Mjer þótti háttv. þm. Dal. (BJ) standa hjer í deildinni og vera að tala fyrir þessari till., og var jeg mjög glaður yfir að sjá hann svo hressan. Jeg verð að segja það, að mjer finst það hálfleiðinlegt að senda honum suður að. Vífilsstöðum ekki annað en hræin af þeim fáu till., sem hann hefir sent þessari háttv. deild til fyrirgreiðslu. Mjer finst, að það væri vel viðeigandi, að við skiluðum honum þó einu af þessum prestslömbum lifandi. Tel jeg svo óþarft að mæla frekar fyrir þessari till.