06.04.1926
Efri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

50. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Um frv. þetta er lítið að segja. Það fer fram á, að sá tími, sem ætlaður er til að semja ellistyrktarsjóðsskrá fyrir Reykjavíkurbæ, sje lengdur um einn mánuð, og sömuleiðis kærufresturinn.

Nefndin getur ekki sjeð neitt á móti því að fara eftir óskum bæjarstjórnarinnar hjer í þessu efni, sem þykir tíminn til að semja skrána of stuttur nú, og leggur því til, að deildin samþykki frumvarpið með þeirri breytingu, að þessi tími verði lengdur alstaðar, eins og tíminn til að semja kjörskrár til alþingiskosninga, því að hún kann ekki við að hafa önnur lög um þetta hjer en annarsstaðar á landinu. Auk þess, sem víðar kann að vera þörf fyrir þessa breytingu, því að víðar en hjer getur verið óþægilegt, hve manntalið kemur seint í hendur þeirra, sem skrárnar eiga að gera, og tíminn því orðið of stuttur til skýrslugerðarinnar.