02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg get vísað til greinargerðar frv. um það, hvernig á því stendur og hvernig það er undirbúið. Auk þess er málið gamalkunnugt, því að það var nokkuð rætt í fyrra, þótt það fengi ekki afgreiðslu í lagaformi.

Aðaltilgangur frv. er, eins og menn hafa skilið, að setja ítarlegri reglur en áður gegn því, að erlendir sjúkdómar berist í húsdýr okkar. Tekur þetta sjerstaklega til klaufnasýkinnar, sem er landlæg í sumum nágrannalöndunum.

Annar tilgangur með þessum lögum er sá, að varna því, að útlend alidýrakyn verði flutt inn eftirlitslaust til kynblöndunar við innlend. Í greinargerð þeirri, sem dýralæknir ljet fylgja frv., orðaði hann það svo, að þetta væri gert til þess að forðast spillingu innlendra kynja af blöndun við útlend. Við myndum ekki hafa viljað orða þetta svo í landbn., því að vitanlega þarf slík blöndun ekki endilega að vera spilling, miklu frekar er líklegt, að hún gæti á stundum orðið til bóta. Því vitanlega stendur rækt erlendra húsdýra að mörgu leyti á hærra stigi en rækt húsdýra vorra. En dýralæknir hefir víst aðeins átt við það, að þetta væri til varnar því, að kynblöndun með erlendum kynjum sje eftirlitslaus, og gæti þannig orðið kynspilling.

Ástæðurnar fyrir því að setja nú frekari tryggingar en nú eru í lögum gegn erlendum dýrasjúkdómum eru fyrst og fremst þær, að nú er álitið, að næmir sjúkdómar geti borist með fleiri dýrategundum en þeim, sem þegar er hannað að flytja inn. Sömuleiðis er það álitið, að sjúkdómar geti borist með ýmsum vörum, en því hefir ekki verið veitt athygli fyr en nú. Loks er það, að munn- og klaufnasýkin hefir geisað allmjög á undanförnu ári í nágrannalöndunum, Danmörku og suðurhluta Svíþjóðar.

Jeg ætla ekki að 1ýsa því, hvað muni vera í húfi, ef þessi veiki berst hingað til lands; það er mönnum kunnugt. Aðeins skal jeg geta þess, að kostnaður ríkissjóðs Svía hefir á einu ári, — frá haustinu 1924 til haustsins 1925 — orðið alt að 15 miljónum króna í baráttunni og vörnunum gegn þessari veiki. Og ótalið er þó það tjón, sem einstakir menn hafa orðið fyrir af lífláti fjárins, þar á meðal niðurskurði, og afurðamissi. Býst jeg fastlega við, að mönnum þyki ekki of langt gengið eða of miklu offrað, þótt skerpt sjeu lögin til tryggingar landinu gegn sýki þessari.

Það má svo heita, að nefndin beri fram frv. óbreytt. Þó er örlítil breyting við 2. gr. Þar var svo ákveðið, að atvinnumálaráðuneytinu væri heimilt, með ráði dýralæknis, að banna innflutning á hálmi, heyi o. s. frv. Nefndin leggur til að orða þetta þannig, að atvinnumálaráðuneytinu sje skylt að gera þetta.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að rekja efni frv. frekar. Jeg sje heldur ekki beinlínis ástæðu til að gera till. um að vísa málinu í nefnd, þar sem það er þannig undirbúið sem það er og kemur frá nefnd, en jeg vona, að það fái greiðan gang gegnum þessa hv. deild.