02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er ekki á móti því, að ráðstafanir sjeu gerðar til að hindra næma sjúkdóma en jeg efast um, að sum ákvæði frv. miði í þá átt, t. d. að banna innflutning á mjólk. Jeg held engum detti í hug að flytja mjólk til landsins án þess fyrst að sjóða hana niður eða gerilsneyða. En jeg held líka, að varla geti komið til mála, að niðursoðin mjólk eða gerilsneydd sje smitnæm, eða að með henni geti borist sá sjúkdómur, (munn- og klaufnasýki), sem hjer er um að ræða.

Í öðru lagi get jeg hugsað, að erfitt sje að fyrirbyggja, að til landsins komi hálmur frá þeim löndum, þar sem alidýrasjúkdómar geisa. Hálmur flyst til landsins nær einungis sem umbúðir, bæði um leirvörur, járnvörur o. fl. Það mun fremur erfitt fyrir atvinnumálaráðuneytið og dýralækni að vita, hvaðan sá hálmur er, sem til landsins flyst sem umbúðir. Það, sem Englendingar gerðu í haust er leið til þess að varna útbreiðslu munn- og klaufnasýkinnar þar, það var að banna mönnum að nota þann hálm, sem notaður hafði verið til nokkurs annars en umbúða, og sjerstaklega ekki undir skepnur í járnbrautarvögnum, í geymslustöðum á markaði o. s. frv., og auðvitað að gefa ekki skepnunum útlendan hálm til fóðurs. Jeg hygg, að það mundi kannske vera rjetta leiðin að banna mönnum að nota hálminn til alls annars en umbúða. Jeg hefi víða sjeð í kaupstöðum, að hálmur er notaður sem undirburður í peningshús og á ýmsan annan hátt, jafnvel gefinn skepnum. En það er varla hugsanlegt, að komist verði af án þess að flytja inn hálm sem umbúðir um leir-, gler- og járnvörur, og sennilega er mjög erfitt að vita, hvaðan hann er, jafnvel þótt víst sje um vöruna, hvaðan hún er.

Jeg vildi óska þess, að nefndin, sem flytur þetta frv., vildi athuga þetta til 2. umr. Einnig láta mjer og öðrum í tje álit sitt um það, hvers vegna banna skuli mjólk. Jeg sje enga ástæðu til að banna innflutning á niðursoðinni mjólk þessara hluta vegna.