02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg get verið þakklátur fyrir, að menn vilja gefa bendingar um þetta mál, til athugunar fyrir nefndina. Og hún mun fúslega athuga það, sem bent hefir verið á. Viðvíkjandi því, að ekki sje þörf á að banna mjólk, þá skildist mjer á niðurlagi ræðu, hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að hann ætti við niðursoðna mjólk. Hjer er átt við hráa mjólk eða nýmjólk eingöngu.

Um hálminn er það að segja, að mjer sýnist engin full nauðsyn muni geta verið á því að nota hálm til umbúða frá þeim löndum, þar sem grunur er um, að klaufaveiki eigi sjer stað. Fleira má hafa til umbúða heldur en hálm. En það getur komið til mála að ákveða þetta þannig, að banna að nota hálminn alment til annars en umbúða.

Jeg er ekki viss um, að jeg hafi skilið háttv. þm. Str. (TrÞ) rjett, þar sem hann var að tala um heyið. Mjer skildist hann vilja láta taka það til athugunar í sambandi við þetta frv., hvernig efnisauðgi heysins væri varið, og aðrar þjóðhagslegar ástæður, sem mæltu á móti innflutningi heys. En þetta frv. nær einungis til þess, hvort banna eigi heyið vegna smitunarhættu, en alls ekki hvort þörf eða ástæða sje til að setja hömlur á innflutning þess af öðrum ástæðum. Hafi jeg ekki skilið háttv. þm. rjett, vona jeg, að hann leiðrjetti það.