04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jón Auðunn Jónsson:

Út af orðum hæstv. atvrh., sem mátti skilja á þann veg, að ekki þurfi að setja dýralækni neinar reglur, þá vil jeg segja það, að jeg kann betur við, að það, sem frá mjer fer, sje hugsað af mjer, en ekki horft á málið með augum dýralæknis. Því er ekki beint að neinum sjerstökunt manni, en dýralæknar þurfa ekki að hafa meiri þekkingu á þeim efnum, sem hjer um ræðir, heldur en aðrir. En bann þetta á hálmi getur valdið stórbaga. Setjum sem svo, að þá er bannið skellur á, þá sjeu á leið hingað vörur fyrir hundruð þúsunda króna og sjeu pakkaðar í hálm. Þeir menn, sem pantað hafa vörur þessar, gætu ekki við neitt ráðið og yrðu að senda vörurnar út aftur. En það er alhægt að koma því svo fyrir, að hálmur sje hættulaus, með því einfalda ráði, er bent er á í minni brtt. Ef háttv. landbn. vildi taka brtt. til athugunar, þá get jeg tekið hana aftur til 3. umr. En verði svo ekki óska jeg, að hún komi til atkv. nú.

Út af þeim orðum, sem fallið hafa hjer í háttv. deild, skal jeg taka það fram, að í einum fjárlögum Alþingis hefi jeg sjeð talað um innflutning á mönnum. Jeg man nú ekki, hvaða ár þetta var, en stjórninni var heimilað að verja 10 þús. kr. upphæð til innflutnings á sjófólki til Austfjarða. Þá munu flestir hafa sjeð eða heyrt talað um innflutning fólks til Bandaríkja Ameríku og að þar sjeu ýmsar reglur settar um innflutning fólks. Sýnir þetta, að ekki er svo fráleitt að tala um innflutning á fólki í sambandi við frv. þetta.