10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1927

Ólafur Thors:

Jeg á hjer tvær smáar brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Fyrri brtt. er XXXV, á þskj. 297, við 14. gr. B. XIV,6, um að tillagið til Flensborgarskólans verði hækkað úr 14 þús. krónum upp í 17 þús. krónur. Það er svo, eins og mönnum er kunnugt, að þessi skóli hefir um langan tíma verið kostaður af ríkissjóði, en framlagið til hans hefir verið mjög af skornum skamti. Skólinn á sjálfur sitt eigið hús, en hefir engan tekjustofn fram yfir það sem ríkissjóður leggur honum til, nema afgjald af jörðinni Hvaleyri, sem er 150 krónur á ári. Tillagið úr ríkissjóði hefir verið háð því skilyrði, að innanbæjarmenn skyldu greiða skólagjald. Þessa hefir verið freistað, og hefir það gefist mjög illa. Hefir skólanefnd Flensborgarskólans því sent mjer erindi, þar sem hún óskar, að þetta skólagjald verði látið falla niður, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr brjefi hennar. Hann er svo hljóðandi:

„Út af skólagjöldum innanbæjarnemendavar það tekið fram, að þau hafa vakið megnustu óánægju hjer í bænum og hafa að mun dregið úr aðsókn að skólanum og aftrað því, að sumir efnilegir nemendur gætu notað kensluna.

Fer nefndin þess vegna fram á það við hið háa Alþingi, að skólagjöldin verði numin burtu og skólinn fengi þess ríflegri styrk úr ríkissjóði, sem skólagjöldunum næmi. Þess skal getið, að á næsta ári liggur fyrir mikil viðgerð við hús skólans, sem óhjákvæmilega hefir mikinn kostnað í för með sjer.“

Eins og þetta álit ber með sjer, hafa skólagjöldin aftrað mörgum efnilegum nemendum frá að sækja skólann. Vona jeg því, að hv. deild geti gengið inn á að fella niður þetta skilyrði fyrir styrkveitingu til skólans, en samþykki aftur aukastyrk til hans, er jafngildi skólagjöldunum.

Jeg skal ekki tefja umr. með því að fara að lýsa því, hverja hylli þessi skóli hefir áunnið sjer, því að það þekkja hv. þdm. ekki síður en jeg, en vona, að skólinn njóti þess, þegar til atkvgr. kemur. Jeg vil hinsvegar geta þess, að þó að jeg hafi ekki orðað nema 3000 króna aukningu á styrknum til skólans, og vilji þá láta skólagjöldin falla niður, væri þess þó full þörf, að hann væri styrktur ríflegar, því fjárhagur hans er mjög þröngur, svo að öll útgjöld hefir jafnan þurft að skera við nögl. Þannig hefir skólastjóri aðeins haft 300 króna laun á mánuði, en skólakennarar 250 krónur. Jeg vænti því, að þó að það eftirleiðis yrði gert að skilyrði, að skólagjaldið stæði, sem þó er gagnstætt von minni, þá yrði samt aukið tillagið til skólans.

Jeg á hjer aðra brtt. á sama þskj. Það er brtt. LXVI, er fer fram á það, að Ögmundi Sigurðssyni skólastjóra verði veitt eftirlaun, 2000 krónur, auk dýrtíðaruppbótar, ef hann lætur af skólastjórn. Ögmundur Sigurðsson er einn af elstu kennurum þessa lands, hefir starfað við skólann sem kennari og skólastjóri í 44 ár, og hygg jeg, að ekki sje ofmælt, að hann sje einn vinsælastur kennari hjer á landi. Hann hefir í öll þessi ár búið við sultarkjör, og þess vegna ekki getað safnað fje, en honum hefir safnast annað, sem mölur og ryð fær ekki grandað. Hann er elskaður og virtur af öllum nemendum sínum, sem dreifðir eru víðsvegar um land. Jeg hefi nú gerst boðberi þessara manna og flyt hv. deild einhuga óskir þeirra allra um að þessi aldraði vinur og lærifaðir verði ekki sendur á vergang, þegar hann sakir heilsubrests verður að láta af störfum eftir langt og vel unnið starf, en það getur orðið fyr en varir, vegna þess að sjónin er farin að daprast; þó mun hann fyrst um sinn halda áfram starfi sínu, þar til honum er meira aftur farið, því að hann er enn starfhæfur og starfslöngunin óbilandi.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um mannkosti þessa manns, því að hann er þjóðfrægur, og vona jeg, að hv. deildarmönnum verði því ljúft að greiða þessum elli- og heiðursstyrk atkvæði sitt, og það því fremur, sem Ögmundur hefir reynst sjerstaklega nýtur utan kennarastarfsins. Jeg afhendi nú hv. deild þessa ósk hins fjölmenna lærisveinahóps og tek það fram, að það er í fullu trausti þess, að það sje hv. deildarmönnum kunnugt, án þess að mín umsögn komi þar til, hvílíka verðleika þessi maður hefir, og að það er fyllilega verðskuldað, sem hjer er farið fram á.