15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og hefir tekið þar lítilsháttar breytingum, en þær snerta ekki aðalatriði málsins, og getur landbn. því fallist á þær. Skal jeg gera grein fyrir í hverju breytingarnar liggja. Þær snerta tvö atriði. Fyrra atriðið er það, að fuglar eru fluttir úr l. gr. í 2. gr., þannig að þeir flytjast undan hinu almenna banni í 1. gr. undir bannið í 2. gr. Hitt atriðið er skifti á orðum, þannig að sett er „heimilt“ fyrir „skylt“. og var það svona upphaflega í frv., en landbn. hafði orðaskifti, af því að hún áleit, að með því að hafa orðið „skylt“, fælist í frv. meiri trygging. Eftir að hæstv. atvrh. (MG) hefir lýst yfir við fyrri meðferð málsins, að stjórnin mundi skilja greinina eins, hvort orðalagið sem væri, getur landbn. vel felt sig við að orða þetta eins og upphaflega var gert.

Þá liggja enn fyrir brtt. frá þeim hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. Str. (TrÞ) á þskj. 282. Nefndin hefir í raun og veru tekið afstöðu til þessara brtt. áður, þó að þær hafi ekki formlega verið teknar til meðferðar á nefndarfundi, þar sem búið var að skjóta til nefndarinnar því sem till. fjalla um. Nefndin hafði látið í ljós, að hún vildi ekki blanda saman þeim ástæðum, sem eru fyrir þessum brtt., og þeim, sem eru fyrir frv. Aðalástæðan fyrir frv. er sú, að það er sett til varnar því, að alidýrasjúkdómar berist til landsins, en þessar brtt. eru bygðar á öðrum ástæðum, og telur nefndin, að taka verði afstöðu til þeirra ástæðna alveg sjerstaklega, en þar með er ekkert sagt um afstöðu einstakra nefndarmanna til þeirra. Eflaust mælir margt með þeim, og svo aftur eitthvað á móti.