15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. frsm. (HStef) hefir lýst afstöðu landbn. til brtt. á þskj. 282, og skildist mjer, að það væru einstakir þm., sem hefðu sjerstaka afstöðu til þeirra. Þar sem nefndin hefir ekki heyrt rök okkar flm., vona jeg, að nefndin hafi a. m. k. ekki öll snúist gegn þessum tillögum.

Í frv. er landsstjórninni skylt að banna um stundarsakir innflutning á heyi frá þeim löndum, þar sem næmir húsdýrasjúkdómar ganga, en ef ekki er um slík lönd að ræða, er heimilt að flytja inn hey. Með öðrum orðum er samkvæmt frv. aðalreglan sú, að það á að vera heimilt að flytja inn hey. Við hv. þm. Borgf. (PO) viljum með brtt. okkar snúa þessu við, þannig að aðalreglan sje sú, að bannað sje að flytja inn hey, en hitt sje undantekning, og innflutningur á heyi verði aðeins leyfður, þegar fóðurskortur er yfirvofandi. Jeg veit, að það kemur engum hv. deildarmanni á óvart, þó að við hv. þm. Borgf. berum fram slíka brtt. sem þessa. Okkar hugur í þessu máli kom greinilega fram í fyrra. Það var ekki einungis vegna sjúkdómshættunnar, sem við bárum fram þessa brtt, heldur erum við þeirrar skoðunar, að það sje óhæfilegt búskaparlag að þurfa að vera að flytja inn hey. Það er búskaparleg fjarstæða, og við lítum svo á, að ástæða sje til þess að hlynna að því að bændastjett landsins hafi sem besta aðstöðu til að fá gott verð fyrir heyið.

Jeg skal taka það fram, að ástæðan til þess, að við berum brtt. svo seint fram, er sú, að við biðum eftir að fá í hendur þau gögn í þessu máli, að Búnaðarfjelag Íslands hefir fengið efnarannsóknarstofuna til að rannsaka útlenda heyið, og hefir Búnaðarfjelagið svo unnið úr skýrslu efnarannsóknarstofunnar. Að vísu er þessum rannsóknum ekki fyllilega lokið, en samt má draga af þeim þær ályktanir, sem nú skal greina.

Rannsóknum þessum ber ágætlega saman við opinberar rannsóknir í Noregi hvað norska heyið snertir. Hinsvegar eru til margar rannsóknir á íslensku heyi, og á þeim grundvelli er þessi samanburður gerður.

Það segir svo í skjalinu:

„Eftir þessu er í norska heyinu minna af steinefnum, köfnunarefnissamböndum og fitu, en meira af trjeni, og mun þetta alt rýra fóðurgildi þess, en hver hinn raunverulegi mismunur er, verður eigi sagt með vissu: til þess vantar margar rannsóknir á meltanleik efnanna í fóðrinu, og vart verður því spursmáli heldur sparað ábyggilega nema með fóðrunartilraunum. En sje nú heyið lagt í fóðureiningar, ísl. heyið samkvæmt útreikningi Halldórs Vilhjálmssonar og norska heyið samkvæmt útreikningi Norðmanna, verður útkoman þessi:

Í eina fóðureiningu

Í 100 kg. fóðurs

þurfa. kg.

eru fóðureiningar

Besta taða

1.8

55

Meðaltaða

2.0

50

Ljeleg taða

2.5

40

Besta úthey, aðall. stör

2.2

45

Meðalúthey

2.5

40

Ljelegt úthey

3.0

33

Norskt hey

2.3

44

Eða ef maður snýr dæminu við og segir, að ein fóðureining, eða 2 kg. af meðaltöðu íslenskri, kosti 40 aura, þá eiga 100 kg. af meðaltöðu að kosta 20 kr., af góðu útheyi íslensku 18 kr., en af norsku heyi 17 kr. 60 aura. Verðmunur á íslenskri meðaltöðu og norskri töðu á að vera 12%.

Jafnframt er í skýrslunni tilfært verð á heyi því, sem flutt er hingað til bæjarins. Þar er talið, að venjulegt verð á 100 kg. af töðu sje 20 kr., á útheyi 16 kr. og á norsku heyi 20 kr., miðað við 100 kg. En þó er tekið fram að verð á íslenskri töðu hafi komist upp í 28 kr. og norskt hey upp í 22 kr., miðað við 100 kg. En tíðast mun það ganga svo, að norska heyið sje selt jöfnu verði og íslenska taðan en ætti þó af framansögðu að vera 12% lægra.

Á Akureyri er verðið lægra á íslensku heyi. Þar eru 100 kg. af töðu seld á 16 kr., en norska heyið mun selt þar við sama verði og hjer í Reykjavík.

Þetta veit almenningur ekki.

Það, sem ginnir menn til þess að kaupa útlenda heyið er, að það er fallegt útlits, lyktargott og vel verkað.

Það er fráleitt búskaparlag að flytja inn hey og er þar við bætist, hve mikill verðmunur er á því og íslensku heyi, miðað við notagildi þess, þá verður því ekki neitað með rökum, að till. okkar háttv. þm. Borgf. sje á fullkomlega rjettlátum grundvelli bygð, auk þess, sem við með henni viljum fyrirbyggja það, að þeir menn, sem á annað borð verða að kaupa útlent hey, skuli gefa fyrir það 12% hærra verð en á að vera.

Hinsvegar skal jeg geta þess, að þó við viljum leggjast á móti innflutningi heys, þá vil jeg ekki með því viðurkenna, að heysalan innanlands sje í besta lagi. Því er nú miður svo farið, að þeir, sem leggja fyrir sig að selja hey, verka það ekki eins og vera ætti nje vanda til þess á þann hátt, að við megi una. Það þyrfti að setja lög eða reglugerð um mat á heyi, svo vönduð yrði betri verkun á því en átt hefir sjer stað, einkum hjer sunnanlands, og á jeg þá við það hey, sem aðallega er selt hingað til Reykjavíkur. Og ekki skyldi standa á mjer til þess að samþykkja slíka reglugerð til þess að tryggja heysöluna og gera skipulag hennar innanlands betra og hagkvæmara.

Það hefir staðið á upplýsingum í þessu efni, og fyrir tilmæli mín var það gert á dögunum, að málið var tekið af dagskrá. Nú eru þessar upplýsingar fengnar og þess vegna skora jeg á hv. þdm. að samþykkja brtt. okkar á þskj. 282.