15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að taka undir það, sem hv. frsm. landbn. (HStef) sagði, að hjer er um óskyld atriði að ræða, sem verið er að blanda inn í frv., og ekki víst, að þær ástæður, sem mæla með brtt. á þskj. 282, leiði til sömu niðurstöðu og ætlast er til með frv. Það er hugsunarrjett hjá hv. frsm., sem talað hefir fyrir nefndina, að það mætti ekki blanda þessum tveimur atriðum saman, og vil jeg styðja skoðun hans og nefndarinnar í þessu efni. Hinsvegar gleður það mig, að Búnaðarfjelag Íslands hefir rannsakað útlenda heyið og slegið föstu, hvert notagildi þess sje, samanborið við innlent hey. En að norska heyið reynist verra eða mun lakara til fóðurs en menn höfðu ímyndað sjer, ætti ekki að þurfa að leiða til þess að banna innflutning á því, heldur ætti það að kenna mönnum að kaupa það við lægra verði, eða því, sem munar á gæðum þess, borið saman við innlent hey.

Annars er hjer sama að segja og áður hefir verið tekið fram, hjer í hv. deild, að menn kaupa ekki útlent hey, ef innlent hey er á boðstólum með því verði, sem hæfilegt þykir vegna gæðamunar. En geta má þó þess, að sumstaðar á landinu er svo miklum erfiðleikum bundið að afla heyja, að spursmál er, hvort rjett sje að þröngva mönnum til þess að kaupa ísl. hey, svo að segja hvernig sem er og við hvaða verði, sem heimtað er. Svo er t. d. um Vestmannaeyjar og Ísafjörð, sem mestallan heyfeng sinn þurfa að kaupa að um langan veg. Ef þeir geta fengið jafngott innlent hey við sama verði, kaupa þeir ekki útlent hey. Besta ráðið við því að draga úr innflutningnum er það, að fá upplýsingar um hvers virði útlenda heyið sje, og þegar þær eru fengnar, kaupa menn fremur innlenda heyið, ef hæfilegur verðmunur fylgir, miðað við notagildi þess.

Annars virðist mjer á orðalagi þessarar brtt. á þskj. 282, að það verði ekkert hægðarverk fyrir atvinnumálaráðuneytið að framkvæma hana. Það verður nokkuð erfitt að ákveða, hvenær „veruleg“ hætta sje á fóðurskorti. Atvinnumálaráðuneytið verður þar að fara mest eftir sögusögn annara. En aðalatriðið er þó fyrir mjer, að hjer er blandað inn í frv. ákvæði, sem ekki á þar heima. Eigi að skipa þessu með lögum, verður að koma fram sjerstakt frv. í því efni.